Heimur batnandi fer

Rétt fyrir jól, á hverju einasta ári, fyllast síður blaða og vefmiðla af fréttum um þá sem minna mega sín í jólaösinni, fjölskyldur sem eiga ekki pening fyrir jólamatnum og heimili þar sem jólasveinninn getur ekki gefið í skóinn. Stríðsfréttir, náttúruhamfarir og efnahagskreppur dynja þess að auki á okkur, á hverjum degi, allt árið um kring.

Á hverju einasta ári hríslast um leið að mér sú tilfinning að þetta sé nú allt að fara til fjandans. Ég lagði því smá lykkju á leið mína, út af mbl.is og eyjan.is, í leit af því sem vel gengur.

Í september árið 2000, í upphafi nýs árþúsunds, sameinuðust ríki heims um átta tilgreind markmið sem skyldu nást fyrir árið 2015. Það eru nú átta dagar til stefnu. Á listanum eru metnaðarfull markmið eins og að eyða fátækt og hungri, lækka dánartíðni barna, tryggja að öll börn njóti grunnskólamenntunar, auka jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt kvenna og styrkja hnattræna samvinnu um þróun.

Það er skemmst frá því að segja að mikill árangur hefur náðst á mörgum sviðum. Einungis tvö markmið eru fjarri því að nást; tryggja öllum börnum grunnskólamenntun og sjálfbærni umhverfisins. Langmestur árangur hefur náðst í að eyða fátækt og hungri. Þannig fækkaði þeim sem búa við sára fátækt í heiminum um helming frá 1990 til 2010. Þeim sem lifa á innan við 1,25 dollurum á dag hefur fækkað frá því að vera 47% fólks í þróunarlöndum í 22% á árunum 1990 til 2010. Dánartíðni barna undir 5 ára aldri hefur lækkað um 47%, farið frá því að vera 90 dauðsföll fyrir hverjar 1000 fæðingar árið 1990 í 48 dauðsföll árið 2012.

Það er ljóst að öllum markmiðunum verður ekki náð að fullu en þessar fáu staðreyndir sem hér eru nefndar hljóta að fylla okkur von um að eitthvað sé á réttri leið. Um leið þurfa þjóðir heims að halda „fókus“, koma sér saman um ný markmið og halda áfram að bæta heiminn. Sú stefna verður væntanlega mörkuð á fundi sameinuðu þjóðanna í september 2015.

Þær staðreyndir sem hér hafa verið taldar, haldast fullkomlega í hendur við breytta ímynd mína af svokölluðum „þróunarlöndum“. Satt best að segja er hugmyndin um „þróunarlönd“, þar sem allir eru fátækir eða að murka lífið hver úr öðrum, smátt og smátt að hverfa. Heilu heimsálfurnar, eins og Afríka og Suður-Ameríka, eru nú miklu frekar ímynd framtíðarinnar, þess sem koma skal, fremur en táknmynd fátæktar og vonleysis. Það má allt eins búast við því að við munum lifa þá tíma að Evrópubúar flykkist til Afríku og Suður-Ameríku í leit að betri tækifærum. Hversu magnað er það – þó ekki sé meira sagt?

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.