Mikilvægast af öllu

Það er stundum sagt að fjárlög endurspegli best áherslur og stefnu ríkisstjórnar hverju sinni. Hvort það á við um sitjandi ríkisstjórn skal ósagt látið en hitt er í öllu falli ljóst að fjárlagafrumvarpið hefur dregið fram í dagsljósið hvað það er sem stjórnarandstaðan telur mikilvægast af öllu í íslensku samfélagi; ríkisrekinn fjölmiðill.

Í samræmi við þingsköp voru greidd um það atkvæði á Alþingi í gær að vísa fjárlagafrumvarpi til nefndar að lokinni 2. umræðu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar héldu uppi áköfum málflutningi í atkvæðagreiðslunni, nánast um eitt mál eingöngu, fjárframlög til Ríkisútvarpsins. Fór svo að atkvæðagreiðslan stóð í heilar 6 klukkkustundir. Var með því sett Íslandsmet og er þá ýmsu saman að jafna.

Samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar stendur til að veruleg aukning verði á framlögum til Ríkisútvarpsins af skattfé. Samkvæmt frumvarpinu munu útgjöld skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins verða 3.680 milljónir króna á næsta ára en árið 2013, í tíð síðustu ríkisstjórnar, voru framlögin 3.195 milljónir. Þetta er aukning upp á hálfan milljarð króna eða um 15%. Ríkisútvarpið mun þannig hafa til ráðstöfunar meira en 13 milljónir á dag alla virka daga allt næsta ár, að ótöldum auglýsingatekjum. Þetta kemur bara inná reikninginn hjá þessu fyrirtæki, fyrirhafnarlaust, frá skattgreiðendum. Þetta er auðvitað vonlaus staða fyrir vesalings fólkið sem þarf að reka þetta fyrirtæki.

Það er eðlilegt að stjórnarandstaðan sé brjáluð. Á meðan heilbrigðiskerfið er að molna niður og fjárframlög til menntastofnana duga varla fyrir kyndingu munu Ríkisútvarpið ekki fá nema 500 milljóna króna hækkun á framlögum úr sjóðum skattgreiðenda. Og talsmenn stjórnarandstöðunnar drógu hvergi af sér í gær. Talað var um aðför að lýðræðinu í landinu. Helstu málgögn stjórnarandstöðunnar hafa svo haldið þessum málflutningi áfram í dag. Ég hygg reyndar að grunnstoðum velferðarkerfisins, hvort sem litið er til skóla eða sjúkrahúsa, veitti ekki af því að ríkisvaldið gerði álíka aðför að þeim.

Eftir gærdaginn liggur forgangsröðun stjórnarandstöðunnar fyrir. Í sex klukkutíma barðist stjórnarandstaðan fyrir því að viðbótarframlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins samkvæmt frumvarpinu yrðu tvöfölduð, hið minnsta. Litlar sem engar athugasemdir voru gerðar við áætluð framlög til heilbrigðis- og menntamála. Þeir málaflokkar fengu ekki nema nokkrar mínútur af ræðutíma stjórnarandstöðunnar – Ríkisútvarpið fékk tæpa sex tíma.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.