Uppgjörið sem bíður enn…

Fyrir mörg okkar er siðfræðileg og hugmyndafræðileg hnignun Repúblikanaflokksins skuggaleg áminning um það hvernig flokkar geta snúist gegn grunngildum sínum og siglt sofandi að feigðarósi í stað þess að ráðast á sín innanmein, þróa hugmyndafræði sína í takt við breyttan tíðaranda og um leið byggja á málefnalegum grunngildum sem ekki eigi að hvika frá.

Mörg upplifðu talsverðan létti í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum og skipti þá litlu hvar á hinu pólitíska litrófi fólk kýs að staðsetja sig. Forsetatíð Donald Trump hafði verið óhugnanlega áminning um hversu brigðul þau stjórnkerfi við styðjumst við geta verið og á hversu skömmum tíma stjórnmálaflokkar geta fjarlægst sína grundvallarhugsjón.

Undir forsetatíð Trump sáum við hvað fylgjendur forsetans og margir innan Repúblikanaflokksins voru til í ganga sífellt lengri í því að fjarlægast sín eigin gildi. Vissulega hefur þar rétt eins og víðar verið togstreita íhalds og frjálslyndis, en rasískt afturhald uppfullt af popúlsima virtist ekki duga til að vekja upp teljandi andstöðu innan flokksins. Eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir og þrátt fyrir óteljandi málaferli þar sem reynt var að draga lögmæti kosninganna í efa, þrýsting á kjörmenn og varaforseta að hafna staðfestingu kosninganna var kjör Biden að lokum formlega staðfest af bandaríska þinginu þann 6. janúar síðastliðinn.

Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig en þann sama dag réðst hópur stuðningsmann Trump á þinghúsið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir talningu á atkvæðum kjörmanna, þingmenn neyddust til að leita skjóls, tugir særðust og nokkur mannslíf glötuðust. Þarna héldu mörg að Trump og hans stuðningsmenn hefðu vegið með svo ósvífnum hætti að grunnstoðum stjórnarskrárinnar og lýðræðisins að loksins færi fram uppgjör við stjórnartíð hans og Repúblikanaflokkurinn sliti sig frá áhrifum hans.

Við talningu atkvæða kjörmanna og eftir árásina mátti loks heyra almennileg andsvör og gagnrýni á Trump og framferði hans úr röðum repúblikana. Leiðtogar á þingi og aðrir aðrir áhrifavalda innan flokksins risu loksins upp, en uppgjörið virðist ætla að verða langsótta því fljótlega dró úr gagnrýninni og þau fáu sem hafa haldið sig við gagnrýnina hafa átt erfitt uppdráttar. Þar má kannski helst nefna Liz Chaney sem var í gær felld með kosningu úr leiðtogahlutverki sínu hjá flokknum, eftir að hafa verið opinská með gagnrýni sína á Trump, sérstaklega aðkomu hans að árásinni 6. janúar og ásökunum hans um að kosningunum hafi verið stolið. Hún telst tilheyra hópi íhaldssamra, hvort sem viðkemur félaglegum málefnum, opinberum fjármálum, hernaði eða öðru. Hennar áherslur ríma því vel við flokkinn en hún vogaði sér að gagnrýna Trump opinberlega og hefur ekki látið af því eins og margir samstarfsmanna hennar. Hún hefur aðallega gagnrýnt hann fyrir að uppfylla ekki einfaldar kröfur eins og að segja sannleikann, virða lýðræðið og stjórnarskrá landsins. Það er því ljóst að tangarhald Trump á flokknum er enn talsvert og flokksmenn virðast amk enn sem komið er setja tryggð við Trump ofar hugmyndafræði og grunngildum.

Fyrir mörg okkar er siðfræðileg og hugmyndafræðileg hnignun Repúblikanaflokksins skuggaleg áminning um það hvernig flokkar geta snúist gegn grunngildum sínum og siglt sofandi að feigðarósi í stað þess að ráðast á sín innanmein, þróa hugmyndafræði sína í takt við breyttan tíðaranda og um leið byggja á málefnalegum grunngildum sem ekki eigi að hvika frá.

Latest posts by María Guðjónsdóttir (see all)

María Guðjónsdóttir skrifar

María hóf að skrifa í Deigluna í júlí 2008.