Umræðan innan stafbila

Rangar eða falsaðar fréttir berast t.d. að meðaltali sex sinnum hraðar en réttar og staðreyndar fréttir og rangar eða falsaðar fréttir um stjórnmál dreifast þar best.

Það barst til tals í umræðuþætti fyrir stuttu að samfélagsmiðlar hafi ekki endilega þróast með þeim hætti sem vonast var eftir, að þeir hafi ekki orðið byltingarkennt lýðræðistól heldur vandmeðfarinn samskiptamáti sem ýti fólki út á jaðarinn. Þar gefist sjaldan tækifæri til málefnalegrar umræðu, hvort sem það er reiknirit sem býr til bergmálshelli, skilaboðin skiljast illa í athugasemdakerfum eða einfaldlega því að einhverra hluta vegna virðast margir ekki telja að almenn kurteisi og háttprýði í samskiptum eigi við á samfélagsmiðlum. Þessu til viðbótar virðast rannsóknir benda til þess að rangar og misvísandi fréttir dreifist hraðar, fari víðar og hafi meiri áhrif en þær sem standast strangari kröfur. Rangar eða falsaðar fréttir berast t.d. að meðaltali sex sinnum hraðar en réttar og staðreyndar fréttir og rangar eða falsaðar fréttir um stjórnmál dreifast þar best.

Umræðan nær því sjaldnast að verða málefnaleg og hvað þá efnisleg á dýptina. Arg og þras þeirra sem eru háværastir og yst á jaðrinum á það til að stýra umræðunni svo sjaldan verður komist lengra en þrýsta á fólk til að vera með eða á móti, jafnvel litlir hlutir eins og að líka við eitthvað eða fylgja einhverum er túlkað sem allsherjar stuðningsyfirlýsing. Það má jafnvel færa fyrir því rök að með eða á móti sé varfærið orðalag, oft eru mun gildishlaðnari orð látin falla um fólk eftir því hvorum megin við ásinn það stendur.

Þó stundum sé hægt að ræða menn og málefni í hópi fólks á málefnalegan hátt í raunheimum virðist það næsta ómögulegt á samfélagsmiðlum. Þar er almennt í boði að vera með eða á móti, jafnvel þó reynt sé að benda á sjónarmið og draga fram að málin séu einmitt ekki endilega svona svarthvít og að margt og jafnvel flest sem viðkemur samfélaginu og mannlegum málum sé þá frekar grátt og alls ekki svo algilt. 

Við sem samfélag verðum að geta rætt stór mál sem vissulega eru umdeild, því oft er þeim mun mikilvægara að geta átt samtalið og tekið opna, erfiða, en nauðsynlega umræðu. Í flestum umdeildum og erfiðum málaflokkum býður umræðan okkur að vera með eða á móti og á meðan umræðan kemst ekki inna af jaðrinum, náum við ekki fram nauðsynlegum breytingum og erum föst í sömu sporum ár eftir ár og ef við getum ekki rætt erfiðu málin og leitast við að finna lausnir við flóknum viðfangsefnum samtímans, hverskonar samfélag erum við þá?

Miðað við þróun undanfarinna ára og aukna þekkingu á virkni samfélagsmiðla, má færa fyrir því rök að samtalið þurfi að eiga sér stað á öðrum vettvangi en þar sem stafbil og upphrópanir ráða ríkjum.

Latest posts by María Guðjónsdóttir (see all)

María Guðjónsdóttir skrifar

María hóf að skrifa í Deigluna í júlí 2008.