Guð, herinn og fáninn

Superbowl, eða Ofurskálin eins og þessi viðburður hefur verið þýddur á íslensku, fór fram á dögunum en fyrir þá sem ekki þekkja til er um að ræða úrslitaleikinn í NFL-deildinni í amerískum fótbolta. Þetta er stórviðburður á allan mælikvarða og ekki bara íþróttaleikur heldur menningarveisla. Keppst er um það hverju sinni að hafa aðdragandann sem glæsilegastan og umgjörðina sem veglegasta. Þannig er ekki síður rýnt í allt sem tengist leiknum, þ.e. sýninguna í hálfleik, auglýsingarnar sem eru frumsýndar og hvernig listamönnunum tekst til, heldur en leikinn sjálfan.

Superbowl, eða Ofurskálin eins og þessi viðburður hefur verið þýddur á íslensku, fór fram á dögunum en fyrir þá sem ekki þekkja til er um að ræða úrslitaleikinn í NFL-deildinni í amerískum fótbolta. Þetta er stórviðburður á allan mælikvarða og ekki bara íþróttaleikur heldur menningarveisla. Keppst er um það hverju sinni að hafa aðdragandann sem glæsilegastan og umgjörðina sem veglegasta. Þannig er ekki síður rýnt í allt sem tengist leiknum, þ.e. sýninguna í hálfleik, auglýsingarnar sem eru frumsýndar og hvernig listamönnunum tekst til, heldur en leikinn sjálfan.

Nokkur minni standa upp úr leiknum í ár. Áherslan á bandaríska fánann er gríðarleg. Ég held að myndatökumenn á bandarískum sjónvarpsstöðvum viti að þeir eru að gera eitthvað rétt ef fáninn er í mynd. Hið sama má segja um herinn. Hann er mikið sýndur og fyrirferðarmikill í þessu öllu. Til marks um það flugu fjórar bandarískar orrystuþotur yfir leikvanginn rétt í þann mund sem þjóðsöngurinn var fluttur og rétt áður en að leikurinn byrjar er nokkrum hetjum úr herliði Bandaríkjanna rúllað inn á völlinn. Af aldrinum og útlitinu að dæma gætu þeir hafa tekið þátt í fyrri heimsstyrjöldinni þótt sú síðari sé líklegri ágiskun. Ungir voru þeir í öllu falli ekki.

Leikmenn og dómarar og aðrir keppast um að sýna öllu þessu virðingu, helst þannig að þetta snerti þá og jafnvel veiti innblástur fyrir leikinn. Trúin er heldur aldrei langt undan. Guð er raunar snar þátttakandi í íþróttaviðburðum vestanhafs og ekki óalgengt að sjá íþróttamann þakka og jafnvel tileinka Guði almáttugum sigra og titla.

Stemningin á bandarískjum íþróttaleikjum er svo í anda þessa hástemmda hetjuþema, það eru allir peppaðir og þvílíkt klárir í þetta. Sjónvarpsmyndavélarnar stunda það grimmt á íþróttaleikjum að skjóta upp í áhorfendastúkuna á tiltekna áhorfendur og það bregst ekki á bandarískum kappleikjum að ungir sem aldnir standa upp við það tilefni, byrja að dansa og hrista sig og allir í kring fagna og klappa með. Það jaðrar líklega við einhvers konar landráð þarna vestra að vera þungur á brún og ekki peppaður. Slíkt gera bara guðlausir kommar og evrópskir bóhemar.

Þessi sama stemning nær til íþróttafréttamannanna. Lýsendurnir eru allir með skjannahvítar tennur, góðan BMI-stuðul og fallega húð og þeim fatast aldrei flugið í lýsingum. Allir með tölu sennilega klárir í dansspor, trúarjátningar og að hlaupa undir bagga með bandaríska hernum ef svo bæri undir. Lýsingin og orðfærið er þannig að maður fær á tilfinninguna að þetta hafi allt verið skrifað niður fyrirfram með nokkurra mánaða fyrirvara og æft stöðugt síðan.

Umgjörð íslenskra kappleikja er sennilega eins langt frá þessu og mögulegt er. Við spilum í strangheiðarlegum íþróttahúsum með skrýtinni lýsingu og alls konar dýnum, rimlum og öðrum áhöldum hangandi hér og þar.

Umgjörðin ber yfirleitt rekstrarvanda íþróttafélaganna glöggt merki, bilaðar stigatöflur og gulnuð auglýsingaskilti með stöku sjálfboðaliða hlaupandi í öll störf. Hér yrði sennilega kallað á aðstoð fagfólks ef fyrirliði íþróttaliðs færi að ræða í löngu máli um almættið eða tileinka því sigra hjá liðinu sínu. Ég veit ekki með hvaða hætti við ættum að heiðra herinn okkar því við eigum engan en það mætti mögulega sjá fyrir sér að láta varðskip Landhelgisgæslunnar, með Georg Lárusson dreyminn á svipinn í stafni, sigla einn hring um Reykjavíkurhöfn á meðan en yfirleitt yrði of hvasst til þess fyrir utan að enginn sæi það. Við gætum fengið gamla skipherra af varðskipunum síðan úr þorskastríðunum til að mæta og veifa áhorfendum í byrjun leikja en þeir eru að öllum líkindum fluttir til Tenerife út af verðlagi og veðurfari á Íslandi. Og það yrði örugglega ekki gott sjónvarp að fara að skjóta myndavélinni upp í stúku þar sem íslenskir áhorfendur sitja á bekkjum sem eru svo óþægilegir að flestir eru að drepast í bakinu. Dansspor og yfirpeppuð gleðibros er að minnsta kosti ekki það fyrsta sem kæmi frá þeim áhorfendum.

En kannski er þetta líka bara ágætis dæmi um muninn á þessum tveimur þjóðum. Önnur þjóðin kýs Trump sem forseta, auðmann úr raunveruleikasjónvarpi en hin kýs Guðna Th., háskólakennara sem er svo alþýðlegur að hann vill helst ekki vera forseti. Önnur þjóðin er ofboðslega viðkunnanleg við fyrstu kynni án þess að það risti endilega mjög djúpt. Hin er þögul og til baka í fyrstu en opnar svo smám saman faðminn.

Þótt allt sjónarspil Bandaríkjanna geti verið heillandi er samt alltaf eitthvað fallegra við gamla góða tilgerðarlausa Ísland. En það er kannski bara annað form af þjóðrembu…

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.