Heimavist í Reykjavík er fín hugmynd

Nýlega fór fram umræða á Alþingi um jafnrétti til náms óháð búsetu, með sérstakri áherslu á húsnæðismál. Þar var bent á að ungt fólk utan að landi þyrfti oft að flytja eftir grunnskóla, ef engin framhaldsskóli væri í þeirra byggðalagi eða ef það nám sem það vildi stunda væri ekki í boði þar.

Heimavistir eru við allmarga framhaldsskóla utan Reykjavíkur, en engin slík er í höfuðborginni. Ég held að það mætti alveg breyta því. Fyrir því eru fín rök. Öryggi: Móðursjúkir foreldra þurfa ekki að henda börnum á leigumarkað í borg óttans. Jöfnun tækifæra: það er ekki víst að allir eigi ættingja í Reykjavík sem hafa herbergi aflögu. Stuð: það getur verið gaman að hafa fullt af ungu fólki á sama stað.

Staðsetning ætti að vera miðsvæðis eða í tengslum við einhvern skóla. Vatnsmýrin kemur til greina, sem og staðir á þéttingarreitum í grónum hverfum. Kosturinn er að það þyrfti enginn bílastæði við þannig hús, sem myndi spara bæði byggingarkostnað og borgarland.

Nú reiðist örugglega einhver og afhjúpar mig. Bendir á að hugmynd mín sé úlfur í sauðagæru. Þetta snúist allt um að troða menntaskólakrökkum í strætó. Taka af þeim bílastæðin. Rífa þau upp með rótum upp úr frjóum jarðvegi úr raunhagkerfis og stinga ofan í mölina. Ala upp nýja kynslóð heilaþveginna úrbanista sem hjóla og labba út um allt.

Ókei, ég viðurkenni, það er hluti af því. En í grunninn held ég að hugmynd um heimavist við framhaldsskóla í Reykjavík sé fín, óháð því.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.