Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna

Auðvitað er engin stemning um þessar mundir fyrir áhyggjum af mannréttindabrotum gegn tjáningarfrelsi Donald Trump og hans allra rugluðustu stuðningsmönnum

Hin ótrúlega atburðarrás í Washington á dögunum þar sem hópur af reiðum lúðum, sannfærðir eftir stöðuga bábilju forsetans um að kosningunum hafi verið stolið, stormaði inn í þinghús landsins mun hafa allskonar afleiðingar. Ýmsar þeirra jákvæðar – Repúblikanaflokkurinn virðist loksins vera að vakna af værum blundi og sýna að minnsta kosti einhvers konar merki um mótstöðu gegn Donald Trump. Mikill fjöldi af ákærum verða gefnar út gegn þeim sem tóku þátt í árásinni og eflaust þarf eitthvað að endurskoða öryggisgæslu í þinghúsinu, sem virkaði svona álíka sannfærandi og sóttvarnaráætlun kaþólsku kirkjunnar hér á landi.

Stefnubreyting samfélagsmiðla

Önnur stór afleiðing af þessum atburðum er að stefnubreyting varð hjá Twitter og í kjölfarið öðrum samfélagsmiðlum í þá veru að ritskoða efni sem þangað er sett inn og jafnvel loka á tiltekna aðila vegna pólitískra aðgerða þeirra. Reyndar var þetta ekki bara Twitter heldur lokuðu nánast allir samfélagsmiðlar á Trump. Meira að segja Pinterest ákvað að loka á forsetann. Möguleikar Trumps til að geta átt samskipti við stuðningsmenn sína í gegnum huggulega brúna karlmannsskó eða leðurbelti hafa þannig verið teknir af borðinu.

Twitter hefur verið mikill lykill að uppgangi Donalds Trump. Þar hefur hann safnað að sér fylgjendum sem fá milliliðalaus skilaboð frá foringjanum til að læka og deila áfram. Þetta er að mörgu leyti miklu öflugri miðill en hinir hefðbundnu fjölmiðlar með sinn takmarkaða dagskrártíma og jafnvel gagnrýnar spurningar frá fréttamönnum. Það má heita öruggt að Trump hefði aldrei orðið forseti í fjölmiðlaumhverfinu eins og það var t.d. fyrir 10-15 árum, hvað þá ef litið er lengra aftur í tímann.

Twitter hefur gefið köppum eins og Trump lausan tauminn árum saman. Og áreiðanlega grætt ágætlega á því og athyglinni sem fylgdi.  Aldrei hafa verið gerðar athugasemdir við eitt né neitt, sama hvort forsetinn hafi verið að atyrða andstæðinga sína, gera lítið úr fólki, innflytjendum og ýmsum þjóðfélagshópum, halda fram ósannindum eða jafnvel blása lífi í allskonar samsæriskenningar. Allt fékk að fljúga – í samræmi við þá línu sem samfélagsmiðlarnir mörkuðu fyrir löngu. Þessi lína byggir á bandarískri löggjöf, sem heitir Section 230 frá árinu 1996 og kveður á um að fyrirtæki sem halda úti vefsíðum geti ekki orðið ábyrg fyrir því sem notendur setji þar inn. Andstætt t.d. dagblaði, sem gæti hæglega orðið ábyrgt fyrir aðsendu efni sem það kýs að birta. Þó Trump sé kannski langþekktasta dæmið og stærsta nafnið að þessu leyti hefur þetta átt við um aðra stjórnmálamenn og ýmsar fígúrur líka, almennt hefur ekki verið neitt sem kallast ritskoðun í gangi.

Ábendingar og svo lokun

Þetta fór að breytast á síðasta ári, m.a. í tengslum við útbreiðslu kórónaveirunnar og svo síðar meir með bandarísku forsetakosningunum og eftirmálum þeirra. Aukin krafa er um að stöðva dreifingu á röngum og villandi upplýsingum. Twitter fór t.d. að setja inn athugasemdir við ýmis tvít forsetans og stuðningsmönnum á hans vegum, um að innihald tvítsins væri umdeilt eða jafnvel rangt.

Twitter líkt og aðrir samfélagsmiðlar hafa skilmála sem gefur þessum miðlum yfirleitt mjög rúmar heimildir til að fjarlægja efni og loka á aðgang tiltekinna notenda. Þó til séu ýmis dæmi um að efni hafi verið fjarlægt af þessum miðlum, t.d. ef það felur í sér lögbrot eða reynt sé að dreifa þar óviðurkvæmilegu efni, þá gengur ákvörðun miðilsins um að loka á Trump mun lengra og felur í sér mun pólitískari stefnu en áður. Ásamt því að loka á reikning Trumps, þá hefur Twitter t.d. lokað 70 þúsund reikningum sem eru tengdir Qanon hreyfingunni en stuðningsmenn hennar voru áberandi í innrásinni í þinghúsið.

Hiti leiksins

Rétt eins og öll slík skref er það ekki tekið í tómarúmi eða upp úr þurru heldur í hita leiksins, þegar staðan virðist svo ófrýnileg og varasöm að það sé óhjákvæmilegt annað en að breyta um kúrs. Innrásin í bandaríska þingið var þessi stund, alvarleg ógn við lýðræðið þótt hún hafi að vísu bara staðið yfir í nokkra klukkutíma og koðnað svo niður.

Og auðvitað er engin stemning um þessar mundir fyrir áhyggjum af mannréttindabrotum gegn tjáningarfrelsi Donald Trump og hans allra rugluðustu stuðningsmönnum. Dómur flestra um Trump er að hann sé ómerkilegur lýðskrumari og ekki batnar það þegar froðufellandi stuðningsmennirnir bætast við, liðið sem heldur að kórónaveiran sé afsökun Bill Gates til að sprauta í okkur örflögu í formi bóluefnis, djúpríkið reki alþjóðlegan barnaníðingshring og 5G sé að steikja á okkur hausinn. Væri ekki fínt að vera bara laus við þessa vitleysu? Sérstaklega þegar horft er til þess að samfélagsmiðlarnir eru jú einkafyrirtæki sem lúta engum opinberum kvöðum og skyldum og geta ráðið því sjálf við hverja þau eiga viðskiptasamband við.

Krúttlegu miðlarnir komnir með völd

Jú, eflaust væri það bara fínt. Og eitthvað ljóðrænt réttlæti í því að einkaframtakið sem Trump hefur lifað og hrærst í endi á að vera það afl sem þaggar niður í honum. En sama hversu vel við kunnum að meta þessa tilteknu stefnubreytingu Twitter og miðlana sem fylgdu í kjölfarið þá er hún líka ógnvekjandi. Hún sýnir hvað þessi fyrirtæki, sem við höfum tilhneigingu til að kunna vel við og finnast krúttleg, voru stofnuð í bílskúr af lúðalegum intróvertum sem urðu síðar skyndilega ofurríkir, eru orðin valdamikil.

Ef við samþykkjum að svona lokanir séu bara eðlilegar þá hljótum við líka að samþykkja næstu lokun á næsta stjórnmálamann og stuðningsmenn hans. Mætti Twitter loka á reikning annarra bandarískra stjórnmálamanna? Hvað hefði verið sagt ef Twitter hefði lokað á Black Lives Matter hreyfinguna með þeim rökum að það væru skemmdarverk sem fylgdu mótmælaaðgerðum? Hvað ef við förum frá Bandaríkjunum og t.d. til Rússlands eða Tyrklands. Mætti Twitter loka á aðgang stjórnarandstæðinga þar í landi, ef þeir væru metnir hættulegir gegn þjóðaröryggi, eins og einræðisherrar gera gjarnan við andstæðinga sína?

Hagsmunir verða flóknari

Þessi stóru tæknifyrirtæki verða líka sífellt auðugri og ríkari. Hagnaðurinn og eignir eru orðnar gríðarlegar og starfsemin verður stöðugt víðtækari með tilheyrandi flóknum hagsmunum hingað og þangað um heiminn. Væri t.d. í lagi að Twitter eða Facebook semji við ríkisstjórn lands um að loka tilteknum reikningum hjá einstaklingum sem eru stjórnvöldum ekki þóknanlegir gegn því að fá eitthvað í staðinn, t.d. að fá að starfa að öðru leyti óáreitt í viðkomandi landi? Þetta er jú bara einkafyrirtæki sem meta sína hagsmuni sjálf!

Ég ætla ekki að þykjast vita hvar línan liggur í þessu en mig grunar samt að þetta sé örlítið flóknara en svo að það að loka á Trump og Qanon leysi öll okkar mál. Þetta er þvert á móti líklega upphafið að næsta kafla í sögu samfélagsmiðlanna sem verður flóknari og margræðari.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.