Fjölmiðlaóð þjóð

Getur verið að við gleymum því stundum hvers konar hlaðborð við búum við vegna þess að réttirnir eru ekki allir okkur að skapi?

Lesendur þessa pistils hafa líklegast hafið lesturinn eftir að ég ýtti honum að ykkur á Facebook, Twitter eða túlkað hann með dansi á TikTok til að ná til yngstu lesendanna. Ef pistillinn er ykkur ekki að skapi þá einfaldlega skrollið þið áfram í símanum, tölvunni eða kíkið í næsta dagblað, sjónvarp eða iPad. Af nógu er að taka. Raunar er framboð af fjölmiðlum og efni frá þeim svo mikið að sumum finnst það streituvaldandi á meðan aðrir fá ekki nóg.

Nú er komið fram frumvarp menntamálaráðherra sem gengur út á að íslenskir einkareknir fjölmiðlar muni fá beina ríkisstyrki. Sú spurning hlýtur að vakna varðandi svo veigamikla breytingu, að setja heila starfsgrein á ríkisstyrki til frambúðar, hvert sé tilefnið og vandinn sem verið er að leysa.

Það er mikilvægt að hafa í huga að hér ekki verið að vísa til tímabundinna erfiðra aðstæðna vegna Covid-19. Fjölmiðlar, líkt og mörg önnur fyrirtæki í öðrum greinum, fengu slíka styrki í fyrra. Frumvarpið leggur til að þetta fyrirkomulag muni gilda til framtíðar. Og styrkjakerfi sem hið opinbera kemur einu sinni á hefur tilhneigingu til að vara lengi.

Vantar fleiri íslenska fjölmiðla?

Verandi týpan sem finnst lagafrumvörp áhugaverð lesning gerði ég einmitt það og las greinargerðina með frumvarpinu. Þar er fjallað um umhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi og þar er tafla um fjölda einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Fyrirfram hefði ég giskað á að þetta væru kannski 20-30 miðlar og fannst það reyndar nokkuð vel í lagt fyrir ekki stærri þjóð, ákveðið tákn um þrjósku okkar að hamast við fjölmiðlarekstur.

Rétta svarið er hins vegar 157 einkareknir miðlar. 157! Og það sem meira er, þetta er miðað við ágúst 2018, áður en farið var að skilgreina hlaðvörp sem fjölmiðla. Öðrum hverjum Íslendingi finnst hann svo sniðugur að hann gefur gasið úr sjálfum sér út sem hlaðvarp (undirritaður meðtalinn) þannig að þessi tala er líklega miklu hærri í dag.

Daglegt hlaðborð

Hugsum þetta aðeins: á hverjum degi stendur 360 þúsund manna þjóð til boða tvö dagblöð, 4-5 vefsíður sem dekka öll fréttamál sem upp koma, innlend sem erlend. Og ef þið viljið hrista aðeins upp í þessu þá getiði alltaf farið inn á dv.is – þið trúið ekki hvað tekur við þar. Til viðbótar er hellingur af öflugum héraðsmiðlum, þrjú sérblöð um viðskipti vikulega og íþróttaaumfjöllun hér er framúrskarandi, hvort sem er á prenti, neti eða í sjónvarpi. Tvær útvarpsstöðvar segja fréttir allan daginn og tvær sjónvarpsstöðvar eru með daglegar sjónvarpsfréttir. Þrjár sjónvarpsstöðvar í viðbót eru aðgengilegar öllum með fullt af innlendri dagskrárgerð, fjöldi tímarita og svo náttúrulega Viljinn.is þar sem maður getur lesið um nýjustu bók ritstjórans. Og þetta er bara brot af því sem er í boði.

Montgomery Burns

Getur verið að við gleymum því stundum hvers konar hlaðborð við búum við vegna þess að réttirnir eru ekki allir okkur að skapi?

Þegar Montgomery Burns, aldraði, illi iðnjöfurinn í Simpsons-þáttunum, var sendur í læknisskoðun, var niðurstaðan sú að hann hefði alla mögulega sjúkdóma sem til væru, þeir ynnu bara fullkomlega saman og héldu honum þannig við hestaheilsu.

Þetta væri ágætis lýsing á fjölmiðlaumhverfinu hér. Af umræðunni að dæma er staðan erfið, allir blankir og reksturinn þungur, miðlarnir sjálfir skjóta grimmt hver á annan með ásökunum um hagsmunatengsl og valkvæðar fréttir. Staðreyndin er samt sú að þetta vinnur ágætlega saman og það er enginn hörgull á því að nýir miðlar verði til. Besta leiðin til að átta sig á málum í dag er að fá mismunandi sjónarmið úr mismunandi áttum.

Lén og nettengd tölva

Að taka eina starfsgrein út fyrir sviga með þeim rökum að þar sé staðan svo erfið að komi þurfi á kerfi ríkisstyrkja til frambúðar er hæpið. Auðvitað er þessi rekstur, eins og annar rekstur, bölvað hark. Stóra spurningin er hvaða vanda sé verið að leysa. Við höfum sennilega aldrei haft fleiri íslenska einkarekna fjölmiðla en nú. Aðgengi okkar að upplýsingum í gegnum netið, samfélagsmiðla og aðrar leiðir hefur aldrei verið betra. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tekjur einkarekinna miðla voru rúmlega 21 milljarður árið 2016. Markaðurinn er því stór og það eru margir að keppa á honum. Þótt einhverjir heltist úr lestinn þá geta aðrir tekið við, þröskuldurinn er ekki hár, lén og nettengd tölva er í raun nóg til að koma fjölmiðli á laggirnar.

Ríkisaðstoð gefur þeim sem fyrir eru forskot og stækkar enn hlutverk ríkisins á markaði þar sem Ríkisútvarpið fær nú þegar hátt í fimm milljarða af opinberu fé árlega. Við blasir að ef þau umsvif minnkuðu myndi rekstrarumhverfi hinna miðlanna batna.

Hver borgar brúsann?

Verði frumvarpið að lögum komast á bein fjárhagsleg tengsl milli fjölmiðla og ríkisins. Eflaust verður sett upp faglegt ferli til að úthluta fjármununum og ég er ekki að spá því að ráðherrar verði hringjandi inn á miðlana með kröfur um hvað verði á forsíðunni daginn eftir. En tengslin mynda samt ákveðna hættu.

Og þó vissulega megi segja á móti að þessi vandi sé til staðar hjá einkareknum fjölmiðlum sem reiða sig á sína hluthafa, þá er sá munur á að einn og sami aðilinn – hið opinbera – heldur á þessu töfraspili gagnvart hverjum einasta fjölmiðli hér á landi.

Strax við fyrstu umræðu á þinginu um frumvarpið kom fram það sjónarmið að það ætti að tengja ríkisstyrkina við að miðlarnir hafi ekki gerst brotlegir við siðareglur.

Það er mikilvægt að fjölmiðlar séu í þeirri stöðu að þora að stíga fram, róta í málum og spyrja spurninga án þess að það sé hægt að ráðast á fjárhagslegt öryggi þeirra. Sennilega er það hvergi jafnmikilvægt og gagnvart hinu opinbera.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.