Lifum lengi og döfnum

Fyrir skömmu fékk ég símtal frá föður mínum sem spurði hvort ég væri aðdándi Star Trek eða Star Wars. Ég svaraði um hæl að ég væri Trekkari og beið svo hálfskömmustuleg eftir viðbrögðum hans hinum megin á línunni, hugsandi að hugtakið hæfði varla konu á mínum aldri. 

Mér til nokkurs léttis snérist símtalið fljótt upp í upprifjun á unglingsárum mínum og sunnudagseftirmiðdegum þegar ég hertók sjónvarpstofu fjölskyldunnar til að horfa á Star Trek þætti á borð við Next Generation, Deep Space Nine og Voyager, í línulegri dagskrá á RUV. Þar hófst áhugi minn á Star Trek. 

Star Trek var framan af fremur einmanalegt áhugamál því að vinkonur mínar voru lítið að spá í geimverur á borð við Vulkana og Klingona á þessum tíma. En ég gat gleymt mér í ímynduðum geimferðum og gervi-geimvísindum og heillaðist af framúrstefnulegum búningum Starfleet-liða og tæknigræjum framtíðarinnar. 

Í Star Trek sá ég líka sterkar kvenhetjur, konur í framvarðarsveit tækni og vísinda. Flottar fyrirmyndir sem sýrðu eða áttu sæti við borðið í brúnni á geimskipum framtíðarinnar með Captain Janeway fremsta í flokki. Í Star Trek voru engir kynjakvótar, konur og karlmenn voru jöfn og leystu vandamál í sameiningu á grunvelli þekkingar, vísinda og raka. 

Star Trek heimurinn er framtíðarútópía sem auðvelt var að ímynda sér að hægt væri að búa í. Ævintýraheimur án fátæktar, hugursneyða, skjúdóma og stríða á jörðinni, þar sem enginn þarf að líða skort. Trúin á hið góða í manninum er sterk í Star Trek, jafnrétti ríkir meðal einstaklinga óháð kyni, kynþætti eða manntegund og einstaklingar hafa frelsi til að láta drauma sína rætast, elska þá sem þeir vilja og hafa það helsta markmið að verða betri einstaklingar.

Nú um tuttugu og fimm árum síðar er ég fjarri því að vera vaxin upp úr Star Trek. Lifum lengi og döfnum (e. Life Long and Prosper) hið víðfræga mottó Vúlkana er orðatiltæki sem ég nota oft þegar við á. Ég hef lifað og dafnað með Star Trek í gegnum lífið og nú er þessi vísindaskáldskapur farinn að leggja sitt af mörkum við uppeldi sonar míns. Ég hef notið óteljandi stunda með honum, sem nú er unglingur, við að horfa á bæði nýtt og eldra Star Trek efni og það hefur fært okkur mæðginum ógrynni af heimspekilegum umræðuefnum og dýpri og dýrmætari tengsl fyrir vikið. 

Og í ljós kom að framtíðin hafði líka knúið dyra hjá föður mínum sem hafði nýlega fjárfest í veglegum Blue Ray pakka með öllum Star Trek kvikmyndunum. Hann var bara að hringja í dóttur sína til spjalla um Star Trek og óbeint að láta hana vita að hann væri genginn í aðdáendaklúbbinn. 

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.