Fjölmiðlapólitík í leikhúsinu

Hræringar í fjölmiðlaheiminum undanfarnar vikur hafa eflaust ekki farið framhjá neinum. Það hefur komið berlega í ljós að fjölmiðlamenn eru ekki hlutlausir frekar en stjórnmálafræðingar eða nokkur önnur manneskja ef því er að skipta.

Það er hins vegar engin klisja að fjölmiðlarnir séu fjórða valdið – það hefur mjög skýra birtingarmynd á Alþingi. Samspil fjölmiðla og stjórnmálamanna er magnað fyrirbæri. Ég hef fjórum sinnum tekið sæti á Alþingi og í öll fjögur skiptin hefur upplifunin verið mjög jákvæð og góð. Þingmenn eru upp til hópa skemmtilegt fólk sem vinnur mjög mikið saman að málum og flestir eru málefnalegir og metnaðarfullir um að gera landi og þjóð gagn. En hvaða birtingarmynd er þá sú mynd sem daglega er dregin upp af Alþingi í fjölmiðlum? Sú mynd er allaveganna ekki sama mynd og ég hef af Alþingi en sumir hverjir starfsmenn þingsins kalla þinghúsið, “leikhúsið“ og það er ekki af ástæðulausu.

Þingið umturnast þegar fjölmiðlar mæta á svæðið. Gott dæmi um það eru dagskrárliðurinn, óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra, en þá mæta sjónvarpsvélarnar iðulega á svæðið og þá forherðast þingmenn margir hverjir og verða mjög ákveðnir og láta gamminn geysa og spara ekki gífuryrðin í pontu hins háa Alþingis. Allt með það að markmiði að komast að hjá fjórða valdinu. Því er nefnilega þannig farið að farið að samstaða og samvinna þykja ekki fréttnæmar en drusla, gunga, skítlegt eðli ofl. þykja, hlutlaust mat, fréttir.

Ef maður horfir kalt á þetta þá er augljóst að stjórnmálamenn eiga mikið undir fjórða valdinu komið. Þar spila sjónvarpsfréttir aðalhlutverkið. Því ef þingmaður hefur sést á skjánum þá hlýtur hann að vera að gera eitthvað af viti á þingi. Fréttin veitir jafnframt þingmanninum sýnileika gagnvart kjósendum sem hjálpar viðkomandi að öllum líkindum í næsta prófkjöri. Einhvernveginn virðist verða úr þessu neikvæður spírall sem hvorki fjölmiðlar né stjórnmálamenn virðast geta sleppt því að taka þátt í en um leið gefur þetta samspil ranga mynd af Alþingi og virðing þess og traust þverr.

Maður hittir æ fleiri einstaklinga sem hafa sett sig í “fréttabann“ af því að það fær sig ekki lengur til að horfa á þetta virðingarleysi sem á sér stað á Alþingi. Það er kominn tími til að valdhafar líti sér nær. Vald er vandmeðfarið. Traust er grundvallarforsenda virðingar og vald án trúverðugleika er ekki líklegt til að skila þeim árangri sem lagt er upp með.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.