Til hamingju Frú Vigdís

Mér finnst eins og ég þekki frú Vigdísi Finnbogadóttur. Ég er fædd árið 1977 eða þremur árum áður en hún var fyrst kjörin forseti. Ég hafði hana fyrir augunum öll mín mótunarár, hún breytti heiminum fyrir litlar stelpur eins og mig. Ég efaðist aldrei um að konur gætu gert hvað sem þær dreymdi um, Vigdís sá til þess.

Það var gert grín af Vigdísi fyrir að ferðast um landið og planta trjám. Það var einmitt í einni slíkri ferð sem ég hitti hana fyrst, árið 1987 í Hólmgarði í Stykkishólmi, þar sem hún heimsótti bæjarbúa og plantaði trjám. Eitt fyrir stelpur, annað fyrir stráka og það þriðja fyrir ófædd börn. Það eru svo mörg falleg skilaboð í þessari leið sem hún valdi að framkvæma við heimsókn sína í bæjarfélögin á landsbyggðinni. Vigdís sýndi bæjarbúum og börnum þeirra væntumþykju, ekki bara núverandi íbúum heldur framtíðaríbúum landsins líka, hún minnti okkur á sama tíma að hugsa um framtíðina. Vigdís lagði grunninn að því að við græddum upp landið okkar, hugsanlega er hún fyrsti alvöru umhverfissinninn á Íslandi.  

Ég hef stundum verið spurð út í hver sé mín helsta fyrirmynd. Mér hefur alltaf fundist erfitt að nefna eitt nafn því samhengi því í mínum huga eru meira og minna allir sem maður umgengst reglulega að einhverjum leiti fyrirmyndir, en ef ég er beðinum um að nefna eitt nafn fyrir utan fjölskyldumeðlimi þá hefur Vigdís alltaf komið fyrst upp í hugann, því hún var sú mynd sem maður hafði fyrir augunum í öll þessi ár, sýndi manni að konur geta allt sem þær vilja.

Það var ekki fyrr en ég varð eldri að ég áttaði mig á því að þetta var nú kannski ekki svo sjálfsagt að hún hefði verið fyrst kvenna í heiminum kjörin forseti og á þeim tíma hafði fáum konum verið treyst fyrir svona merkilegu embætti. Það hefur sem betur fer mikið breyst, við Íslendingar stöndum mjög framarlega í jafnréttismálum á flestum sviðum þótt að viðskiptalífið sé svifaseinast allra að tileinka sér og nýta krafta kvenna í ábyrgðarstörf.

Við eigum Vigdísi mikið til árangur okkar í jafnréttismálum að þakka. Til hamingju með afmælið frú Vigdís og bestu þakkir fyrir framlag þitt til okkar góða samfélags #TakkVigdís

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.