Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka

Auðvitað er gott að það sé gripið strax inn í til að koma í veg fyrir að smitin breiðist hratt út og valdi skaða en ég verð að viðurkenna að ítrekað hefur mér fundist vera gengið helst til langt í réttlæta aðgerðirnar án trúverðugs rökstuðnings.

Þessi fjórða Covid bylgja er það leiðinlegasta og mest niðurdrepandi fyrirbæri sem ég hef komist í tæri við. Fólk sem alla jafna er lífsglatt og bjartsýnt er að missa móðinn. Ég hitti ítrekað fólk í vikunni sem segist hafa fengið þunglyndistilfinningu eftir að hafa hlustað á viðbrögð og nýjustu tilmælin sem tóku gildi á miðvikudag fyrir viku síðan. Ég tengi sjálf við þessa tilfinningu enda þetta ástand orðið ansi þreytt.

Við vitum öll að aðgerðirnar eru settar til að vernda okkur og takmarka útbreiðslu veirunnar á meðan stór hluti þjóðarinnar er ekki bólusettur, fólk má hinsvegar alveg kvarta undan þessum aðgerðum og vorkenna sér.

Það er svo margt leiðinlegt sem fylgir þessari bylgju. Snjórinn var loksins að mæta og þá er skíðasvæðunum lokað vegna Covid og skíðaferð fjölskyldunnar fyrir bý. Fjölskyldan sem ætlaði loksins að hittast og njóta samverustunda um Páskana getur það ekki vegna fjöldatakmarkana og óformlegs ferðabanns milli landshluta. Fermingar voru hafnar á ný og brúnin aðeins farin að lyftast á fermingarbörnunum, foreldrum og veitingamönnum en það má ekki halda veislu vegna fjöldatakmarkanna. Ég ætla ekki að minnast á grímuhelvvvv sem þarf að vera framan í manni hvert sem haldið er, það þurfti meira segja að skíða með grímu á tímabili.

Auðvitað er gott að það sé gripið strax inn í  til að koma í veg fyrir að smitin breiðist hratt út og valdi skaða en ég verð að viðurkenna að ítrekað hefur mér fundist vera gengið helst til langt í réttlæta aðgerðirnar án trúverðugs rökstuðnings.

Það er taktískt að halda sig við línuna sem var sett í upphafi, fletja kúrfuna, verja Landspítalann, verja eldriborgara og fólk með undirliggjandi sjúkdóma en rök undanfarinna mánaða hafa verið allt önnur og komin langt út fyrir öll mörk.  Það var líka skrítið að lesa haft eftir forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar að nýjustu smitin væru atvinnulausum pólverjum að kenna, sem eru algerlega óþolandi fordómar.

Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka.

Nýjasta útspilið finnst mér það grófasta sem maður hefur séð þar sem skikka á fólk í sóttkvíarhús í allt að fimm daga án þess að það hafi gert eitthvað af sér. Hvað réttlætir þessa fangelsun ferðamanna eða fólks sem á erindi hingað til lands.

Yfirgengileg forræðishyggjan getur ekki endað vel.

Stjórnmálamenn og almannavarnir verða að vera víðsýnni og taka fleiri breytur inn í sitt hagsmunamat og treysta almenningi betur.  Við erum öll búin að standa saman í þessu í rúmt ár og það hefur gengið vel vegna þess að almennir borgarar eru skynsamir.  

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.