Hættum að umbera samkynhneigða

Það þykir flott að vera umburðarlyndur og menn keppast við að lýsa sjálfum sér sem umburðarlyndum einstaklingum. Sem orð er umburðarlyndi í tísku.

Það þykir flott að vera umburðarlyndur og menn keppast við að lýsa sjálfum sér sem umburðarlyndum einstaklingum. Sem orð er umburðarlyndi í tísku. Mest er þetta ágæta hugtak notað þegar kemur að samkynhneigðum. Þar þykja Íslendingar einkar umburðarlyndir, hvort heldur þegar kemur að löggjöf eða almennum viðhorfum.

Í umburðarlyndi felst að maður umber eitthvað í stað þess að amast við því. Maður getur þannig umborið óstundvísi samstarfsmanna sinna, drykkjuskap vina sinna og jafnvel annars konar ámælisverðari hegðun. Flest venjulegt fólk sýnir kjánalátum barna sinna visst umburðarlyndi. Maður getur umborið annað fólk sem hefur að manni finnst fáránlegar skoðanir, hvort sem um er að ræða trú eða pólitík. Maður getur þannig umborið það sem manni finnst vera galli í fari annarra. Það er umburðarlyndi.

Þegar maður segist vera umburðarlyndur í garð samkynhneigðra felst í þeirri fullyrðingu að eitthvað sé gallað eða ámælisvert í fari þeirra eða eðli. En það sé ekki vandamál vegna þess að maður umber það. Í rauninni er umburðarlyndi þannig birtingarmynd fordóma. Maður sem umber samkynhneigða er haldinn þeim fordómum að samkynhneigð sé galli eða með einhverjum hætti ámælisverð.

Það er hvorki dyggð né sérstakt afrek að umbera samkynhneigða. Sýnum samkynhneigðum virðingu með því að hætta þessu umburðarlyndi í þeirra garð. Umburðarlyndið ætti frekar að beinast að þeim sem haldnir eru fordómum. Að við reynum að umbera þá með einhverjum hætti.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.