Þetta er bara algerlega rangt hjá þér!

Hversu oft hefur einhver viðmælandi, í sjónvarpssal, sagt nákvæmlega þetta við andmælanda sem svarar í sömu mynt? Samt getur einungis annar þeirra haft rétt fyrir sér. Varla eru menn farnir að ljúga. Ekki beint en staðreyndir virðast ekki skipta máli þegar að ólíkar afstöður eru rökræddar nú til dags. Hlutverk fréttamanna í svona aðstæðum felst oftast í að henda inn einstaka spurningum til að halda rifrildi gangandi í stað þess að hafa hemil á bullinu.

Á netinu er þetta ekkert skárra, í raun verra ef eitthvað er. Menn halda fram hinu og þessu án þess að vitna í stökustu heimild þrátt fyrir að miðillinn bjóði upp á slíkt. Það er eins og umræða þurfi ekki lengur að vera málefnaleg. Almenningur á ekki að velta fyrir sér kostum eða göllum. Hans hlutverk er að taka afstöðu og skipta svo aldrei um skoðun.

Í kvikmyndinni Takk fyrir að reykja (e. Thank You for Smoking ) útskýrir söguhetjan fyrir ungum syni sínum að rökræður felist ekki í því hver hafi rétt fyrir sér, heldur að sýna fram á að andstæðingurinn hafi mögulega farið með rangt mál, því það styrkir málefnastöðu þína gangvart fjöldanum sem er það mikilvægasta. Þú átt nefnilega ekki að sannfæra þá sem hafa þegar myndað sér skoðun heldur að herja á einstaklinga sem eiga eftir að gera upp hug sinn.

Áróðursherferðir síðustu  ára, sérstaklega í Bandaríkjunum, hafa mikið einkennst af þessari tækni. Hið sorglega er að þetta er líka orðið mjög einkennandi í íslenskri umræðu. Augljósustu dæmin eru rökræður tengdar Evrópusambandinu og íslensku krónunni. Aldrei er talað um kosti og galla mögulegra breytinga heldur dómsdagsspár ef ekki verður farið eftir því sem sérfræðingarnir segja. Þessir sjálfskipuðu sérfræðingar uppfylla samt varla eigin skilyrði ef þeir skilja ekki báðar hliðar málsins.

Sjálfur hef ég gerst sekur um svona lagað og margir aðrir eflaust líka því auðvelt er að draga aðra ofan í skítinn ef málefnaumræðan er þegar komin ofan í svaðið.

En hvað er hægt að gera? Fólk gæti reynt að afla sér upplýsinga sjálft og þar með myndað sér vel ígrundaða skoðun út frá sönnunargögnum. Í nútímasamfélagi er það bara ekkert auðvelt. Hvar eru bestu heimildirnar? Er hægt að treysta þeim? Flestir fara bara á Wikipedia og ef færslan þar er of löng er miklu skemmtilegra að lesa nýjasta topp tíu listann um „Af hverju himininn er blár?“ eða „Er enn hiti í sambandinu ykkar?“. Með tilkomu internetsins erum við orðin vön að fá staðreyndir og fréttir í hentugum pakkningum og fæstir leita að einhverju utan við það. Gallinn virðist hinsvegar vera að fréttamenn og margir sérfræðingar eru í nákvæmlega sama báti of við hin.

Latest posts by Einar Leif Nielsen (see all)

Einar Leif Nielsen skrifar

Einar Leif hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2008.