Afríka, ég er gagntekin af þér

Það er auðvelt að verða gagntekin af Afríku. Ótrúleg náttúran, landslagið, birtan og dýralífið dugar alveg en það eru hins vegar vandamál álfunnar sem helst gagntaka hvern mann sem kynnist löndum Afríku og samfélög mannanna þar.

Það er auðvelt að verða gagntekin af Afríku. Ótrúleg náttúran, landslagið, birtan og dýralífið dugar alveg en það eru hins vegar vandamál álfunnar sem helst gagntaka hvern mann sem kynnist löndum Afríku og samfélögum mannanna þar.

Ég hef áður á þessum vettvangi fjallað um hina tvöföldu ógæfu Afríku, að álfan var fyrst arðrænd af Vesturlöndum og svo svipt möguleikum til sjálfshjálpar með markaðshindrunum af svo að segja sömu löndum. Á síðustu árum hefur skilningur fólks í okkar heimshluta á málefnum Afríku farið vaxandi og nú beinast sjónir manna að því að eiga viðskipti við lönd álfunnar fremur en að færa þeim ölmusu. Trade instead of aid, er viðkvæðið nú, jafnvel meðal þeirra skinhelgustu af evrópskum sófakommum.

Mynd: Gunnar Salvarsson

Íslendingar hafa um áratugaskeið lagt gott til mála í Afríku með þróunaraðstoð, eða þróunarsamvinnu eins og það er kallað í seinni tíð. Árangurinn er talsverður en þó verður að segjast að of skammt hefur miðað. Miðað við umræðuna hér á landi virðast menn telja að meiri fjárframlög ein og sér muni gera gæfumuninn, allt snýst um að ná tiltekinni tölu eða hlutfalli af þjóðarframleiðslu. Þótt slík framlög séu vissulega mikilvæg þegar kemur að þróunarsamvinnu munu þau ein og sér ekki leysa vandann, jafnvel þótt öllum mælikvörðum verði náð.

Vandi Afríku er nefnilega ekki að þangað streymi ekki nógu miklir fjármunir. Vandinn er fyrst og fremst sá að þessi fjáraustur skilar sér ekki í reynd. Raunveruleg framþróun á sér ekki stað nema að litlu leyti, of hægt og of lítið. Þetta er ástæðan fyrir því að sú skoðun er að verða almennt viðurkennt að verslun og viðskipti þurfi að leika stærra hlutverk og að vandi Afríku verði ekki leystur án þess að einkaframtakið komi þar að í mun ríkari mæli.

Á síðustu árum hef ég fengið tækifæri til að kynnast bæði aðstæðum í þeim löndum sem Ísland á í þróunarsamvinnu við og því fólki sem starfar að þessum málum. Ekki vantar neitt upp á eljuna og áhugann hjá þeim sem gefa sig að þessum málaflokki, enda láta aðstæður fólks í þessum löndum enga skyni gædda manneskju ósnortna. Við þurfum hins vegar að umbreyta viljanum til að hjálpa í viljann til að vinna með, viljann til að eiga í viðskiptum, viljann til að koma fram við þjóðir Afríku sem jafningja en ekki sem skjólstæðinga.

Að öðrum kosti verður vítahringur Afríku ekki rofinn.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.