Lélegastur í Draumaliðinu

Patrik Ewing er einn besti körfuknattleikmaður sögunnar. Ewing spilaði nær allan sinn feril hjá New York Knicks og er í guðatölu í borginni. Hann var valinn af New York í nýliðavalinu árið 1985 og spilaði með liðinu til ársins 2000. Á ferlinum spilaði Patrik 1.183 leiki og í þeim leikjum skoraði hann 24 þúsund stig, reif niður vel yfir 11 þúsund fráköst og varði nær þrjú þúsund skot andstæðina sinna. Hann var 11 sinnum valinn í stjörnuliðið, valinn af NBA deildinni sem einn af 50 bestu leikmönnum allra tíma og er í frægðarhöll NBA deildarinnar.

Einn af hápunktum ferils Ewing (sem vann aldrei NBA titil) var þegar hann spilaði með hinu upprunalega Draumaliði sem var sett saman af bestu körfuboltamönnum þess tíma sem fram að því höfðu ekki mátt keppa fyrir hönd Bandaríkjanna þar sem þeir töldust atvinnumenn. Draumaliðið rústaði sínum leikjum að meðaltali með 44 stigum og kom með Ólympíugull til Bandaríkjanna.
Ewing byrjaði iðulega leiki draumaliðsins sem miðherji og með honum byrjuðu goðsagnir á borð við Larry Bird, Magic Johnson, Micheal Jordan og Karl Malone.

Ef einhver hefði haft þá á orði að reyndar væri Ewing lélegasti byrjunarliðsmaðurinn í draumaliðinu þá hefðu líklegast flestir leitt slíka vitleysu hjá sér. Hefði viðkomandi haldið áfram að tönglast á því að hann væri langlélegastur þá væri jafnvel farið aðeins yfir ofangreindan feril og bent á að um væri að ræða einn besta leikmann sögunnar og hugtakið „lélegur“ væri engan veginn við hæfi til þess að koma nokkrum upplýsingum á framfæri við áhugasama áhorfendur sem fylgdust með leiknum.

Það er ekki laust við að manni verður stundum hugsað til hans Ewings þegar maður rekst á grein sem hefst á orðunum „Ísland í neðsta sæti Norðurlandanna“.

Norðurlöndin eiga það sameiginlegt að standa hvað fremst í fjölmörgum mælikvörðum sem notaðir eru til þess að skoða hagsæld og velferð landa. Það er ein af þjóðaríþróttum Íslendinga að bera okkur saman við þau og jákvætt að við viljum bera okkur saman við þá sem eru fremstir í flokki.

Það er þó rétt að hafa í huga að þegar skoðað er örsmátt þýði upp á fimm þjóðir sem eru allar með þeim bestu í heimi, þá hefur innbyrðis röð þeirra minna vægi en mætti skiljast á stríðsletursfyrirsögnum á borð við „Ísland lélegast Norðurlanda í X“

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.