Afl atkvæðisins

Það er öfugsnúin þróun að kosningarétturinn hafi um aldir verið þægindi hinna fáu sem þeir nýttu eins og hver önnur forréttindi en þægindi samtímans séu þau að mæta ekki á kjörstað og láta öðrum það eftir að taka afstöðu fyrir sig. Við slíkar aðstæður gerist það sem er hættulegast af öllu að kjörnir eru fulltrúar sem bera hvorki virðingu fyrir né hafa skilning á lýðræðinu. Þetta gerðist í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og afleiðingarnar hafa afhjúpast sem aldrei fyrr síðustu daga.

Bandarísku forsetakosningarnar hafa dregist á langinn og á þessari stundu er ófyrirséð hvernig þær fara, þótt leið forsetans að Hvíta húsinu að nýju þrengist stöðugt. Frambjóðandi Demókrataflokksins hamrar á því að hvert einasta atkvæði skuli talið. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa í lýðræðisríki en metþátttaka var í forsetakosningunum í ár. Þessi ofureinfalda athöfn að fá að kjósa, setja x við listabókstaf eða frambjóðanda, er hornsteinn lýðræðisins. Án alls fólksins sem tekur þátt í kosningum er ekkert lýðræði.

Tæpar kosningar leiða í ljós hversu mikið afl býr í hverju atkvæði. Við sem skrifum á þetta vefrit tengjumst flest í gegnum Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands. Þar hófst okkar samstarf. Árið 2002 sigraði Vaka stúdentaráðskosningarnar í fyrsta sinn í 12 ár en síðast hafði félagið verið í meirihluta árið 1990. Sá sigur vannst með aðeins 4 atkvæðum. Í kosningunum hlaut Vaka samtals 1617 atkvæði en mótherjinn Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands samtals 1613 atkvæði. Til þessa dags eru í okkar hópi enn sagðar skemmtisögur af því hvernig einhverjum tókst að afla þessara fjögurra atkvæða. Svo sem með því að sannfæra fólk eða snúa því á síðustu stundu eða þá að fá vini og vandamenn til að keyra langa leið, jafnvel frá Keflavík eða Selfossi, og mæta í Háskólann rétt fyrir lokun til að kjósa. Það sem stendur upp úr í minningunni er ekki endilega sigurgleðin undir morgun þegar úrslit lágu fyrir heldur miklu heldur krafturinn og baráttugleðin í kosningabaráttunni sem er hjartsláttur lýðræðisins.

Dæmi eru um að söguleg forsetakjör hafi staðið afar tæpt. Árið 1960 bar til dæmis John F. Kennedy sigurorð af Richard Nixon í forsetakosningum með minnsta mun sem þá hafði sést í Bandaríkjunum. Í almennri kosningu hlaut Kennedy 112.827 fleiri atkvæði en Nixon og munurinn á þeim aðeins 0,17%. Í kjörmannaskólanum var sigurinn þó sannfærandi þar sem Kennedy hlaut 303 kjörmenn á móti 219 kjörmönnum Nixons. Þá eins og nú heyrðust raddir um kosningasvindl af hálfu framboðs Kennedys en Nixon beit í súra eplið og gerði ekkert meira með það. Hann sá að hagsmunir lands og þjóðar voru að virða niðurstöðuna og tryggja friðsamleg stjórnarskipti. Aldrei hefur tekist að sanna að rangt hafi verið haft við.

Íslensku forsetakosningarnar 1980 voru heimssögulegar vegna þess að þá var kona í fyrsta sinn kjörinn forseti þjóðar sinnar í lýðræðislegum kosningum. Eftir því sem sagan af forsetakjöri Vigdísar er oftar sögð vill gleymast að það var í reynd ekki íslenska þjóðin innblásin af jafnréttishugsjón sem tryggði Vigdísi stórsigur. Þetta heillaspor getum við þakkað 1.911 Íslendingum sem mættu á kjörstað og kusu hana. Þetta er á við íbúafjölda í litlu sveitarfélagi, eins og Dalvík eða Rangárþingi eystra. Forsetakjörið 1980 var lengi að ráðast fram eftir nóttu vegna þess hversu tæpt það stóð. Að endingu hlaut Vigdís 43.611 atkvæði eða 33,8% en Guðlaugur Þorvaldsson sem kom næstur hlaut 41.700 atkvæði eða 32,3%. Það var einungis 1,5% atkvæðamunur sem skildi þau tvö að.

Vestræn lýðræðisríki gagnrýna oft önnur ríki heims þar sem stjórnarfyrirkomulag er andlýðræðislegt og hampa um leið sínu eigin. Sannleikurinn er hins vegar sá að aðeins öld er liðin síðan konur fengu kosningarétt víða um hinn vestræna heim, þar með talið á Íslandi. Um miðja síðustu öld var unnið kerfisbundið gegn því að blökkumenn í Bandaríkjunum gætu kosið og sérstök kosningalöggjöf þeim til handa samþykkt svo seint sem árið 1964. Vestrænt lýðræði var lengst af munaður og forréttindi hinna fáu sem hékk saman við efnalega stöðu, kynferði, kynþátt og svo framvegis. Enn þann dag í dag er lýðræðið skrumskælt og afbakað af stjórnvöldum sem aðhyllast í reynd einræði og harðstjórn og þarf ekki að líta lengra en til Rússlands eftir dæmi um slíkt.

Nú til dags er mesta ógnin við vestrænt lýðræði innan lýðræðisríkjanna sjálfra. Það er ekki lengur til staðar raunveruleg ógn af öðrum ríkjum sem vilja ráðast inn í okkar samfélög og troða upp á okkur sínum stjórnarháttum og hugmyndafræði, eins og var til dæmis á tímum Kalda stríðsins eða í seinni heimsstyrjöldinni. Að vísu er til staðar hætta af upplýsingaóreiðu og afskiptum annarra ríkja í gegnum samfélagsmiðla. Mesta hættan liggur hins vegar hjá okkur sjálfum og birtist í dvínandi kjörsókn og skeytingarleysi gagnvart kosningaréttinum. Of oft gerist það að maður hittir fólk sem vill gefa skít í stjórnmálastéttina með því að mæta ekki á kjörstað. Slík afstaða skiptir hins vegar engu máli ef fólk gefur hana ekki upp. Það að kjósa ekki er að vera raddlaus. Ósýnilegur. Verst er þegar fólk hreinlega nennir ekki að mæta á kjörstað eða mynda sér afstöðu. Lítilsvirðing gagnvart öllum þeim sem hafa barist fyrir kosningaréttinum með blóði sínu og lífi. Kjósandi sem mætir og skilar auðu sendir sín skilaboð skýrt og skilmerkilega og virðir um leið hið lýðræðislega ferli.

Það er öfugsnúin þróun að kosningarétturinn hafi um aldir verið þægindi hinna fáu sem þeir nýttu eins og hver önnur forréttindi en þægindi samtímans séu þau að mæta ekki á kjörstað og láta öðrum það eftir að taka afstöðu fyrir sig. Við slíkar aðstæður gerist það sem er hættulegast af öllu að kjörnir eru fulltrúar sem bera hvorki virðingu fyrir né hafa skilning á lýðræðinu. Þetta gerðist í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og afleiðingarnar hafa afhjúpast sem aldrei fyrr síðustu daga.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.