Ríkið setji Landsbankann á markað

Þegar er ljóst að ríkissjóður Íslands verður rekinn með stjarnfræðilegum halla á næstu 5 árum. Þessi reikningur verður sendur á komandi skattgreiðendur og jafnvel komandi kynslóðir. Um 330 milljarðar króna eru bundnir í ríkisbönkunum tveimur og því hljótum við að velta því fyrir okkur hvort ekki væri hægt að verja þessum gríðarlegum fjármunum til betri hluta þegar við stöndum andspænis miklum efnahagsþrengingum.

Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar kom fram að umsvif íslenska ríkisins í fjármálageiranum væru ein þau mestu sem þekktust á byggðu bóli og stefnt skyldi að því að draga úr eignarhlutum þess i bönkum. Ríkið hefur frá því að stöðugleikasamningarnir voru gerðir við þrotabúin verið eigandi nær alls hlutafjár í tveimur af þremur stærstu viðskiptabönkum landsins. Nú þegar langt er liðið á kjörtímabilið bólar ekkert á sölu eignarhluta í ríkisbönkunum þótt fjármálaráðherra hafi haft heimildir til þess að ráðast í slíkar aðgerðir. Og þó! Ríkið seldi reyndar 13% hlut í Arion Banka í byrjun árs 2018 og þrátt fyrir mikla gagnrýni frá þingmönnum er staðan sú að toppverð fékkst fyrir hlutinn ef horft er til þess hvernig gengi hlutabréfa í Arion hafa þróast á markaði.

Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi kom út fyrir tveimur árum. Þar var lagt til að ríkissjóður hæfist handa við að draga úr umsvifum sínum í bankakerfinu. Annars vegar ætti að selja Íslandsbanka í heilu lagi til erlendra aðila, helst viðskiptabanka sem myndi stuðla að aukinni samkeppni á innlendum fjármálamarkaði. Hins vegar að skrásetja Landsbankann á innlendan hlutabréfamarkað, selja hlutabréf í skömmtum til innlendra og erlendra stofnanafjárfesta og almennings og halda eftir kjölfestuhlut sem gæti legið einhvers staðar á bilinu 30-35%. Fyrirmyndin að slíku eignarhaldi væri norski bankinn, DnB NOR.

Bankar eru langt í frá venjuleg fyrirtæki. Í grófum þráttum felst aðalgagnsemi þeirra í tíma- og lausafjárumbreytingu. Þeir taka við innlánum og fjármagna fjárfestingar fólks og fyrirtækja sem stuðlar svo að hagvexti. En á móti valda bankaáföll gríðarlegum búsifjum fyrir samfélagið eins og fjármálahrunið 2008 bar glöggt vitni. Ríkið tók þá til sín gamla Landsbankann en skildi Kaupþing og Glitni eftir í höndum kröfuhafa. Það þarf því að huga vel að mörgum þáttum þegar fjármálafyrirtæki fara úr opinberri eigu í einkaeigu. Það þarf að tryggja að nýir eigendur séu traustsins verðir og hafi bolmagn til að sigla í gegnum ólgusjó. Það þarf líka að huga að því að fá gott verð fyrir eignirnar.

En hvað er gott verð? Á starfstímabili núverandi ríkisstjórnar hefur arðsemi Íslandsbanka og Landsbankans farið jafnt og þétt lækkandi. Auðvitað hefur efnahagsáfallið á þessu ári haft sitt að segja en það eitt og sér segir þó ekki alla söguna. Hátt kostnaðarhlutfall og aukin samkeppni frá lífeyrissjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum hefur sett svip sinn á starfsemi ríkisbankanna tveggja. Lækkandi arðsemi hefur leitt til þess að virði bankanna hefur sjálfkrafa lækkað. Það flækir arðsemismarkmiðin að ríkissjóður gerir lægri kröfur um arðsemi en einkafjárfestar.

Hlutabréfafjárfestir í Arion gerir kannski kröfu um 10% arðsemi á pundið á meðan ríkissjóður horfir nær til 5% og sættir sig þar af leiðandi við lægri arðsemi. Þetta er að ákveðnu leyti hættulegt viðhorf á tímum þar sem töluverð hagræðing hefur átt sér stað á íslenskum bankamarkaði og nýjar ógnir gagnvart gamla bankamódelinu spretta alls staðar upp í gegnum fjártæknilausnir. Þegar kemur að rétta verðinu er verðmiðinn á Arion Banka, sem er eini stóri viðskiptabankinn á hlutabréfamarkaði, líklega besti mælikvarðinn. Hlutabréf í Arion banka hafa sveiflast gríðarlega í verði á árinu. Þegar gengið fór hvað lægst niður á vormánuðum var markaðsvirði bankans komið vel undir 50% af bókfærðu virði eigin fjár en hefur nú rétt hraustlega úr kútnum eftir því sem skýrari mynd hefur fengist á stöðu hagkerfisins og stendur í 75% af bókfærðu eigin fé.

Þegar er ljóst að ríkissjóður Íslands verður rekinn með stjarnfræðilegum halla á næstu 5 árum en samkvæmt fjármálaáætlun er talið að samanlagður halli til næstu fimm ára nemi 900 milljörðum kr. Þessi reikningur verður sendur á komandi skattgreiðendur og jafnvel komandi kynslóðir. Um 330 milljarðar króna eru bundnir í ríkisbönkunum tveimur og því hljótum við að velta því fyrir okkur hvort ekki væri hægt að verja þessum gríðarlegum fjármunum til betri hluta þegar við stöndum andspænis miklum efnahagsþrengingum. Það væri góð byrjun að draga fram Hvítbókina góðu, selja t.d. helmingshlut í Landsbankanum í dreifðri sölu til innlendra og vonandi erlendra fjárfesta og setja bankann á innlendan hlutabréfamarkað. Þetta gæti gerst strax á næsta ári. Aðstæður á hlutabréfamarkaði eru hagstæðar i því lágvaxtaumhverfi sem við búum við og töluverður skortur er á skráðum fjárfestingarkostum um þessar mundir.

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)