Klofin Bandaríki

Þetta er birtingarmynd af þróun undanfarinna tveggja áratuga þar sem millistéttin í Bandaríkjunum hefur dregist saman en fjölgað í hópi þeirra sem eiga mjög mikið annars vegar og ekkert hins vegar.

Þriðjudaginn 2. nóvember síðastliðinn gekk bandaríska þjóðin til kosninga á meðan veröldin beið með öndina í hálsinum. Forseti Bandaríkjanna, Donald John Trump hefur talað af lítilsvirðingu um konur, fatlaða og nokkurn veginn alla þá hópa sem hafa á einum eða öðrum tímapunkti átt undir högg að sækjast. Með framkomu sinni hefur hann brotið öll fyrri viðmið með skort á háttvísi og málefnalegheitum. Sérstaklega hefur hann fengið mikla gagnrýni á þessu ári fyrir skort á snörpum viðbrögðum við Covid faraldrinum sem hefur dregið yfir 200.000 manns til bana.

Heimasíðan The Global Vote bauð fólki úr öllum heimshornum að kjósa og var niðurstaðan sú að Joe Biden fékk 71% stuðning, í öðru sæti var Jo Jorgensen frambjóðandi frjálshyggjuflokkins með 10% og í þriðja sæti var sitjandi forseti Donald Trump með einungis 8%. Kannanir vikurnar fyrir kjördag gáfu til kynna að Joe Biden væri með trausta forystu og myndi sigla heim nokkuð öruggum sigri. Það voru þó einhverjar raddir sem minntu á að skoðanakannanir fyrir kjördag fyrir fjórum árum hefðu haft stórkostlega rangt fyrir sér en þær voru ekki háværar.

Heimsbyggðin vaknaði því við nokkuð vondan draum daginn eftir kjördag þegar í ljós kom að í stað stórsigurs Bidens voru keppinautarnir um Hvíta húsið komnir í æsispennandi lokasprett sem ómögulegt var að sjá hvor væri nær markinu. Í stað þess að fá rækilega refsingu frá kjósendum þá bætti Trump milljónum atkvæða við sig frá kosningum fyrir fjórum árum. Árið 2016 fékk hann tæplega 63 milljón atkvæði en er þegar eftir á að tilkynna úrslit í sex fylkjum er hann kominn með yfir 67 milljón atkvæði. Hann tapaði því ekki fylgi á kjörtímabilinu heldur jók við það.

Þessar niðurstöður sýna okkur klofin Bandaríki. Þegar úrslit eru sýnd eftir svæðum innan ríkja kemur glögglega í ljós hvernig íbúar í borgum kjósa Demókrata og hvernig íbúar dreifbýlis kjósa Trump. Þetta er birtingarmynd af þróun undanfarinna tveggja áratuga þar sem millistéttin í Bandaríkjunum hefur dregist saman en fjölgað í hópi þeirra sem eiga mjög mikið annars vegar og ekkert hins vegar. Þessir hópar hafa stillt sér upp hvor á móti hinum og vilja ekki bakka. Þetta umhverfi skapaði aðstæður fyrir Trump að ná völdum, og jafnvel að halda völdum.

Það er ljóst – hver sem úrslit verða á komandi dögum að Bandaríkin þurfa að brúa betur bilið milli sveitar og borgar – áður en það kviknar í þessari púðurtunnu með ófyrirséðum afleiðingum.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.