Af Svíum, seðlum og spæjurum nútímans

Eitt af því sem ég tók eftir við jólalesturinn í ár, sem var kannski ekki af léttari taginu, bókin Saknað – Íslensk mannshvörf, er hvað tæknin og sítenging okkar við síma og tæki hefur breytt miklu.

Það þarf ekki að fara lengra aftur í tímann en 35-40 ár þegar það var nánast ómögulegt að  staðsetja fólk út frá öðru en þeim sem höfðu séð viðkomandi. Sá sem týndist var ekki með síma á sér eða snjallúr, keyrði ekki bíl með tölvu sem safnaði saman ferðaupplýsingum og greiddi ekki með greiðslukorti sem innihélt örgjörva. Rekjanleikinn var nánast enginn á meðan hann er nánast fullkominn í dag.

Einhverjir kannast kannski við að fara í slíka greiningarvinnu nú til dags á eigin ferðum og gjörðum eftir kvöldvakt í miðbæ Reykjavíkur. Þar getur jú komið fyrir að smáatriði hafi riðlast í minninu daginn eftir og það getur verið mikilvægt að geta í eyðurnar af ákveðinni vissu. Í dag er hægt að setja saman ótrúlega heillega atburðarrás með því að pússla saman kortakvittunum og upplýsingum úr síma. Líkt og Hercule Poirot í lokakaflanum í Agöthu Christie ráðgátu er þráðurinn rakinn; hvenær hringt var á leigubíl og hvenær verslað var á Hlölla, (sem skýrir þá jafnvel blettinn á skyrtunni). Þetta er það næsta sem nútímamaðurinn kemst því að fá að vera spæjari. Heimabankinn geymir svo yfirlit um færslur á Kalda og Veður og ef þessu er raðað upp á stóra töflu og tengt á milli með rauðu bandi, fer heildarmyndin oft að skýrast.

Myndir úr síma geta sagt sína sögu líka og skilaboð líka sem voru send á umræddu tímabili. Auðvitað þarf að lesa þetta samt með gagnrýnum augum. Einu sinni fann ég skilaboð sem ég hafði sent kvöldið áður um að ég væri mættur á Strikið þegar hið rétta var að ég var mættur á Prikið. Ég þakka AutoCorrect alltaf fyrir þetta andartaks taugaáfall.

Það er af sem áður var í þessum efnum. Fólk sem gekk fullrösklega til verks á djamminu hér áður fyrr hafði engan möguleika á að kalla fram tilteknar tímasetningar eða gjörðir frá kvöldinu áður. Kannski var það bara betra.

Svíar eru hins vegar komnir mun lengra en við. Þar hafa nokkur þúsund manns látið græða í sig litla örflögu í vísifingurinn. Flöguna notar fólk til að komast inn í líkamsræktarstöðvar, strætó, lestir og þess háttar.

Þó þetta hljómi eins og byrjunin á Black Mirror þætti þá er yfirleitt tekið fram í fréttum og greinaskrifum af flöguvæðingunni að Svíar séu almennt bara mjög jákvæðir fyrir þessu. Þar óttist menn ekki að tæknin verði misnotuð með neinum hætti. Dæmigert fyrir Svíana að vera óþolandi jákvæðir fyrir svona nýjungum. Nútíma sænska útgáfan af Hercule Poirot væri sennilega tæknimaður sem myndi bara kalla fram gögn úr örflögunni og átta sig samstundis á því hver væri morðinginn.

Í Svíþjóð eru menn líka komnir langt með hið svokallaða seðlalausa hagkerfi, þar sem allt er greitt með kortum, símum eða úrum. Og svo væntanlega örflögunni þegar fram líða stundir.

Er þetta framtíðarsýnin hér á landi? Að þegar maður drattast loksins í ræktina komi Bjössi í World Class og sargi einhverja örflögu í fingurinn á manni og tjái manni í leiðinni að það sé hægt að borga með henni í strætó í Borgarlínunni?

Ég held að Íslendingar séu tortryggnir á svona hluti. Fyrir nokkrum árum kynntu stjórnvöld hugmyndir um að Ísland yrði seðlalaust hagkerfi og því var svo illa tekið að ráðherrann sem bar ábyrgð á málinu þurfti að fara í sérstaka fjölmiðlaherferð í kjölfarið til að útskýra að þetta hefði nú bara verið hugmynd og engin alvara þar að baki.

Peningaseðillinn er í raun eins konar síðasti Móhíkaninn á tímum Svíavæðingarinnar, tákn gamla tímans og órekjanleikans sem er alltaf að hverfa. Það er eitthvað fallegt við að stundum rífi fólk bara upp krumpaðan seðil sem yfirvöld geta með engum hætti staðreynt hvaðan komi og borgi fyrir eitthvað sem enginn getur komist að síðar hvað var. 

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.