Gaukur í klukku

Fyrir nærri 34 árum kom út platan Frelsi til sölu með Bubba Morthens. Ekki er nóg með að sól Bubba hafi þarna risið hvað hæst heldur var kalda stríðið í hámarki, þótt klakaböndin hafi byrjað að bresta á Kremlarmúrum með valdatöku Mikhails Gorbachev árið áður.

Ísland hafði tekið afstöðu í Kalda stríðinu. Sú afstaða var með vestrænum lýðræðisþjóðum gegn einræði Kremlverja sem þá héldu þjóðum Austur-Evrópu í heljargreipum að baki járntjaldinu.

Þessi afstaða var ekki öllum að skapi hér á landi og allt þar til Berlínarmúrinn féll í nóvember 1989 sætti afstaða íslenskra stjórnvalda mikilli andstöðu meðal vel skipulagðra en þó fámennra hópa hér á landi, sem kalla má til einföldunar herstöðvarandstæðinga.

Þá, eins og nú, var í gildi varnarsamningur við Bandaríkjamenn og starfræktu þeir herstöð á Miðnesheiði, skammt frá Keflavík. Á níunda áratugnum var liðsafli þeirra í herstöðinni umtalsverður, svo skipti þúsundum hermanna. Þessi viðbúnaður var hluti af sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins gegn hugsanlegri árás Sovétmanna og leppríkja þeirra í Varsjárbandalaginu.

Í forsetakosningunum árið 1980 fylktu herstöðvarandstæðingar sér að baki einum frambjóðenda af þeim fjórum sem úr var að velja. Fór svo að sá frambjóðandi hafði nauman sigur, hlaut rétt um þriðjung atkvæða og 2.611 atkvæðum meira en sá er næstur kom.

Í ljósi sögunnar hefur framboð og kjör Vigdísar Finnbogadóttur yfir sér ljóma kvenfrelsis og áfanga í jafnréttisbaráttunni. Og víst var hún fyrsta konan til að vera lýðræðislega kjörinn þjóðhöfðingi – og það er stórmerkilegt og frábært. Það voru hins vegar ekki nánda nærri allir í baklandi Vigdísar sem sáu hlutina með þessum hætti á þeim tíma og nokkuð lengi á eftir.

Eftir því sem árin liðu og Vigdís varð ekki bara óvæntur sigurvegari forsetakosninga heldur ástkær forseti og sameiningartákn þjóðarinnar, án þess að uppfylla í einu eða neinu þær væntingar sem áðurnefnt bakland hafði til hennar, færðist kurr í mannskapinn.

Margir töldu sig svikna. Einn þeirra var Bubbi Morthens. Á fyrrnefndri plötu sem út kom haustið 1986, og margir telja hans allra bestu, er að finna lagið Gaukur í klukku. Ég minnist þess ekki sem ellefu ára strákur að hafa skilið texta lagsins öðruvísi en að Bubbi væri að syngja um gauk í klukku sem gerði svoddan lukku. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar, raunar ekki fyrr en á síðasta ári eftir textayfirlegu og samskipti við höfundinn sjálfan að ádeila textans varð mér ljós.

Þar sem garðurinn er hæstur
er fuglinn minn lagstur.
Á ferðum sínum auglýsir hann ull.

Svona hefst lagið og lýsir vonbrigðum höfundar með fuglinn sinn, finnst heldur lágt á honum risið.

Ég hafði fjóra kosti að velja um
ég kaus hann út af litnum.
Í búrinu sveik hann um lit.

Ástæðan fyrir því að Bubbi og skoðanabræður hans kusu Vigdísi var nefnilega ekki sú að kjósa fyrsta kvenforseta heims, heldur út af því sem þeir töldu hennar pólitík, út af litnum. Þegar fuglinn var kominn á sinn stað, sveik hann um lit, eins og höfundur kemst að orði.

Textinn í viðlaginu er kannski sístur, en grípandi þó og situr lengi í minni þess er á heyrir.

Hann gerir svoddan lukku
eins og gaukur í klukku.
Heimurinn féll að fótum hans
um hálsinn fékk hann krans.

Seinna erindið undirstrikar svo vonbrigði höfundar enn og frekar.

Hefur setið til borðs í veislum
með örnum og fálkum
og haldið hann væri annað en lítill fugl.
Gott þykir honum skjallið
um fegurð sína og fjallið
sem blasir við borgarbúum líkt og skíra gull.

Í samfélagi þjóðanna er Ísland ekki annað lítill fugl innan um erni og fálka, höfundur hittir þar auðvitað naglann á höfuðið. En á móti má segja að ef aflsmunir einir réðu mætti lítill fugl sín lítils í slíku kompaníi. Þess vegna eiga litlir fuglar allt undir því að reglur gildi og bandalög haldi.

En svo við snúum okkur aftur að ádeilunni, þá lýkur henni með sérstöku niðurlagserindi þar sem höfundur lýsir sambandi Íslands og Bandaríkjanna með sínum augum. Samhengisins vegna er rétt að geta þess að á þessum tíma var í byggingu eða hafði nýlega verið tekinn í notkun við Miðnesheiði alþjóðlegur flugvöllur og flugstöð sem kennd er við Leif Eiríksson. Hafði sú framkvæmd notið stuðnings Bandaríkjamanna.

Stóri bróðir örninn
býður honum gogginn
lokar bara augunum
labbar síðan inn.
Því hann byggir honum flugstöð
þar sem ernir lenda í beinni röð
í staðinn fær hann efni
í hreiður fyrir eggin sín.

Vigdís Finnbogadóttir sat sem forseti til ársins 1996 við sívaxandi vinsældir. Eftir að hafa verið kjörin af þriðjungi kjósenda og naumlega borið sigur úr bítum, var hún svo að segja óumdeild meðal þjóðarinnar þegar hún lét af embætti.

Kalda stríðið var þá enda búið og því hafði lokið með sigri hinna vestrænu gilda. Vigdís hafði sem forseti ekki látið sína háværustu stuðningsmenn hrekja sig af leið samstöðu vestrænna þjóða. Hún ávann sér traust og virðingu þjóðarinnar með framgöngu sinni allri. Óhætt er að segja að Vigdís Finnbogadóttir skipi sérstakan sess meðal íslensku þjóðarinnar, hvar í flokki sem menn standa.

Nú um stundir fer einnig fyrir þjóðinni, þótt í öðru embætti sé, kona sem gerðar hafa verið sambærilegar væntingar til og af sömu rótum sprottnar og í tilviki Vigdísar. Sú hefur einnig verið vænd um að svíkja lit.

Saga Vigdísar sýnir okkur að raunverulegir leiðtogar rísa undir ábyrgð, rísa undir því að leiða þjóð sína rétta vegu, jafnvel þótt allir vegvísar hringsnúist undan þeim sem ákafastir telja sig handhafa réttlætisins og sannleikans á hverjum tíma.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.