Hin íslenska drykkjumenning

Það er líklega flestum kunnugt að íslenskri drykkjumenningu hefur ekki verið gert hátt undir höfði undanfarin ár, ef þá nokkurn tímann. Óhófleg neysla drykkja og áfengiskaup eftir alkahól rúmmáli hafa verið mikið gagnrýnd og hugsanlega réttilega. Hinsvegar er alltof sjaldan sem raunveruleg dæmi um erlenda drykkjumenningu eru tekin með í dæmið.

Íslendingar hafa löngum þótt óhófsamir þegar kemur að neyslu áfengis. Það má leita jafnt til mjaðardrykkju hetjanna úr Íslendingasögunum og til minni hetja sem stunda næturlífið í nútímanum og finna þar dæmi um óhófsama drykkju. Hinsvegar má einnig leita til beggja þessara heimilda og finna þar mýmörg dæmi um hófsama drykkju og aukinheldur má finna stóran hóp fólks sem aldrei dreypir á guðaveigunum. Því miður að þá er sá hópur í flestum tilvikum undandskilinn í umræðunni um íslenska drykkjumenningu. Í stuttu máli er drykkja Íslendinga yfirleitt litin hornauga og álitin einsdæmi meðal siðmenntaðra þjóða. Þetta kemur meðal annars fram í mörgum rökum andstæðinga þess að leyfa sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum á Íslandi. Sjaldan er minnst á það fólk sem nýtur þess að drjúpa á rauðvínsglasi með sunnudagssteikinni eða þeirra sem finnst gott að fá sér koníaksstaup fyrir svefninn. Það ætti því að vera ráð að ræða aðeins drykkjumenningu þeirra þjóða sem leyfa slíka smásölu á léttvíni og bjór. Því einungis með því að bera Íslendinga saman við þá sem nú þegar leyfa slíka sölu getum við séð hvernig óhófsemis-rökin standast samanburð.

Undirritaður hefur þennan líðandi vetur haft nokkur kynni af drykkjumenningu í Englandi. Það verður þó að taka fram að sú reynsla er nokkuð einskorðuð við ungt fólk á aldrinum 18-25 ára. En þar sem að gagnrýni á íslenska drykkjumenningu er einmitt frekar bundin við ungt fólk á svipuðum aldri ætti það ekki að hafa neikvæð áhrif á samanburðinn.

Til þess að byrja með þá má nefna að ungt fólk í Englandi er ekki svo vandfýsið á hvaða dagur vikunnar það er þegar hefja á drykkju. Á mánudegi jafnt sem miðvikudegi mætir ungt fólk saman í gleðskap þar sem áfengi er við hönd og skemmtir sér fram á rauða nótt. Gildir þá einu hvort viðkomandi þurfi að sækja vinnu eða skóla morguninn eftir. Þess ber þó að geta að venjulega er sérstaklega vel tekið á því ef um helgi er að ræða. Aftur á móti er einnig enn stærri hópur sem lætur áfengið vera flesta þessa daga og einskorðar drykkjuna við helgardaga eða hátíðleg tilefni. Svona nokkuð svipað því sem gerist hér á Íslandi. Þegar kemur að óhófsemi með tilliti til magns eru Englendingar engir eftirbátar okkar Íslendinga. Þar, líkt og hér heima, má finna ofurölvi einstaklinga sem ráfa um eða hafa lagst fyrir sökum ofmikillar drykkju. Þessir einstaklingar eru hinsvegar, líkt og hér heima, örfáir miðað við þann hóp af gleðilegu fólki sem er að skemmta sér. Staðreyndin er sú að hér á landi er fjöldinn iðulega dæmdur út frá þeim verstu.

Það ætti ekki að þurfa að nefna hversu mikla þröngsýni slíkir sleggjudómar fela í sér en þeir eru, engu að síður, til staðar í íslensku þjóðfélagi. Enn fremur er það hreinlega sorglegt að í jafn þróuðu samfélagi og við búum í skuli enn leynast leifar þeirrar forræðishyggju sem kom í veg fyrir sölu á bjór fram til 1. mars árið 1989. Jafnvel þó að drykkja á Íslandi hafi sínar slæmu hliðar, og það er ekki tilgangur þessa pistils að fela þær, að þá er ljóst að hún er til staðar og verður það áfram. Aukinheldur þá er það einfaldlega barnalegt að halda því fram enn í dag að hin illræmda íslenska drykkjumenning sé nokkuð verri en finna má á meðal margra annarra þjóða. Þar er á ferðinni þjóðsaga sem er lítið annað en hentug grýlusaga, notuð til þess að skelfa almenning og telja okkur í trú um að við séum verri en aðrir þegar kemur að drykkju. Með þessum orðum er ekki á nokkurn hátt verið að hvetja Íslendinga til þess að auka neyslu á áfengi heldur einungis að benda á þá þröngsýni sem við búum við.