Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA

Undanfarinn áratug hefur landslag fjármála í evrópskri knattspyrnu tekið stakkaskiptum með eignarhaldi auðkýfinga á stórum sem smáum knattspyrnuliðum. Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) samþykkti hins vegar á vormánuðum regluverk sem á að tryggja stöðugleika í fjármálum evrópskra knattspyrnuliða. En af hverju að setja þetta regluverk?

Undanfarinn áratug hefur landslag fjármála í evrópskri knattspyrnu tekið stakkaskiptum með eignarhaldi auðkýfinga á stórum sem smáum knattspyrnuliðum. Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) samþykkti hins vegar á vormánuðum regluverk sem á að tryggja stöðugleika í fjármálum evrópskra knattspyrnuliða. En af hverju að setja þetta regluverk?

Fyrst og fremst hefur þörfin fyrir breyttar reglur orðið nokkuð augljós þar sem alþjóðlegir auðkýfingar hafa undanfarin ár keypt knattspyrnulið víða um Evrópu og dælt í þau peningum til leikmannakaupa til að tryggja velgengni síns liðs. Þetta fjáraustur eigendanna er í sjálfu sér ekki eina vandamálið, heldur staða og framtíð liðanna ef ( eða þegar) þessir sömu eigendur verða þreyttir á að spila raunveruleikaútgáfuna af Football Manager.

Það á til að gleymast að þessir peningamenn eru sjaldnast blóðheitir stuðningsmenn félaganna sem þeir kaupa. Stundum eru þetta kaupsýslumenn sem vilja nota félagið til fjárhagslegs ávinnings (Tom Hicks og George Gillett hjá Liverpool) en á öðrum stundum auðkýfingar sem sækjast eftir frægð og mögulega markaðssetningar á eigin viðskiptaveldi (Sjeik Mansour bin Zayed hjá Manchester City). Hvar liggur þá raunveruleg hollusta þessara manna?

Margir stuðningsmenn City vilja örugglega meina að Sjeikinn sé kominn til að vera og að regluverk UEFA sé ósanngjörn tilraun til þess að stöðva ótrúlegt ris liðsins á síðustu árum. Það má svo sem vel vera að Sjeikinn ætli sér eitthvað meira en frændi hans sem leit við hér á Íslandsströndum í boði Kaupþings um árið, en það breytir því ekki að þessi nýfundni gróði City-manna er tvíeggjað sverð sem gæti auðveldlega snúist í höndunum á þeim.

Á Bretlandseyjum er að finna tvö nýleg dæmi um ríkulegt eignarhald sem endaði í skelfingu fyrir stuðningsmenn liðanna. Annars vegar Portsmouth sem vann FA bikarinn árið 2008 og allt var í blóma þar til eigendur liðsins urðu þreyttir á peningakviksyndinu sem fylgdi rekstri félagsins. Þeir seldu félagið fyrir lítið til kaupsýslumanna sem gátu engan veginn staðið undir rekstrarkostnaði liðsins sem hafði farið upp úr öllu valdi blómatímanum. Ævintýrið endaði með greiðslustöðvun félagsins sem var í kjölfarið sektað um 20 stig af Enska knattspyrnusambandinu og féll úr Úrvalsdeildinni sama ár, 2009.

Svipaða sögu má segja af skoska félaginu Gretna sem vann sig upp um þrjár deildir á þremur árum eftir að kaupsýslumaðurinn Brooks Mileson keypti liðið og fór að dæla inn peningum. Mileson var hins vegar við slæma heilsu sem fór versnandi árið 2008 og því fór svo að hann hætti fjárstuðningi sínum við liðið. Líkt og hjá Portsmouth var rekstrarkostnaður félagsins allt of mikill án sykurpabbans. Liðið fór því stuttu síðar á hausinn og bæjarfélagið sat uppi með knattspyrnuvöll en ekkert knattspyrnulið.

Það eru nákvæmlega svona dæmi sem urðu til þess að þetta nýja regluverk UEFA var samþykkt. Reglurnar fela m.a. annars í sér að rekstrartap félaga frá og með tímabilinu 2011/2012 má ekki vera meira en 45 milljónir punda á tveimur tímabilum. Þetta þýðir að endurskoðun mun fara fram tímabilið 2013-14 og ef rekstrartap félags er meira en 45m punda fyrir tímabilin tvö á undan, þá verður viðkomandi félagi óheimilt að taka þátt í Evrópukeppnum á vegum UEFA. Reglurnar verða svo strangari eftir því sem á líður eða hámarks rekstrartap upp á 45 milljónir punda á þremur árum frá 2014-15 og 30 milljónir punda á þremur árum frá 2015-16. Reglurnar snúast því í meginatriðum um að gera félögin sjálfbær sem þykir nokkuð sjálfsagt í viðskiptum almennt. Það er þó ljóst að það á eftir að reynast þrautin þyngri fyrir mörg félaganna að aðlagast þessum breytingum.

Rekstrartap Manchester City fyrir tímabilið 2009-2010 var 121 milljón punda og áætlað er að rekstrartap 2010-2011 verði ríflega 130 milljónir punda. Það er því ljóst að ef Sjeikinn ætlar sér að halda liðinu í Meistaradeildinni, stærsta árlega knattspyrnumóti heims , þá þarf eitthvað stórkostlegt að eiga sér stað í rekstri félagsins.

Svona í lokin má geta þess að City kynnti nýverið að félagið hefði gert samning við flugfélagið Ethiad, frá Abu Dabi, um nafnrétt á heimavelli liðsins, sem mun því fá nafnið Ethiad stadium. Flugfélagið er í eigu Sameinuðu Arabísku Furstadæmana en Sjeik Mansour er hálfbróðir forseta Furstadæmana og varaforsætisráðherra landsins. Samningurinn, en upphæðin hefur ekki verið staðfest, mun víst slá öll met í sambærilegum auglýsingasamningum er varða nafnrétt á leikvöngum.