Fimm til að fylgjast með

Eflaust eru margir lesendur Deiglunnar nýkomnir aftur til vinnu og horfa sorgmæddir um öxl eftir afslöppun sumarsins. Aðrir hafa þó beðið með óþreyju eftir að sumrinu lyki og lífið hæfist á nýjan leik þegar knattspyrnudeildir Evrópu rúlla af stað að nýju. Íslendingar eiga að vanda fjölmarga fulltrúa í Evrópuboltanum og hér fylgir smá útlistun á þeim fimm leikmönnum sem þjóðstoltir einstaklingar ættu að fylgjast spenntir með í vetur.

Eflaust eru margir lesendur Deiglunnar nýkomnir aftur til vinnu og horfa sorgmæddir um öxl eftir afslöppun sumarsins. Aðrir hafa þó beðið með óþreyju eftir að sumrinu lyki og lífið hæfist á nýjan leik þegar knattspyrnudeildir Evrópu rúlla af stað að nýju.

Íslendingar eiga að vanda fjölmarga fulltrúa í Evrópuboltanum og hér fylgir smá útlistun á þeim fimm leikmönnum sem þjóðstoltir einstaklingar ættu að fylgjast spenntir með í vetur.

Grétar Rafn Steinsson – Bolton Wanderers
Grétar Rafn er, að öðrum ólöstuðum, sá atvinnumaður okkar Íslendinga sem er að gera hvað besta hluti. Það lítur allt út fyrir að þessi grjótharði hægri bakvörður verði með öruggt byrjunarliðssæti í Bolton í vetur, sérstaklega þar sem tveir helstu keppinautar hans um stöðuna eru meiddir. Þrátt fyrir að Bolton teljist ekki á meðal sterkustu liða Ensku úrvalsdeildarinnar þá er liðið vel mannað og mun að öllum líkindum sigla lignan sjó rétt fyrir ofan miðja deild í vetur.

Væntingar: 30+ leikir í byrjunarliði í sterkustu deildarkeppni heims og sómasamleg endurkoma í landsliðið sem allra fyrst. Væri ekki amarlegt ef hann gleddi landann með einu marki fyrir Bolton.

Kolbeinn Sigþórsson – Ajax Amsterdam
Það er einna helst að Kolbeinn sé sá leikmaður sem vermi Grétari undir uggum hvað varðar frammistöðu á alþjóðavettvangi. Kolbeinn var keyptur í sumar til Ajax frá AZ Alkmaar og mun leiða sóknarlínu þessa sigursælasta knattspyrnuliðs Hollands. Hann er þó enn ungur að árum (21) og því á eftir að koma í ljós hvernig hann bregst við auknu álagi frá stuðningsmönnum og fjölmiðlum. Tímabilið hefur farið vel af stað hjá honum en hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í 2. umferð hollensku deildarkeppninnar nú um helgina.

Væntingar: 30+ leikir í deildinni og 15 mörk. Væri gaman að sjá hann skora 20+ þegar Evrópukeppni og bikarkeppnir eru teknar með í reikninginn. Verður algjör lykilleikmaður í íslenska landsliðinu um ókomin ár og mætti hefja reglulega markaskorun þar í vetur.

Gylfi Þór Sigurðsson – 1899 Hoffenheim
Gylfi skaust svo sannarlega á stjörnuhimininn þegar hann var keyptur til Hoffenheim í þýsku Bundeslígunni síðasta sumar á 6,5 milljónir punda. Gylfi hafði þá slegið í gegn hjá Reading í ensku fyrstu deildinni og skorað 20 mörk fyrir liðið í öllum keppnum. Síðasti vetur reyndist honum erfiðari þar sem hann þurfti mikið að verma varamannabekinn en lét þó alltaf vel til sín taka þegar hann fékk tækifæri. Gylfi skoraði ein 10 mörk, þrátt fyrir að hafa byrjað aðeins 13 leiki og var í lok tímabils valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum.

Væntingar: Það er ekki nóg að vera vinsæll af stuðningsmönnum og því alveg klárt að Gylfi þar að festa sig í sessi sem byrjunarliðsmaður í vetur. Ef það gengur upp þá er allt eins líklegt að við fáum að sjá önnur stór félagaskipti hjá Gylfa næsta sumar, sérstaklega ef hann heldur áfram að bæta spyrnurnar sínar í föstum leikatriðum.

Aron Einar Gunnarsson – Cardiff City
Aron er sá leikmaður sem ég persónulega bind mestar væntingar við í framtíðinni. Hann er grjótharður með fína grunntækni en er fyrst og fremst með hausinn á réttum stað. Árin hans í atvinnumennsku hafa sýnt að hann veit hvað hann getur og hvert hann ætlar sér. 17 ára byrjaði hann í uppeldisdeildinni í Hollandi áður en hann fór í ensku fyrstudeildina. Þar stóð hans sig vel hjá miðlungsliði Coventry en gekk í sumar til liðs við Cardiff City sem ætti að vera í toppslagnum í vetur. Aron hefur því farið eitt þrep í einu og alltaf fengið nóg að spila þar sem hann hefur verið.

Væntingar: Verður lykilleikmaður í liði Cardiff sem vinnur sér sæti í Úrvalsdeildinni næsta vor. Væri frábært að sjá hann spila 40+ leiki og að sleppa algjörlega við rauð spjöld.

Jóhann Berg Guðmundsson – AZ Alkmaar
Jóhann er fyrsti virkilega skemmtilegi kantmaðurinn sem Íslendingar hafa átt í áraraðir. Hefur hæfileikann til þess að keyra á bakverði, klobba tvo og dúndra draumakross fyrir markið. Hann var lykilmaður í góðum árangri U21 árs landsliðs Íslands í undankeppninni en hefur verið aðeins takmarkaður í spiltíma hjá félagi sínu AZ Alkmaar. Hefur hæfileika til að verða stórt nafn í fótboltaheiminum ef hann heldur áfram að bæta sig í vetur.

Væntingar: Við þurfum stórt stökk frá Jóhanni þar sem hann treystir stöðu sína í byrjunarliði AZ og verður lykilmaður í Íslenska landsliðinu. Þannig tímabil gæti tryggt farmiða í stærra félag eða deild en það væri synd að sjá hann enda aftur í Skandinavíu á næstu 2-3 árum.