Hafa Íslendingar efni á að bjarga lífum 10 þúsund barna á ári?*

Samtals deyja árlega yfir 10 milljón börn undir 5 ára aldri en flest þessara dauðsfalla væri hægt að fyrirbyggja. Nýleg rannsókn gerði tilraun til að meta hagkvæmni mögulegra aðgerða til að komast hjá þessum dauðsföllum.

Á Íslandi deyja um 0.3% barna fyrir 5 ára aldur en fæst þessara dauðsfalla er hægt að fyrirbyggja með núverandi tækni. Sambærileg tala í fjöldamörgum þróunarlöndum fer yfir 10%, en hátt í 30% barna deyja fyrir 5 ára aldur í þeim löndum þar sem ástandið er hvað verst. Samtals deyja árlega yfir 10 milljón börn undir 5 ára aldri en flest þessara dauðsfalla væri hægt að fyrirbyggja með tiltölulega ódýrum, þekktum leiðum.

Nýleg rannsókn gerði tilraun til að meta hagkvæmni mögulegra aðgerða til að komast hjá þessum dauðsföllum. Rannsakendurnir mátu kostnaðinn við að fyrirbyggja 6 milljón þeirra með árlegu framlagi upp á 5.1 milljón dollara. Þetta samsvarar um 900 dollurum (eða rúmum 65 þúsund kr) á hvert líf sem bjargað er.[1]

Þegar svona tölum er slengt fram spyrja kannski margir sjálfa sig, eins og Thomas Malthus gerði fyrir 200 árum (og undirritaður fyrir ekki svo löngu síðan), leiðir það ekki bara til þess að fæða þurfi fleiri munna og afleiðingarnar verði meiri fátækt og hungur?

Upphaflegar afleiðingar væru vissulega fólksfjölgun en í mörgum tilvikum myndi fæðingartíðni minnka (eftir ákveðinn tíma) þegar foreldrar sjá fram á meiri líkur á því að börnin þeirra komist á legg og geta þannig átt færri börn en verið samt tiltölulega viss um að eiga erfingja (og aðstandendur) í ellinni. Einnig sýnir reynslan að eftir því sem lönd verða þróaðri — sérstaklega hvað varðar menntun og réttindi kvenna, og aðgang að getnaðarvörnum — minnkar fæðingartíðni og fólksfjölgun hægir á sér (eins og gerst hefur í öllum ríkari löndum heims).

Þær aðgerðir sem nefndar eru í rannsókninni halda börnum ekki bara á lífi heldur stórauka almenna heilsu þeirra. Það gerir þau betur í stakk búin fyrir skólagöngu og þátttöku í atvinnulífinu og leggur þannig línurnar fyrir enn frekari skref í þróunarátt.

Ef við setjum þessar upphæðir í samhengi við vinsælt gagnrýnisefni á þessu vefriti, fyrirhuguð göng í Héðinsfirði, kemur í ljós hvað kostnaðurinn er í raun lágur, jafnvel miðað við þær upphæðir sem eru í umræðunni á Íslandi. Ef íslenska ríkið myndi setja þá fjárhæð sem ráðgerð er í byggingu gangnanna, samtals 7 milljarðar, í umræddar aðgerðir gegn barnadauða, segjum yfir 10 ára tímabil, þá myndi aðeins það framlag bjarga um 10.000 lífum á ári, samkvæmt rannsókninni, eða samtals um 100 þúsund lífum.

Það er góð ástæða fyrir því að takmarkið um minnkun á tíðni barnadauða er eitt af Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna. Rannsóknir sem þessar sýna að þetta markmið er raunhæft ef fólk tekur sig saman um að gera eitthvað í málunum. Við Íslendingar erum meðal ríkustu þjóða í heimi og höfum bæði getu og skyldu til að, ja, gera eitthvað í málunum.



* Titill fenginn að láni frá fyrirsögn greinar Bryce et al.

Heimildir:

1. Bryce, J. et al. Can the world afford to save the lives of 6 million children each year?. Lancet, 2005.

2. Sachs, J. The End of Poverty.

3. WHO (http://www.who.int)

4. Vegagerðin (http://www.vegag.is)

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)