Vafasamt verklag á Alþingi

Senn líður að þinglokum á þessum vetri, en þau eru fyrr en vanalega vegna sveitarstjórnakosninga sem fram fara í lok maí. Mörg mál eru oftlega á þessum tímapunkti keyrð í gegnum þingið með miklum hamagangi meðan önnur góð mál sitja eftir órædd eða óafgreidd. Það vill henda að sömu góðu málin sitji eftir ár frá ári.

Senn líður að þinglokum á þessum vetri, en þau eru fyrr en vanalega vegna sveitarstjórnakosninga sem fram fara í lok maí. Mörg mál eru oftlega á þessum tímapunkti keyrð í gegnum þingið með miklum hamagangi meðan önnur góð mál sitja eftir órædd eða óafgreidd. Það vill henda að sömu góðu málin sitji eftir ár frá ári.

Við þinglok verður höfundi þessa pistils stundum hugsað til þess hvort ekki sé eitthvað mjög bogið við vinnuaðferðir og verklag á Alþingi. Þannig virðist vinnuálagið ekki dreifast með skynsamlegum hætti. Rétt fyrir þinglok að vori og þinghlé um jól eru frumvörp keyrð í gegnum þingið með bægslagangi, maraþonfundum og tilheyrandi málþófi. Í öðrum mánuðum á starfstíma þingsins virðist hins vegar allt í hægagangi.

Á hægagangstímum fer tími Alþingis oft í hreina vitleysu. Þar má nefna furðuleg mál sem rata inn í þingsali og standa tvö mál upp úr á þessum vetri í fráleitlegheitum. Fyrst ber að nefna fyrirspurn Jóns Bjarnasonar þingmanns vinstri grænna um langan biðtíma eftir svari hjá þjónustulínu Símans hf. Spurði hann viðskiptaráðherra, sem jafnframt er ráðherra neytendamála, að því hvort þessi biðtími væri eðlilegur. Við því átti ráðhera fá svör. Seinna tilvikið er fyrirspurn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar Frjálslynda flokknum til menntamálaráðherra sem laut að sjávarútvegsþættinum Auðlindinni sem lengi var á Rás 1 eftir hádegisfréttir. Kvartaði Magnús yfir því að þessi þáttur væri ekki lengur á dagskrá og óskaði eftir skýringum ráðherra.

Enn eitt furðumál sem nú er á leið til 2. umræðu á Alþingi er tillaga til þingsályktunar um þjóðarblóm Íslendinga. Er í tillögunni lagt til að holtasóley verði þjóðarblóm hérlendis. Landbúnaðarnefnd hefur haft þetta „mikilvæga“ mál til meðferðar og skilaði í byrjun þessa mánaðar frá sér nefndaráliti um málið. Þar kom fram að nefndin hefði aflað umsagna víða að, og mætti þar nefna Skógrækt ríkisins, Landvernd, Ungmennafélag Íslands, Samtök ferðaþjónustu og Bændasamtök Íslands. Þá kom jafnframt fram að allar þessar umsagnir hafi verið jákvæðar gagnvart tillögunni. Nú er bara að bíða eftir 2. umræðu um málið.

Ekki er öll vitleysan eins. Á meðan mikilvæg frumvörp sem varða almannahagsmuni bíða umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi er oft verið að eyða tíma þess í tóma vitleysu. Eru þau þrjú tilvik sem nefnd eru hér að ofan dæmi um þetta. Þar við bætist sú tíska sem viðgengist hefur alltof lengi að málum sé haldið í gíslingu í þinginu með málþófi dögum og jafnvel vikum saman. Ljóst er að um það atriði verður að breyta þingsköpum og kveða þar á um að ræðutími þingmanna í öllum umræðum, 1., 2. og 3. umræðu, verði takmarkaður.

Verklag og vinnubrögð á Alþingi eru einkennileg og á köflum fjarstæðukennd. Rétt er að tekið verði til alvarlegrar athugunar á viðeigandi stöðum, t.d. í forsætisnefnd þingsins, að gera gagngerar umbætur í þessum efnum svo að vinnuaðferðir þar séu með einhverju því yfirbragði sem telst vitsmunalegt og skynsamlegt, en ekki fíflalegt.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)