Æska í dós?

Að vilja lengja líf sitt getur seint talist vera nýtt af nálinni. Vilja ekki allir vera lengur? Ef einhver myndi selja viðsnúning lífsklukkunnar, æsku í dós – myndu ekki allir gefa lítið fyrir innihaldslýsinguna og ólmir vilja kaupa? Hún er til sölu.

Allir virðast vilja vera unglegir. Þegar tekur að síga á seinni helming ævinnar virðist orðið eðlilegt að við taki lýta- og leiseraðgerðir, leirböð og hrukkufyllingar. Örvæntingarfullar tilraunir til að reyna að hægja á vísum lífsklukkunnar?

Að vilja lengja líf sitt getur þó seint talist vera nýtt af nálinni. Vilja ekki allir vera lengur? Ef einhver myndi selja viðsnúning lífsklukkunnar, æsku í dós – myndu ekki allir gefa lítið fyrir innihaldslýsinguna og ólmir vilja kaupa?

Það ótrúlega er, að sala á æsku er orðin raunveruleg. Vandamálið er að innihaldslýsingar fylgja ekki einu sinni – og neytendum virðist nokkuð sama.

Vestanhafs skýtur um þessar mundir eins og gorkúlum upp læknastofum sem sérhæfa sig í meðferðum sem miða að því að tefja öldrun. Starfsemi þeirra gengur út á það að freista þess að snúa lífsklukkunni við með því að gefa sjúklingum stóra skammta af alls kyns efnum sem læknarnir trúa að komi í veg fyrir að líffærin hrörni og líkaminn deyji. Til dæmis vaxtarhormón (HGH,human growth hormone), testósteron, vítamín, fitusýrur og fleira.

“Öldrunar-hömlunar byltingin” er nokkuð ný af nálinni en nú þegar hafa einstaklingar í bransanum tekið sig saman og stofnað með sér samtök sem bera heitið The American Academy of Anti-aging Medicine (A4M). A4M styrkir ráðstefnuhöld, selur bækur og myndbönd um hömlun öldrunar og veitir vitaskuld upplýsingar hvaða A4M læknastofa sé næst heimili þess sem óskar að vita.

Rannsóknir hafa sýnt að iðnaðurinn veltir nú um 56 milljörðum bandaríkjadala á ári, og því spáð að sú tala gæti hæglega farið upp í 79 milljarða árið 2009. Meðferðin er líka dýr, en hefðbundin meðferð sem samanstendur af 30 vítamínum og bætiefnum, testósteron geli og vaxtarhormónssprautum kostar um 10 þúsund dali á ári.

Gætu viðskiptin gengið svona vel ef þetta virkaði ekki? Eldra fólk sem undirgengist hefur meðferðina finnst það himin höndum hafa tekið, enda virðist það hreinlega massast upp, fá minnið aftur, sem og að þróttur og þol, lífshvöt og kyngeta eykst að nær gleymdu marki. Sjúkdómar virðast í rénun og þar fram eftir götunum.

“Aging is a disease that can be prevented or reversed” er iðulega partur í söluræðunni.

Gagnrýnisraddir eru því eðlilega háværar. Talað er um iðnaðurinn sé í raun bara peningaplokk og svindl. T.a.m. voru vörur sem innihalda vaxtarhormónið (HGH) fyrst samþykktar af FDA (Food & Drug Administration) 1985, og þá sem lyf til að lengja í óvenjulega smávöxnum krökkum. Í dag má aðeins skrifa upp á HGH vegna ákveðins sjúkdóms sem vegna skorts á HGH í líkamanum veldur m.a. þunglyndi og aukinni líkamsfitu. Þvílík tilviljun, að allir þeir sem leita á náðir A4M og vilja kaupa æsku í dós skuli hafa einmitt þennan sama sjúkdóm! Á sama tíma hafa rannsóknir hinsvegar leitt í ljós að HGH geti hvatað vöxt æxla, valdið háum blóðþrýstingi og myndun kekkja í blóði.

Sömuleiðis hefur hart verið deilt á uppáskriftir fyrir testósteroni sem fulltrúar A4M fullvissa sjúklinga um að sé fyrir karlmenn gott fyrir hjartað, frammistöðu innan veggja svefnhergisins og minnið, meðan það á að draga úr einkennum tíðahvarfa hjá konum.Rannsóknir hafa hinsvegar sýnt fram á að of mikið magn af testósteróni valdi skapbrestum og hártapi hjá karlmönnum, en bólum, dýpkaðri röddu og óæskilegum hárvexti hjá konum.

Fjöldamargt annað er í umræðunni þar ytra varðandi þetta mál, sem bæði lýtur að aðgerðarleysi FDA, vöntun á eftirliti tryggingakerfisins o.s.frv. Það ætti að verða mjög forvitnilegt að fylgjast með þróun mála.

Æska í dós á diskinn minn?

Skv. einum af frumkvöðlum A4M, Dr. Ron Rothenberg felst svarið í raun í því hvernig þú vilt eyða síðustu árunum. Viltu eyða þeim samkvæmt líkani rétthyrningins, þ.e. eiga sérstaklega hreystileg ár sem fá enda sinn mjög snögglega eða samkvæmt hinu hefðbundna þríhyrningslíkani, með hægri aflíðandi stefnu í gröfina.

Heimild:

Businessweek

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.