Dómur fallinn

Það voru nokkuð góðar fréttir sem bárust síðdegis í gær þess efnis að ummæli um Bubba Morthens í Hér og nú voru dæmd dauð og ómerk og ritstjóri blaðsins dæmdur til greiðslu miskabóta.

Það voru nokkuð góðar fréttir sem bárust síðdegis í gær þess efnis að ummæli um Bubba Morthens í Hér og nú voru dæmd dauð og ómerk og ritstjóri blaðsins dæmdur til greiðslu miskabóta.

Niðurstaða þessa máls gladdi mig óneitanlega. Ég veit ekki hvort það var meira vegna persónulegrar andúðar á mörgu því sem birtist í blöðum eins Hér og nú, Séð og heyrt og DV eða vegna þess að friðhelgi einkalífsins er gert nokkuð hátt undir höfði í dómnum.

Það er kannski ekki þörf á því að dvelja lengi við vangaveltur héraðsdóms um hvað orðið „fallinn“ þýðir nákvæmlega, en ef þú lendir í deilum um það í næstu fermingarveislu þá hefur alla vega verið skorið úr því fyrir dómstólum. Hins vegar er það meira um vert að dómurinn telur að myndataka af manni í bifreið sé óheimil líkt og myndataka af manni á heimili hans. Ekki síður mikilvægt er að Bubba eru dæmdar háar miskabætur (a.m.k. á íslenskan mælikvarða) fyrir þessa meingerð gegn friði hans og æru.

Í dómnum fer fram mat á því hvort þær aðstæður sem myndin er tekin við hafi verið sérstaklega fréttnæmar eða ekki og hvort þær hafi haft þýðingu í almennri þjóðfélagsumræðu. Telur dómurinn svo ekki vera. Myndir úr einkalífi manna og villandi og meiðandi ummæli geta því verið ólögmæt enda á slíkt almennt ekkert erindi við almenning. Það er kannski fulllangt gengið að segja að slúður og myndir úr einkalífi manna geti talist ólögmætar samkvæmt dómnum. En umfjöllun sem gerir ekki annað en að svala slúðurþörf einstaklinga en hefur umfram það ekkert gildi fyrir almenna þjóðfélagsumræðu, og er meiðandi fyrir þá sem umfjöllunin beinist að getur þó í einhverjum tilvikum verið ólögmæt.

Með þessum dómi hefur umfjöllun slúðurblaða verið settar einhverjar skorður. Þeim er í það minnsta ekki frjálst að vaða uppi með villandi og meiðandi fyrirsögnum og myndum teknum úr launsátri. Það er óskandi að niðurstaða þessa máls verði þeim eitthvert víti til varnaðar og ef ekki þá að minnsta kosti hvatning til þeirra sem telja að á sér hafi verið brotið með lágkúrulegri umfjöllun til að leita réttar síns.

Dómnum hefur ekki verið vísað til Hæstaréttar og meðan hann hefur ekki skorið úr málinu er fordæmisgildi þess að einhverju leyti takmarkað. Það verður því spennandi að sjá hvort málinu verður áfrýjað og úr því fáist skorið með óyggjandi hætti.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.