Útrás verður árás

Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um stöðu íslenska hagkerfisins og íslensku bankanna og á sama tíma hefur verið nokkuð stormasamt á innlendum fjármálamarkaði.

Flestum er líklega ljóst að hin mikla umfjöllun erlendra aðila um Ísland hófst í lok febrúar þegar fyrirtækið Fitch Ratings breytti horfum sínum á einkunn íslenska hagkerfisins úr stöðugum í neikvæðar. Fitch sérhæfir sig í mati á lánshæfi og fjárhagslegum styrk ríkja og fyrirtækja og varð þessi tilkynning til þess að nokkur neikvæð umræða um Ísland og sérstaklega íslenska banka fór af stað.

Skýrsla Fitch olli einnig talsverðu fjaðrafoki á innlendum fjármálamörkuðum en hlutabréf lækkuðu talsvert í verði þennan dag og sömuleiðis féll gengi krónunnar talsvert. Daginn áður en Fitch birti niðurstöður sínar stóð gengisvísitala krónunnar í um 109 stigum en er nú rúmlega 121 stig sem þýðir að gengi krónunnar hefur veikst rétt um 11%.

Fitch skýrslan var þó aðeins upphafi að því sem koma skyldi. Á þeim mánuði sem er liðinn frá því að hún birtist hefur fjöldi erlendra greiningaraðila birt skýrslur og álit um Ísland og íslensk fyrirtæki og hefur kastljósinu jafnan verið beint sérstaklega að bönkunum hér á landi. Einna lengst gekk skýrsla Danske Bank sem fjallaði nokkuð ítarlega um íslenskt hagkerfi og íslensku bankana og málaði óneitanlega afar dökka mynd af framtíðinni. Nafn skýrslunnar, „Iceland: Geyser crisis“ segir líklega mest um innihald hennar en hún spáði samdrætti í hagkerfinu og töluverðum líkum á fjármálakreppu í kjölfarið.

Ekki voru þó allir neikvæðir í garð Íslands því sumir erlendir aðilar gripu til varna og tóku undir með innlendum aðilum sem meðal annars gagnrýndu skýrslu Danske Bank. Margir vildu meina að Danske Bank og öðrum sem voru neikvæði í garð íslensku bankanna þætti nóg um hina svokölluðu útrás þeirra og væru að gera sitt til þess að koma böndum á þá.

Hafi þetta verið ætlunin heppnaðist það að nokkru leyti því bankarnir munu líklega þurfa að fjármagna sig á hærri vöxtum en þeir hafa gert hingað til. Ein ástæða þess að íslensku bönkunum hefur gengið jafnvel og raun ber vitni er sú að þeir hafa haft nánast ótakmarkaðan aðgang að ódýru fjármagni erlendis sem hefur gefið þeim styrkt til þess að vaxa hratt, bæði með innri vexti og yfirtökum á öðrum félögum. Þessi vöxtur verður að líkindum dýrari í framtíðinni.

Öldur hefur nú lægt nokkuð á fjármálamörkuðum hér heima, hlutabréf hækkað í verði og gengi krónunnar styrkst. Það verður þó að segjast eins og er að þau sannleikskorn sem komu fram í neikvæðum álitum erlendra aðila virðast ætla að hafa nokkur áhrif á markaðinn í einhvern tímann og sömuleiðis verður að viðurkennast að viðbrögð markaðarins við neikvæðum fréttum voru ýktari en gera hefði mátt ráð fyrir.

Eftir stendur að þrátt fyrir að þrír stærstu bankar landsins hafi náð mjög langt undanfarin ár má segja að tvennt skorti: Annars vegar þurfa bankarnir að standa sig betur í að koma upplýsingum til erlendra greiningaraðila, bæði um sína stöðu og sömuleiðis stöðu mála í íslenska hagkerfinu almennt. Hins vegar skortir markaðinn nokkurn þroska og jafnvægi til þess að þola neikvæða umfjöllun betur.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)