Unga fólkið og umhverfið

Umhverfismál eru víðast hvar mál málanna í nágrannalöndum okkar. Hér á landi er umræðan hins vegar frekar lítil og takmörkuð. En getur ungt fólk leyft sér að hafa ekki skoðun á umhverfisvernd?

Talsvert hefur verið fjallað um umhverfismál undanfarin misseri. Mótmælin vegna Kárahnjúkavirkjunar hafa þar verið í forgrunni. Ímynd umhverfisverndarinnans sem upp kemur í hugann í því sambandi er af skyrslettandi boðflennum á Hótel Sögu, tjaldbúum á hálendinu og konum í hungurverfalli. Skilgreiningin á orðinu umhverfisverndarsinni virðist mér vera sú í daglegu tali að um sé að ræða mussuklædda grænmetisætu sem sefur í tjaldi og á ekki bíl. Það þykir sem sé frekar lummó að vera umhverfisverndarsinni í dag.

Umræðu um umhverfisvernd er því oft á tíðum stungið undir stól þar sem margir eru á þeirri skoðun að ekki sér mark takandi á þessu lummó liði. En eru umhverfismál ekki mikilvæg? Getum við leyft okkur að hafa ekki skoðun á þeim eða stinga þeim þessum sjónarmiðum undir stól? Getur verið að við ræðum þessi mál ekki nógu mikið? Í Evrópu er þessi málaflokkur víðast hvar mjög fyrirferðamikill og Íslendingar sem búið hafa erlendis eru margir hverjir ósáttir við umræðuna hér heima.

Í dag hafa sex ferðaskrifstofur og hagsmunahópar um ferðamennsku á hálendinu sent frá sér yfrirlýsingu þar sem þess er krafist að stjórnvöld viðurkenni að ferðaþjónusta og útivist í ósnortinni náttúru verði viðurkennd sem arðbær og mikilvæg atvinnugrein. Stórfellt rekstrartap blasi við fjölda ferðaþjónustufyrirtækja vegna virkjanaframkvæmda sem haldi uppi háu gengi krónunnar auk þess sem mikil ásókn orkufyrirtækja í ósnortna náttúru til virkjanaframkvæmda sé raunin.

Síðustu daga hafa fjölmiðlar verið undirlagðir af umfjöllun um álver. Ýmist er þá fjallað um álver sem þegar eru í byggingu og virkjanaframkvæmdir tengdar þeim eða álver sem næst á að ráðast í og virkjanaframkvæmdir tengdar þeim. Það er ekki spurt hvort heldur hvenær. Umræðan snýst um kjördæmaröðina á virkjanalistanum!

Nú er það svo að umhverfismál eru langtímamál og taka þarf tilltit til margra sjónarmiða við mat á því hvenær réttlætanlegt sé að raska umhverfinu svo sem sjónarmiða um efnahagsvöxt, félagslega velferð og náttúruvernd.

Það er mitt mat að ungt fólk á að láta sig umhverfismál varða. Auðvitað verður maðurinn að nýta landið en það er alltaf spurning um hvaða hagsmunum er réttlætanlegt að fórna. Í Kastljósi í gær var til dæmis fjallað um malarnám úr Ingólfsfjalli. Fjallið, sem er eitt helsta einkennisfjall Suðurlands, minnkar dag frá degi fyrir augum okkar sunnlendinga. Malarnámið blasir við frá einum fjölfarnasta kafla þjóðvegarins sem flest allir erlendir ferðamenn sem til landsins koma aka eftir. Þetta umhverfisrask bendir ekki til þess að sunnlendingar beri mikla virðingu fyrir umhverfi sínu. Vissulega er það gott fyrir íbúa héraðsins að eiga auðveldan aðgang að hráefninu sem úr námunni er unnið, en í þessu tilviki tel ég meiri hagsmunum hafa verið fórnað fyrir minni.

Sá dagur kemur að við skilum landinu okkar áfram til komandi kynslóða og við hljótum að vilja vera stolt af verkum okkar. Skoðum vel hvaða áhrif ákvarðanir okkar koma til með að hafa á náttúruna til framtíðar. Það er ekki lummó að vernda landið sitt.

Latest posts by Unnur Brá Konráðsdóttir (see all)

Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar

Unnur Brá hóf að skrifa á Deigluna í október 2004.