Framtíð Háskólans að veði

Háskóli Íslands er einn af hornsteinum samfélagsins. Hann er undirstaða menntunar og menningar í landinu og mikilvægt er að hann verði það um ókomin ár. Í dag hafa stúdentar við Háskóla Íslands tækifæri til þess að láta til sín taka.

Háskóli Íslands er sú stofnun í landinu sem þjóðin ber hvað mest traust til, í það minnsta ef marka má Þjóðarpúls Gallup frá því í mars 2005. Þetta þarf varla að koma á óvart því Háskólinn er óumdeilandlega æðsta menntastofnun landsins. Hver sá sem hyggur á akademískt háskólanám hlýtur að setja Háskóla Íslands í fyrsta sæti enda fáir aðrir valkostir í stöðunni hér á landi.

Nýlega hafa nokkrar úttektir verið gerðar á Háskóla Íslands þar sem ýmsir þættir voru skoðaðir, bæði er varða gæði kennslu og rannsókna og sömuleiðis rekstrarfyrirkomulag og stjórnun skólans. Fyrst ber þar að nefna stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem varpaði ljósi á ýmsa þætti í rekstri og stjórnun Háskólans. Helsta niðurstaða þeirrar úttektar er sú að Háskóli Íslands sé tiltölulega ódýr í rekstri miðað við sambærilega evrópska háskóla og að árangur skólans á sviði kennslu og rannsókna sé sömuleiðis ágætur.

Úttekt EUA (European University Association) er ekki síður merkileg en þar er aðallega fjallað um gæði kennslu og rannsókna við Háskóla Íslands og frammistöðu hans í alþjóðlegum samanburði. Helstu niðurstöður eru þær að stúdentar séu almennt ánægðir með gæði námsins og þeirrar menntunar sem þeir hljóta, að skólinn komi vel út í samanburði við erlenda háskóla hvað varðar hagkvæmni og skilvirkni og síðast en ekki síst að Háskólinn komi vel út í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir ónógar fjárveitingar.

Það sem kemur fram hér að ofan sýnir okkur að Háskóli Íslands er í dag fremstur meðal jafningja þrátt fyrir að einhverjir vilji ef til vill halda öðru fram. Engum dylst þó að skólinn á við verulegan fjárhagsvanda að stríða og honum er þröngur stakkur sniðinn af hálfu ríkisins. Háskólinn hefur þurft að búa við erfið rekstrarskilyrði um nokkurra ára skeið og hefur það orðið til þess að þjónusta skólans eru verulega skert og með meira fjármagni væri hægt að gera mun betur en ella. Verði þetta raunin um ókomin ár getur farið svo að Háskólanum fatist flugið og hann verði annars flokks skóli.

Til þess sporna gegn þessari hættulegu þróun er lykilatriði að rödd stúdenta heyrist. Vaka er sú fylking innan Háskólans sem hefur ávallt lagt áherslu á að skólanum séu búin þau skilyrði sem þarf til þess að hann geti veitt stúdentum þá menntun og þjónustu sem nauðsynleg er í slíkri stofnun. Þetta er grundvöllur þess að Háskólinn geti vaxið og dafnað um ókomin ár og sinnt hlutverki sínu sem æðsta menntastofnun landsins.

Í dag er síðari kjördagur í kosningum til Stúdentaráðs og háskólaráðs við Háskóla Íslands. Það er kosið um framtíð Háskóla Íslands og þeirra sem koma til með að leggja stund á akademískt nám í framtíðinni. Vöku er best treystandi til þess að standa vörð um hagsmuni stúdenta og Háskólans, hér eftir sem hingað til. Af þeim fylkingum sem bjóða fram í þessum kosningum stendur Vaka uppúr vegna þess að málflutningur félagsins og starfsaðferðir þess hafa skilað stúdentum og Háskólanum miklum árangri undanfarin ár.

Mikilvægt er að þeir stúdentar sem hafa ekki þegar nýtt atkvæðisrétt sinn í kosningunum geri það í dag. Allir ættu að láta sig þetta varða, ekki síst vegna þess að hér er um framtíð Háskóla Íslands að ræða. Vaka hefur sýnt frumkvæði í hagsmunbaráttu stúdenta og farið nýjar leiðir með því að koma með tillögur að lausnum í stað þess að fjalla um vandamál. Það ætti því að vera augljóst að með því að setja x við A á kjörseðlinum í dag tryggjum við öfluga hagsmunabaráttu og sömuleiðis að Háskóli Íslands haldi forystuhlutverki sínu um ókomna tíð.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.