Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið

Frumvarp umhverfisráðherra um miðhálendisþjóðgarð hefur farið út um þúfur og er það að mestu vel. Það var bundið verulegum annmörkum sem á endanum mætti of mikilli mótstöðu í samfélaginu. En þjóðgarður á miðhálendinu þarf ekki að vera af hinu slæma og allar líkur á að hann verði á endanum að veruleika. En þá þarf að vanda mun betur til verka og hafa náttúruvernd, einfaldleika og frelsi að leiðarljósi.

Umhverfis- og samgöngunefnd ákvað þann 9. júní 2021 að vísa frumvarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra Vinstri-grænna um miðhálendisþjóðgarð aftur til ríkisstjórnarinnar. Nú þegar hillir undir þinglok á síðasta starfsári ríkisstjórnarinnar og þingstörfum að ljúka virðist frumvarpið endanlega dautt. Alla vega að sinni.

Alls bárust um 170 umsagnir við frumvarpið þegar það var kynnt almenningi og hagsmunaaðilum. Var það þrátt fyrir að ýmsar tilslakanir hafi verið gerðar. Mesta mótstaðan kom frá sveitarfélögunum sem fara með skipulagsvaldið, aðilum í ferðaþjónustu sem eru með starfsemi innan marka fyrirhugaðs þjóðgarðs og frjálsra ferðaklúbba sem leggja gjarnan leið sína á miðhálendið. Sveitarfélögin töldu að verið væri að taka af þeim sjálfsákvörðunar og skipulagsvald, þrátt fyrir málamiðlanir sem drógu úr því. Ferðaþjónustufyrirtæki og frjálsir ferðaklúbbar sáu annmarka við kvóta í ferðaþjónustu inn á miðhálendið og ólýðræðislega stjórn þess með tilkomu þjóðgarðs. Í umsögn Feta, landssamtaka ferðaþjónustufyrirtækja á miðhálendinu má finna orð eins og „valdabrölt“ og „hrossakaup“, og að reynsla af núverandi Vatnajökulsþjóðgarði sé slæm. Ferðaklúbbar settu fram svipaðar athugasemdir.

Stærsti einstaki gallinn við risaþjóðgarð eins og miðhálendisþjóðgarðinn, er að í raun verður til nýtt skipulagsstig sem lendir mitt á milli landsskipulags og svæðisskipulags eða aðalskipulags sveitarfélaga. Þannig er í raun verið að búa til alveg nýtt stjórnsýslustig í skipulagskerfinu. Hann getur því veikt bæði landsskipulagsstigið og svæðisskipulags og aðalskipulagsstigið. Og þjóðgarðar kalla á mjög ríka stjórnun, eðli málsins vegna. Inn í þetta blandast svo margar opinberar áætlanir um náttúruvernd og lög um hana, rammaáætlun um vernd og orkunýtingu, friðlýsingar og margt annað.

Um tíma var í gildi svæðisskipulag miðhálendisins, en það var fellt úr gildi 2016 þegar landskipulags-stefna var samþykkt. Í þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015-2026, sem afgreidd var árið 2016 koma er miðhálendið skilgreint sem eitt fjögurra skilgreindra viðfangsefna landsskipulagsstefnunnar. Í henni fram mörg atriði sem taka á málefnum miðhálendisins, og eru að mestu arfleið svæðisskipulagsins. Þau taka til víðerna og náttúrugæða, ferðaþjónustu og setja sveitarfélögunum ákveðnar skyldur í aðalskipulagsgerð. Þegar horft er til landsskipulagsstefnunnar um málefni miðhálendisins virðast mörg rök fyrir miðhálendisþjóðgarði falla um sjálf sig, því hún tekur á velflestu því sem máli skiptir og sagt var að væri mikilvægt markmið með þjóðgarði.

Á meðan kallar þjóðgarður á mikla stýringu og eftirlit sem ekki gerist öðruvísi en með nýrri stofnun og mörgum störfum. Miðað við þá hóflegu ásókn sem er á miðhálendið í dag er þörfin fyrir slíkt ekki mjög mikil. Sjálfboðahópar björgunarsveitanna sinna nú þegar vel heppnuðu eftirliti yfir sumarið á miðhálendinu.

Nema að öðrum yfirlýstum tilgangi með miðhálendisþjóðgarði náist, sem er að markaðssetja það gagnvart erlendum ferðamönnum og stórauka ásókn þeirra inn á svæðið. Það kallar aftur á meiri innviði, meiri uppbyggingu vega, uppbyggingu stíga og þjónustuhúsnæðis, bensín- og hleðslustöðva, fleiri skilti og fleiri girðingar. Þannig er hættan á að við fáum sannarlega þjóðgarð, en glötum á sama tíma óbyggðum Íslands. Þannig þjóðgarð þurfum við ekki. En ef hægt er að gera tillögu að þjóðgarði sem hefur ekki þessu öfugu áhrif er full ástæða til að skoða málið. Í því verkefni þarf frelsi, einfaldleiki og náttúruvernd að stýra ferð, ekki stjórnlyndi, stofnanablæti og eftirlitshneigð.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.