Lífsins dans

Dans er talinn vera mikilvægur í biðlunarferli margra mismunandi dýrategunda, þar á meðal mannsins.Ef svo er, ætti þá ekki eitthvað í dansinum að gefa til kynna erfðafræðilegan vænleika þess sem dansar? Eru góðir dansarar þá vænlegri makar?

Dans er talinn vera mikilvægur í biðlunarferli margra mismunandi dýrategunda, þar á meðal mannsins. Darwin var fyrstur til að stinga upp á því að dans sé kynbundið biðlunarform. Ef svo er, ætti þá ekki eitthvað í dansinum að gefa til kynna að um erfðafræðilegan vænleika þess sem dansar?

Til er gildi sem þykir gefa nokkra vísbendingu um gæði dansins. Gildið kallast FA (e.flucutating asymmetry) og er fundið út með nákvæmum formfræðilegum mælingum á líkamanum, svo sem úlnliðum, ökklum, fingrum, tám, eyrum, hjám og fótum. Sannast hefur að í mörgum mismunandi tegundum hefur FA fylgni við stig þroskunarlegs stöðugleika. Hátt FA er þannig í beinu sambandi við t.d. aukið óheilbrigði og minnkaðar lífslíkur – þ.e. kynbundið og náttúrulegt val. Þetta þýðir semsagt að þeim mun minni samhverfu sem lífvera býr yfir, þeim mun hærra FA hefur hún. Rannsóknir hafa hinsvegar leitt í ljós að lágt FA er í beinum tengslum við góða hreyfieiginleika og það hvernig lífveran getur nýtt sér þá og hagnast af þeim.

Á þessu byggir kenningin um að dans geti sýnt fram á ofangreindan stöðugleika, og þar með fylgni við velgengni í lífinu (lifa af, koma erfðaefni sínu áfram). Reyndar hefur líka komið í ljós að FA virðist hafa fylgni við líkamslykt fólks, rödd og andlitsdrætti, sem má skilja á þann hátt að einstaklingar með lágt FA séu að líkindum laglegri.

Til að prófa kenninguna um tengsl dans og velgengni fengu rannsakendur til liðs við sig hóp af ungmennum frá Jamaica, en þar skipar dans ríkulegan sess í lífi bæði stúlkna og drengja. Hópurinn var allur mældur m.t.t. FA-gildisins, fyrst árið 1996 og aftur árið 2002. Ungmennin, 183 talsins voru síðan látin dansa eitt í einu, í eina mínútu, við sama lagið (sem var í hvort skipti sérstaklega vinsælt lag á Jaimaica). Nemar voru festir á þátttakendurna sem síðan voru teknir upp á myndband með sérstakri myndtækni sem notuð er við rannsóknir í læknis- og íþróttafræðum, þannig að útkoman sýndi í raun eingöngu hreyfingar líkamans, en ekki var hægt að greina útlínur, föt eða útlit þátttakenda. Enda hefði slíkt óneitanlega haft áhrif á mat áhorfenda og þannig ómerkt niðurstöðurnar.

Af þessum 183 upptökum voru síðan 40 valdar úr. 10 stúlkur og 10 strákar sem höfðu í báðum FA mælingum skorað ákveðið hátt, og 10 stúlkur og strákar sem höfðu skorað ákveðið lágt. Þátttakendur í tilrauninni gengdu síðan hlutverki áhorfenda og þurftu þeir að gefa einkunnir á skalanum

Góður dansari < = > Slæmur dansari.

Ýmislegt fróðlegt kom í ljós.

Í dýrategundum þar sem að faðirinn leggur minna (fæði,vinnu) til afkvæmisins en móðirin er reiknað með því að kvendýrin séu vandlátari í vali á karldýri, en karlar leggji meira upp úr biðlunarleiknum (t.d. dansi). Því var gert ráð fyrir því að líkamleg samhverfa drengjanna myndi hafa sterkari fylgni við danshæfileika þeirra, en stúlkurnar myndu hinsvegar gera betur upp á milli dansarana.

Sömuleiðis, ef gengið er út frá því að einstaklingar með hátt FA séu minna aðlaðandi má gera ráð fyrir því að slíkir einstaklingar aðlagi kröfur sínar á hitt kynið, og miði heldur á einstaklinga sem eru líklegri til að vilja þá sem maka. Þess vegna var athugað hvort að þeir áhorfendur með hærra FA (verri dansarar) hefðu takmarkaðan smekk fyrir betri dönsurum. Í ljós kom að skýr tengsl voru á milli þess að verri karlkyns dansarar gæfu betri kvenkynsdönsurum slaka einkunn. Hinsvegar bar ekki á slíku í mati hinna verri kvenkynsdansara – sem segir okkur að konur, jafnt góðir sem slæmir dansarar, aðlagi ekki sínar kröfur að sama skapi. Sem er í takt við dæmin úr dýraríkinu.

Fram komu sterk jákvæð tengsl milli líkamlegrar samhverfu og danshæfileika, og að þessi tengsl eru sterkari í körlum en konum. Samhverfir drengir þóttu þannig líka miklu betri dansarar en samhverfar stúlkur.

Stúlkur mátu betri karlkyns dansara jákvæðar en drengirnir mátu þá, en hinsvegar skoruðu samhverfu stúlkurnar jafn hátt hjá stúlkum og drengjum. Það er því ljóst að stúlkur leggja meira upp úr danshæfileikum en strákar – sem má setja í samhengi við biðlunardans margra dýrategunda.

Ekki er þó með vissu vitað hvað orsakar þessar forvitnilegu niðurstöður. Ef til vill er það ósamhverfan sjálf og möguleg meðfylgjandi einkenni eins og slæleg vöðvasamhæfing og heilsufar. Enda virðist sem að hvergi megi útaf bregða þegar lífsins dans er stiginn.

Gæti verið fylgni milli danshæfileika og æxlunarárangurs?

Það gæti verið. Að minnsta kosti þykja rannsóknaniðurstöður þessar benda til þess að dans á Jamaica sé ekki aðeins tengdur kynbundnu vali og heldur tjái hann einnig mikilvægar upplýsingar um dansarann.

Heimildir: Nature.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.