Gamalt vín á nýjum belgjum

Um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins ríkir ágæt þverpólitísk sátt. Þó eru ekki allir ánægðir og ákveðinn hópur reynir að grafa undan sáttmálanum með nýjum hugmyndum sem reynast þó, þegar betur er að gáð, gamalt vín á nýjum belgjum.

Hann virðist óralangur, tíminn sem liðið hefur frá því SARS-CoV-2 vírusinn skaut upp kollinum á matarmarkaði í Wuhan í Kína en er þó ekki nema rétt um eitt og hálft ár. Það er líka tíminn sem liðið hefur frá því Ríkið og sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu undir samgöngusáttmála um uppbyggingu á samgönguinnviðum, m.a. Borgarlínu, en einnig mörgu öðru, svo sem umferðarmannvirkjum, göngu- og hjólastígum. 120 milljarðar á 15 ára tímabili sem deilast niður á þessi verkefni í hlutföllunum 40/40/20, gróft talið. Samgöngusáttmálinn hefur notið þess að á bak við hann er nokkuð góður þverpólitískur stuðningur í öllum sveitarfélögum.

En það er hópur sem lítur á samgöngusáttmálann og Borgarlínu sem nokkurs konar veiru, því á sama tíma og bóluefnin fóru að koma fram á sjónarsviðið var gerð veruleg atlaga að þessu verkefni. Markmiðið virðist vera að grafa undan þverpólitískum stuðningi við sáttmálann og búa til aðstæður þannig að Ríki og sveitarfélög hverfi frá þessum áformum og rói á ný mið í samgöngumálum.

Slagorðið er „samgöngur fyrir alla“, og í hnotskurn eru skilaboðin þau að samgöngusáttmálinn sé of kostnaðarsamur og áherslan á almenningssamgöngur, göngu- og hjólastíga of fyrirferðarmikil í þessum plönum. Leggja beri meiri áherslu á uppbyggingu umferðarmannvirkja sem þjóni umferð einkabíla öðru fremur, enda sé það eini valkostur fyrir höfuðborgarbúa að ferðast um, sem vit er í. Hópurinn lætur sér ekki nægja að láta þar við sitja, heldur útlistar með nokkuð ítarlegum hætti hvað um ræðir. Á vef hópsins (samgongurfyriralla.com) má sjá upptalningu á tillögunum sem, þrátt fyrir slagorðið, inniheldur lítið annað upptalningu á mannvirkjum sem þjóna í grunninn einkabílaumferð en getur, skal viðurkennast, nýst gamla góða strætó líka. Alls má telja átján mislæg gatnamót, breikkun margra af helstu stofnbrautum borgarinnar og nýja götu um hinn friðlýsta Skerjafjörð svo það helsta sé upp talið. Verðmiðinn eru litlir 140 milljarðar króna, sem trompar samgöngusáttmálann um litla 20 milljarða. Er þá ótalinn kostnaður við tillögu hópsins um fleiri sérakreinar fyrir strætó, sem virðist vera eina framlag hópsins til uppbyggingar vistvænna samgangna.

Þessar hugmyndir eru þó alls ekki nýjar af nálinni. Þær eru í raun tillaga um að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var upp úr miðri síðustu öld. Bílaborgin sé staðreynd og það þýði ekkert að reyna að beygja út af þeim kúrs, eru skilaboðin. Ekkert annað en stórtæk uppbygging umferðarmannvirkja muni forða oss frá kostnaðarsömu kaosi umferðartafa, því fáir, ef engir munu kjósa almennings-samgöngur sama hve mikið þú fjárfestir í þeim. Því sé betra að reyna það ekki yfir höfuð.

Í allri gagnrýni má finna brodd af sannleika, og í skilaboðum hópsins má finna hann. Hið metnaðar-fulla markmið um að auka hlutdeild almenningssamgangna úr fjórum í tólf prósent á 20 árum er of bratt, og færir hópurinn góð rök fyrir því. Ýmislegt í plönum um uppbyggingu Borgarlínu, s.s. innkaup og rekstur vagna, er pínu loðið. Það réttlætir þó ekki meðalið, sem lagt er til. Að leggja þau kerfis-bundnu áform til hliðar sem felast í samgöngusáttmálanum. Það má vel sníða vankantana af plönum um Borgarlínu og breyttar ferðavenjur, án þess að umbylta sáttmálanum. Kannski þurfa að koma til fleiri (og sjálfsagðar) stuðningsaðgerðir til að markmiðin náist, en það er annar handleggur.

Það sem hópurinn leggur til, að reyna að byggja sig út úr umferðartöfum með sársaukafullum og dýrum gatnaframkvæmdum er ekki líklegt til árangurs. Raskið af því er síst minna en af sérrými Borgarlínu, miðað við plönin eins og þau eru fram sett. Kostnaður og umhverfisáhrif eru augljóslega veruleg og líkleg til að mæta mikilli mótstöðu, einkum þeirra sem þurfa að lifa nærri slíkum umferðarmannvirkjum. Verulegar tafir í uppbyggingu eru því mjög fyrirsjáanlegar, fyrir utan það að hópurinn ræðir ekki hvernig megi fjármagna þetta. Bíla-nirvana án umferðartafa, er því síst minni tálsýn en sú sem hópurinn vill meina að felist í troðfullum Borgarlínuvögnum. Helsta áhyggjuefni hópsins, umferðartafir, er ofmetið vandamál. Þær eru ekki, og eiga ekki að vera áhyggjuefni fyrr en þær eru farnar að smitast verulega út fyrir annatíma árdegis og síðdegis. Þá fyrst er ástæða til að bregðast við. Jafnvel þótt borgirnar séu litlar, eins og hér. þær eru, þegar í botninn er hvolft, merki um árangursríka borg, ekki öfugt. Í samgöngusáttmálanum er hugað að verstu stöðunum hvað þetta varðar, og er það fullnægjandi.

Það má vel vera að veruleiki morgundagsins muni ekki standa undir öllum þeim metnaði sem er að baki samgöngusáttmálanum. En við munum þá geta sagt við okkur að við höfum reynt okkar besta. Og að reyna, er eitthvað sem við skuldum komandi kynslóðum að gera.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.