400 milljónir Kínverja ekki til vegna stefnu kommúnistastjórnarinnar

Um helgina greindi Zhang Weiqing, ráðherra mannfjöldaþróunar og fjölskyldumála í kínversku kommúnistastjórninni, frá því að lög um mannfjöldahöft yrðu endurnýjuð í elleftu fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2006-10. Frá árinu 1979 hefur ríkisstjórnin staðið fyrir markvissum aðgerðum til þess að hefta fjölgun íbúa Kína.

Um helgina greindi Zhang Weiqing, ráðherra mannfjöldaþróunar og fjölskyldumála í kínversku kommúnistastjórninni, frá því að lög um mannfjöldahöft yrðu endurnýjuð í elleftu fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2006-10. Frá árinu 1979 hefur ríkisstjórnin staðið fyrir markvissum aðgerðum til þess að hefta fjölgun íbúa Kína. Upphaflega ástæða stefnunnar var sú að ríkisstjórnin taldi ekki mögulegt brauðfæða allan fjöldann. Fjölguninni hefur verið haldið í skefjum með samningum við foreldra um að þeir eignist aðeins eitt barn á lífsleiðinni. Ekki er þó öllum bannað að eignast fleiri en eitt barn. Á ákveðnum strjálbýlum svæðum eru undantekningar veittar sé fyrsta barn stúlka. Í stórborgum eins og Peking og Sjanghæ er viðhaft mjög strangt eftirlit með konum á barneignaraldri með það að augnmiði að koma í veg fyrir að þær eignist fleiri en eitt barn. Eignist foreldrar fleiri en eitt barn koma til fjársektir og þurfa þeir að standa allan kostnað af samfélagslegri þjónustu tengdri barninu s.s. skólagjöldum ofl.

Kína er fjölmennasta land í heimi og telja Kínverjar rétt rúmlega 1.3 milljarð, en samkvæmt rannsókn sem ráðuneyti mannfjöldaþróunar og fjölskyldumála lét gera er talið að Kínverjar væru 400 milljónum fleiri ef ekki hefði komið til „one child policy“. Tölulegar staðreyndir sýna að undanfarin fimm ár heftur fæðingartíðni dregist saman og farið úr 14.03 í 12.29 á hverja þúsund íbúa. Raunverulegur vöxtur hefur hins vegar farið úr 7.58 í 5.87 á hverja þúsund íbúa. Miðað við núverandi fæðingartíðni er áætlað að mannfjöldinn nái 1.37 milljarði fyrir 2010, 1.46 milljarði um 2020 og 1.5 milljarði 2033.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að slaka ætti á stefnunni í borgum þar sem velmegunin hefur aukist hvað mest síðasliðin ár, en kommúnistastjórnin tók það skýrt fram að staðbundin stjórnvöld hefðu ekki vald til þess að hafa áhrif á stefnuna. Í ritstjórnargrein í fréttablaði Kommúnistaflokksins kom fram að ekki stæði til að breyta stefnunni þrátt fyrir góðan árangur, ef eitthvað væri þá yrði hún gerð að fastri framtíðarstefnu.

„One child policy“ hefur haft slæmar afleiðingar í för með sér. Frá því að stefnan var tekin upp hefur fæðingartíðni stúlkna hrapað miðað við drengi. Eftirsóttara er að eignast drengi þar sem þeir teljast líklegri til þess að skila meiru til heimilisins. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að kynbundnar fóstureyðingar hafa aukist sem og útburður stúlkubarna. Vegna þessa hefur myndast mikið ójafnvægi á milli kynjanna, en talið er að það séu 100 stelpur á móti hverjum 120 drengjum í Kína. Áætlað er að árið 2020 verði um 40 milljónir piparsveina í Kína. Á tímabili runnu allar sektargreiðslur vegna brots á fjölskyldustefnunni til staðaryfirvalda, en það var til þess að spilltir embættismenn nýttu sér neyð fjölskyldnanna. Í sumum tilfellum voru konur þvingaðar í fóstureyðingar og aðrar teknar úr sambandi án þeirra vitundar. Í dag renna allar sektir til ríkisins en það er liður í að koma í veg fyrir spillingu.

Á meðan við Íslendingar fögnum 300 þúsundasta einstaklingnum harmar kínverska kommúnistastjórnin fjölgun íbúa sinna. Þetta er kannski ekki sambærilegt, en ljóst er að stefna kínverskra stjórnvalda er klárt mannréttindabrot sem hefur neikvæð áhrif á íbúa og samfélagið í heild.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.