Aðgangsharka á röngum sviðum

Aðgangsharka íslenskra fjölmiðla er að mestu bundin við að ganga nærri einstaklingum sem einhverra hluta vegna hafa lent í persónulegri ógæfu. Æskilegt væri að aðgangsharkan færðist yfir á svið þar sem almenningur ætti hugsanlega einhverra hagsmuna að gæta.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um aukna aðgangshörku íslenskra fjölmiðla á síðustu misserum. Nýlega voru rítstjórar DV dæmdir fyrir meiðyrði í héraðsdómi og nokkur meiðyrðamál, sem raunar tengjast sömu útgefendum, eru í farvatninu. Þetta þykir mörgum vera til marks um aukna aðgangshörku íslenskra fjölmiðla.

Víst er það svo að umfjöllun ákveðinna fjölmiðla fer á köflum langt út fyrir öll velsæmismörk og er á köflum hreinlega lögbrot gegn þeim sem í hlut eiga. Forsíða DV er að verða hálfgerður „Sá-sem-flöskustútur-lendir-á“-farsi. Ég hygg að þeir Íslendingar skipti orðið hundruðum sem hafa mátt þola það að viðkvæm atriði úr þeirra einkalífi eru útmáluð á forsíðu DV, oft á tíðum mál sem lítið erindi eiga við almenning.

Að einhverju leyti tengist hin mikla umfjöllun því að sá hópur fólks, sem einhverra hluta vegna telur ástæðu til þess að berast mikið á, fer stækkandi. Og víst er að í mörgum tilvikum þorir DV á meðan aðrir þegja, og einhverjum hluta þeirra tilvika er um að ræða mál sem eiga sumpart erindi við almenning.

Hin mikla aðgangsharka ákveðinna fjölmiðla að persónum fólks og einkalífi þeirra virðist hins vegar ekki ná til mála sem hugsanlega eiga meira erindi við almenning. Í sjónvarpsviðtali um helgina vakti Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður athygl á þessu og hefur hann töluvert til síns máls.

Ýmis mál sem sannarlega varða almannahagsmuni, svo sem mikilsháttar breytingar á lögum, ýmis konar embættisfærsla og starfsemi hins opinbera, mál sem lúta að viðskiptum á frjálsum markaði og fleira, virðast síður eiga upp á pallborðið hjá hinum aðgangshörðu fjölmiðlum. Þau mál eru skilin eftir fyrir hina hófsömu fjölmiðla.

Stærri mál eru eðli málsins samkvæmt dýrari í vinnslu fyrir fjölmiðlana. Til að geta fjallað af einhverri dýpt og viti um tiltekin mál þarf blaðamaður kannski að fara í nokkurra daga rannsóknarvinnu, jafnvel nokkurra vikna. En þeir fjölmiðlar sem starfandi eru á íslenska fjölmiðlamarkaðnum ráða fæstir við slíka blaðamennska. Hér eru starfræktir mjög margir fjölmiðlar á litlum markaði og því er framleiðslukrafan afar rík. Það leiðir hugsanlega til þess að umfjöllun verður yfirborðskenndari, að minnsta kosti hjá flestum fjölmiðlum.

Það er eiginlega lýsandi fyrir þetta að menn geta í raun talið upp eftir minni ákveðna greinaflokka sem birst hafa í blöðum á síðustu árum þar sem virkilega hefur verið farið ofan í málin og þau rannsökuð af hæfilegri aðgangshörku og fagmennsku. Það er ekki vegna þess að íslenskir blaðamenn séu síðri en aðrir, það er einfaldlega vegna þess að á þeim hvílir gífurleg framleiðslukrafa.

Aðgangsharka ákveðinna fjölmiðla í málum sem snerta einkalíf fólks verður því ekki skýrð með öðrum hætti en að þeim sé þetta nauðsynlegt til að skapa sér sérstöðu – án sérstöðu eiga þeir ekki möguleika á að lifa af á svo litlum markaði. Og eftirspurnin eftir fréttaflutningi þeirra virðist vera næg til að þeir geti haldið áfram starfsemi sinni, þó að umhugsunarvert sé hvernig rekstur DV getur gengið á þeim upplags- og sölutölum sem fyrir liggja.

Flestir geta verið sammála um að æskilegra væri fyrir íslenskt samfélag að aðgangsharka fjölmiðla færðist úr persónulífi fólks yfir á svið sem varða almenning með beinum eða óbeinum hætti. Við þurfum aðgangsharða fjölmiðla en við viljum ekki samfélag þar sem fjölmiðlar gera sér í sífellu mat úr persónulegri ógæfu einstaklinga. Hins vegar mun þessi þróun á endan ráðast af persónulegu vali hvers og eins sem nýtir sér þessa fjölmiðla. Markaðurinn mun ráða þróunin, samfélagið mun sjálft ráða hlutskipti sínu í þessu efnum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.