Þjóðarmorð ekki refsiverð að íslenskum rétti

Ísland hefur ekki gert þjóðarmorð sérstaklega refsiverð að íslenskum rétti líkt og því er skylt að gera samkvæmt þjóðarétti þó að Ísland hafi haft rúmlega hálfa öld til þess.

„Íslandsvinurinn“ Arkan

Eftir lok síðari heimsstyrjaldar hófst viðamikið starf í alþjóðakerfinu við að finna ráð og aðferðir til að koma í veg fyrir álíka hörmungar og áttu sér stað í styrjöldinni. Sáttmálinn um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð (Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide) frá 1948 er dæmi um þá viðleitni. Sáttmálinn öðlaðist gildi þann 12. janúar 1951. Ísland undirritaði samninginn 14 maí 1949 og fullgilti 29. ágúst sama ár.

Í 5. gr. samningsins segir á engilsaxnesku: The Contracting Parties undertake to enact, in accordance with their respective Constitutions, the necessary legislation to give effect to the provisions of the present Convention, and, in particular, to provide effective penalties for persons guilty of genocide or any of the other acts enumerated in article III.

Þannig er mál með vexti að Ísland hefur ekki gert hópmorð, sem í daglegu tali eru kölluð þjóðarmorð, sérstaklega refsiverð að íslenskum rétti líkt og skylt er að gera samkvæmt fyrrnefndum sáttmála, þó að Ísland hafi haft rúmlega hálfa öld til þess. Danir, sem íslendingar bera sig oft saman við í tengslum lög og reglur, settu sér slíka löggjöf árið 1955 (Lov nr. 132 af 29.04.1955 om straf for folkedrab).

Í þessu samhengi verður þó að benda á þá augljósu staðreynd að slíkt athæfi, þ.e. að taka þátt í þjóðarmorði, er refsivert að íslenskum rétti enda óheimilt að fremja manndráp. Það er hins vegar refsivert sem manndráp en ekki þjóðarmorð. Ofangreind staðreynd réttlætir engan veginn þá vöntun sem er á slíkri löggjöf hérlendis. Í fyrsta lagi er það skylda íslenska ríkisins að þjóðarétti að setja sér slíka löggjöf. Í öðru lagi er það siðferðileg skylda Íslands að vera framarlega í þeirri fylkingu ríkja er berst gegn hræðilegum voðaverkum.

Er hér með skorað á löggjafann að kippa þessum svarta bletti á íslenskri löggjöf í lag. Það ætti ekki að vera sérlega flókið.