Versnandi sambúð Japans og Kína

Samskipti Japans og Kína hafa sjaldan verið jafn slæm eins og á árinu sem nú er að líða. Ummæli utanríkisráðherra Japans, Taro Aso, í síðustu viku um að Kína sé orðin „umtalsverð ógn“ við Japan gerðu aðeins illt verra. Það er nauðsynlegt að þessar öflugu nágrannaþjóðir komi samskiptum sínum í „eðlilegt“ horf sem allra fyrst.

Samskipti Japans og Kína standa á tímamótum í lok þessa árs. Tvíhliða viðskipti og efnahagstengsl milli landanna halda áfram að aukast gríðarlega, á sama tíma og samskipti á sviði stjórn- og öryggismála fara hríðversnandi. Sem stendur þá geta ráðamenn í Peking og Tókýó hvorki átt í því sem myndi teljast eðlileg samskipti sín á milli né unnið neitt saman; gagnkvæmur skilningur og traust milli landanna er í algjöru lágmarki og hver krísan fylgir á eftir annarri.

Á nýafstaðinni Austur-Asíu ráðstefnu sem haldin var í fyrsta skipti í Kuala Lumpur, hittust leiðtogar sextán Asíuþjóða í þeim tilgangi að efla tengslin á mörgum sviðum. Forsætisráðherrar Japans og Kína, Junichiro Koizumi og Wen Jiabao, áttu aftur á móti í engum beinum viðræðum þann tíma sem ráðstefnan stóð yfir, ef undan er skilið eitt atvik; Koizumi vantaði penna til að skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu í lok ráðstefnunnar og Wen Jiabao sýndi þá kurteisi að lána honum pennann sinn.

Ummæli utanríkisráðherra Japans í síðustu viku, um að Kína sé orðin „umtalsverð ógn“ við Japan í ljósi mikillar útgjaldaaukningar Kína til hermála undanfarin ár, komu innan við sólarhring eftir að Kína hafði opinberlega lýst yfir stefnu sinni um „friðsamlega þróun“ í Asíu. Þetta er í fyrsta skipti sem japanskur utanríkisráðherra lætur slík ummæli falla um Kína og gæti hugsanlega markað upphafið að stefnubreytingu japanskra stjórnvalda í garð Kína.

Í kjölfarið hefur japanski utanríkisráðherrann verið harðlega gagnrýndur af kínverskum ráðamönnum í Peking, sem segja að Kína stefni eingöngu að friðsamlegri þróun sem allar þjóðir Asíu hagnist af, þar á meðal Japan, en Kína hefur á táknrænan hátt tekið við af Bandaríkjunum nýlega sem stærsta viðskiptaþjóð Japana. Og það er ekki bara á efnahagssviðinu sem tengsl þjóðanna hafa aukist. Á meðan japönskum stúdentum hefur fækkað þar í landi, hafa háskólar í Japan brugðið á það ráð að bjóða fleiri kínverskum stúdentum að nema við skólana. Í maí 2003 gerðist það svo í fyrsta skipti að fleiri kínverskir stúdentar lögðu stund á nám við japanska háskóla heldur en bandaríska.

En þrátt fyrir jákvæðu þróun í þessum efnum hafa samskipti kínverskra og japanskra stjórnvalda á þessu ári líklega ekki verið jafn slæm og síðan frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytissins, Qin Gang, sagði að það væri Japan sem bæri aðalábyrgðina á því slæma ástandi sem ríkti í samskiptum þjóðanna.

Það sem fer helst fyrir brjóstið á Kínverjum er að japönsk stjórnvöld komi ekki heiðarlega fram í tilteknum sögulegum málefnum, með því að samþykkja t.d. kennslubækur sem breiði yfir gömul grimmdarverk japanskra hermanna gegn kínverskum borgurum. Ítrekaðar heimsóknir forseta Japans, Koizumi, í Yasukuni-skrínið sem var reist til minningar um fallna japanska hermenn, nú síðast í október, hafa svo aukið enn meira á spennuna í samskiptum landanna.

Það er rétt hjá Kínverjum að heimsóknir Koizumi í Yasukuni-skrínið eru óréttlætanlegar og þurfa að hætta ef samband landanna á að batna. Japanskur almenningur virðist líka vera að skipta um skoðun um réttmæti heimsókna Koizumi í Yasukini-skrínið, ef marka má nýlegar skoðanakannanir í japönskum fjölmiðlum. Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var fyrr á þessu ári í Kyodo News, eru 58% Japana núna á móti þessari árlegu heimsókn Koizumi, sem er 17 prósentustigum meira en í desember fyrir ári síðan. Aðrar kannanir sýna sömu þróun. Sá meinti pólitíski ávinningur, sem Koizumi hafði áður fyrir því að heimsækja skrínið, virðist því ekki lengur vera fyrir hendi og ýtir aðeins undir öfgafulla þjóðernishyggju innan raða lítils hóps hægri manna í japönskum stjórnmálum.

En Kína getur hins vegar alls ekki kennt Japönum eingöngu um hvernig fyrir samskiptunum er komið. Öðru nær. Á meðan Kína hefur lagt heilmikið á sig til að efla stjórnmálatengslin við fjölmargar Asíuþjóðir á undanförnum árum, hefur ekkert slíkt átt sér stað varðandi stefnu þeirra gagnvart Japan. Eins og Peter Hays Gries, sérfræðingur um stjórnmál í Kína, hefur bent á í nýlegri bók sinni, China´s New Nationalism: Pride, Politics & Diplomacy, þá er mjög algengt að kínverskir diplómatar reyni að breiða yfir hatur Kínverja í garð Japans, með innihaldslausum frösum um vináttusamband Kína og Japans – sem er alls ekki til staðar: „Kínverjar litu á Japani sem „djöfulinn“ (k. guizi) í síðari heimsstyrjöldinni, og halda áfram að gera það enn þann dag í dag,“ segir Gries.

Pólitísk umræða í Kína er miklu meiri í dag heldur en nokkurn tíma áður og fleiri skoðanir fá að heyrast. Slæmu fréttirnar eru hins vegar að þetta á ekki við þegar fjallað er um Japan. Umfjöllun um Japan í Kína er oftar en ekki mjög einsleit, þ.e. neikvæð í garð Japan, og þeir fáu Kínverjar sem þora að gagnrýna þetta almenna viðhorf í opinberri umræðu verða stundum fyrir miklu aðkasti.

Kínversk þjóðernishyggja ræður því mjög miklu um það hvernig kínversk stjórnvöld kjósa að eiga samskipti við Japan. Þjóðernishyggjan – og áframhaldandi efnahagsuppgangur – er það lögmæti sem kínverski kommúnistaflokkurinn reiðir sig á og það skiptir flokkinn miklu máli að leiðtogar hans fari eftir vinsælum kröfum kínversku þjóðarinnar. Og þetta á ekki síður við þegar kemur að framkvæmd utanríkisstefnunnar, þar sem kínverskur almenningur vill harða stefnu í garð Japans.

Leiðtogar Kína vita hins vegar að slík stefna gengur ekki upp til lengri tíma. Ein mikilvægasta forsendan fyrir áframhaldandi efnahagsuppgangi í Asíu er vitaskuld friðsamleg sambúð á milli stórþjóða álfunnar, ekki síst Japans og Kína. Kínverskir ráðamenn eru því á milli steins og sleggju; þeir verða að viðhalda stöðugleika í samskiptum við Japan til að tryggja áframhaldandi hagvöxt, en um leið mega þeir ekki líta út fyrir að vera of veikburða í augum kínversks almennings þegar átt er við Japani.

Líkt og margir fræðimenn hafa bent á, þá er það óþekkt í sögunni að bæði Japan og Kína hafi verið stórveldi á sama tíma. Síðastliðin 150 ár hefur Japan yfirleitt verið öflugt ríki í álfunni en Kína veikt. Og þar á undan hafði Kína haft yfirburði í Asíu í margar aldir sem ekkert annað ríki átti möguleika á að keppa við. Peter Hays Gries bendir á í greininni „China´s New Thinking on Japan“ í The China Quarterly fyrr á þessu ári, að ákveðin hópur svartsýnismanna í Kína haldi því fram að Asía sé ekki nógu stór fyrir bæði Japan og Kína; „þú getur ekki haft tvö tígrisdýr í einum skógi,“ segja þeir. Það er því ljóst að mikil áskorun bíður leiðtoga Kína (og Japans) í framtíðinni við að koma í veg fyrir að slík viðhorf verði ríkjandi.

Hvað er eiginlega til ráða? Kínversk stjórnvöld verða að reyna gera allt sem þau geta til halda aftur að þeirri öfgafullu þjóðernishyggju sem beinist gegn Japan og er farin að spilla fyrir kínverskum hagsmunum. Ef það tekst ekki munu ummæli á borð við þau sem japanski utanríkisráðherrann lét falla, verða æ algengari í utanríkispólitík Japans. Afleiðingin gæti orðið sú að Japan færi að huga alvarlega að því að hervæðast í meira mæli, t.d. með því að koma sér upp kjarnavopnum; það myndi skapa gríðarlega mikla spennu á svæðinu sem erfitt yrði að hafa stjórn á. Og þrátt fyrir að slík þróun sé kannski fremur ólíkleg eru samskiptin það slæm um þessar mundir, að ef ekki tekst að sætta þann ágreining, tortryggni og misskilning sem ríkir milli landanna, er hætt við að samskiptin haldi áfram að versna með ófyrirséðum afleiðingum.