Skál fyrir nýju ári!

Í kvöld munu Íslendingar skála hressilega fyrir árinu 2006. Á þessum degi er því ekki úr vegi að velta aðeins upp sögu og gerðum þeirra drykkja sem landsmenn munu margir hverjir bera að vörum sínum í kvöld.

Eflaust eru flestir Íslendingar farnir að hugsa um hvað árið 2006 muni bera í skauti sér. En áður en nýjir tímar og spennandi verkefni taka við munu líklega margir fagna liðnu og komandi ári í faðmi fjölskyldu og vina. Jafnvel skála hressilega fyrir nýju ári. Hvort heldur sem skálað verður í Kampavíni, freyðivíni eða nýjasta útspilinu, barnakampavíni er ljóst að gleðin verður mikil á flestum bæjum. Það er því ekki úr vegi að velta aðeins upp sögu og gerðum þeirra drykkja sem landsmenn munu margir hverjir bera að vörum sínum í kvöld.

Kampavín

Kampavín er freyðivín sem á uppruna sinn að rekja til héraðsins Champagne í norður Frakklandi og er nafnið Kampavín þaðan komið. Enn þann dag í dag eru einungis freyðivín frá þessu ákveðna héraði kölluð Kampavín og oftast talin öðrum freyðivínum ofar í gæðum. Það var munkurinn Dom Perignon, oft kallaður faðir Kampavínsins, sem fyrstur bruggaði Kampavín með nútíma aðferð á 18. öld. Það má samt segja að Kampavín hafi fyrst verið bruggað með eintómri “óheppni” þar sem mistök við gerjun á ódýru rauðvíni frá Champagne áttu sér stað og úr því varð til afbrigði af Kampavíni. Vínbóndar frá Champagne leggja mikla natni í bruggun Kampavínsins og eru viðhafðar ótal reglur og hefðir í þeim efnum. Svo dæmi sé tekið er hverri einustu Kampavínsflösku snúið margoft með handafli um nokkrar gráður í sérstökum vínrekkum á meðan seinni hluti gerjunar stendur yfir í allt að þrjá mánuði.

Kampavín er bruggað úr þrúgunum Pinot Noir, Chardonnay og Pinot Meunier, stundum hverri í sínu lagi en oftast blandað saman. Bestu Kampavínin eru árgangskampavín og eru þau yfirleitt einungis brugguð úr Pinot Noir og Chardonnay frá bestu vínekrunum. Bragð og áferð vínsins getur verið talsvert mismunandi og vínin eru merkt eftir sætleikastigi þeirra, þurrast er “Extra Brut”, síðan: “Brut”, “Extra dry”, “Sec”, “Demi” og “Doux” sem er sætast.

Ljóst er að erfitt er að lýsa bragðeiginleikum Kampavíns í stuttu máli, en flest góð Kampavín eiga það þó sameiginlegt að hafa sýrustig í jafnvægi, vera frískandi og nokkuð flókin, þ.e. bera vott af mismunandi bragðeiginleikum. Ef fólk vill gæða sér á Kampavíni með mat, mælir höfundur eindregið með Kavíar, reyktum laxi eða Sushi!

Freyðivín

Freyðivín er í raun samheiti yfir öll freyðandi vín og eru þau jafn mismunandi og þau eru mörg. Allt frá sætum áfengum gosdrykkjum yfir í vín sem framleidd eru með hinni virtu “Kampavínsaðferð” og standa mörgum Kampavínum ekkert að baki. Oft eru freyðivín merkt sérstaklega ef þau eru framleidd með kampavínsaðferðinni og er það iðulega talinn ákveðinn gæðastimpill. Ef lesendur eiga enn eftir að kaupa sér freyðivín fyrir kvöldið má til dæmis leita að merkingunni Cava á spænskum freyðivínum og “Méthode Champenoise” á þeim bandarísku og þá ættu gæði vínsins að vera nokkuð góð. Vín utan Champagne sem eru framleidd með þessari aðferð eru venjulega einnig að mestu brugguð úr þrúgunum Pinot Noir og Chardonnay.

Í stað freyði- og Kampavína, sem framleidd eru með hinni hefðbundnu aðferð kjósa margir enn léttari og sætari vín. Þar má helst geta vínanna Prosecco og Asti sem bæði eru frá norðanverðri Ítalíu. Prosecco ber nafn sitt af þrúgunni sem það er bruggað úr en Asti er bruggað úr einni elstu þrúgu í heimi, Moscato. Þessi vín eru mjög létt, fersk og nokkuð sæt. Þau hafa einnig lægri áfengisprósentu heldur en önnur freyðivín og eru frekar ódýr. Þau eru engu að síður ávaxtarík, svalandi og bera oft keim af sítrus sem gerir þau að tilvöldum kvöldrykk á sumrin. Höfundur mælir með léttu snarli svo sem ferskum ávöxtum, bragðlitlum osti og Panna cotta með hinum ítölsku freyðivínum.

Barnakampavín

Barnakampavín er nýjasta útspil gosdrykkjarframleiðenda, en um er að ræða óáfenga ávaxtagosdrykki í myndskreyttum freyðivínsflöskum. Höfundur verður að viðurkenna að þarna er á ferðinni snilldar markaðsetning á gosdrykkjum, enda seljast flöskurnar nú gríðarvel í búðum. Að sjálfsögðu verða jú börnin að fá að skjóta sínum freyðivínstappa eins og við fullorðna fólkið. Barnakampavín er mjög sætt og mikið freyðandi og kemur “vínið” í verlsanir í hinum ýmsu lit og bragðtegundum. Höfundur mælir með Machintosh konfekti og stjörnuljósum með barnakampavíninu.

Gleðilegt nýtt ár góðir lesendur og gangið varlega inn um dyr Kampavínsgleðinnar í kvöld!

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)