Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska?

Til að Kína fari fram úr Bandaríkjunum í efnahagslegu tilliti fyrir árið 2028 þyrfti kínverska hagkerfið að stækka um 10% að meðaltali á hverju ári, meðan hagvöxtur í Bandaríkjunum yrði að meðaltali 2% yfir sama tímabil. Er slík þróun sennileg?

Meirihluti Bandaríkjamanna telur að kínverska hagkerfið verði stærra heldur en það bandaríska innan 20 ára, að því er fram kom í skoðanakönnun Gallup fyrr á þessu ári. Í sömu könnun kom jafnframt fram að 40% Bandaríkjamanna telji að Kína sé nú þegar orðið stærsta hagkerfi heimsins, borið saman við 33% aðspurða sem halda að Bandaríkin séu hið stærsta. Hið rétta er að bandaríska hagkerfið er ríflega fjórfalt stærra heldur en hið kínverska; verg landsframleiðsla í Bandaríkjunum árið 2007 var um 13,8 billjónir Bandaríkjadala, en aðeins 3,25 billjónir dala í Kína.*

Hvað skýrir þessar undarlegu skoðanir Bandaríkjamanna? Tvennt kemur helst til greina: Annars vegar yfirdrifin fjölmiðlaumfjöllun um „kínverska efnahagsundrið“ og hins vegar tortryggni Bandaríkamanna í garð Kína. Flestir kínverskir sérfræðingar hafa miklu meiri efasemdir um að kínverska hagkerfið muni ná hinu bandaríska á aðeins 20 árum. Og þeir hafa án efa rétt fyrir sér.

Eins og hagfræðingurinn Michael Pettis, prófessor við Peking-háskóla og sérfræðingur um kínverskan fjármálamarkað, hefur bent á höfðu Bandaríkjamenn ítrekað rangt fyrir sér í þessum efnum á 20. öldinni. Á 6. áratugnum var það mat manna að sovéska hagkerfið – vegna betri efnahagsstjórnunar og tækniyfirburða Sovétmanna – myndi fara fram úr hinu bandaríska í lok 20. aldarinnar. Slíkt gekk vitaskuld ekki eftir og því var næst farið að horfa til Þýskalands á 7. og 8. áratugnum sökum yfirburða þarlendra útflutningsfyrirtækja á alþjóðamörkuðum. Á 9. áratugnum var komið að Japan og töldu margir að það væri „augljóst“ að innan tíðar myndi japanska hagkerfið verða stærra en hið bandaríska. Sumir gengu jafnvel svo langt – þrátt fyrir náið öryggisbandalag ríkjanna – að skrifa lærðar bækur um „hið komandi stríð á milli Japans og Bandaríkjanna.“ Með öðrum orðum: Efnahagslegur uppgangur Japans myndi óumflýjanlega skarast á við hagsmuni Bandaríkjanna í Asíu sem að lokum yrði uppspretta hernaðarátaka. Ekki þarf að leita lengi til að finna sambærileg skrif í tengslum við samskipti Kína og Bandaríkjanna um þessar mundir.

Til að Kína fari fram úr Bandaríkjunum í efnahagslegu tilliti fyrir árið 2028 þyrfti kínverska hagkerfið að stækka um 10% að meðaltali á hverju ári, meðan hagvöxtur í Bandaríkjunum yrði að meðaltali 2% yfir sama tímabil. Er slík þróun sennileg? Alveg örugglega ekki. Í fyrsta lagi er mun líklegra að bandaríska hagkerfið stækki um 2,5-3% að meðaltali á hverju ári, líkt og hefur verið raunin frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Og í öðru lagi er sú hugmynd að kínverska hagkerfið muni halda áfram að vaxa um 10% á ári næstu 20 árin vægast sagt óraunhæf. Það er ríkjandi skoðun meðal hagfræðinga að það sé auðveldara fyrir vanþróuð ríki að ná hröðum vexti yfir ákveðið tímabil, en eftir því sem ríkin verði þróðaðri og tæknivæddari muni draga úr þessum mikla vexti. Þetta mun líkast til einnig eiga við um Kína.

Ef við gefum okkur raunsærri tölur í þessu samhengi – t.d. að kínverska hagkerfið muni vaxa um annað hvort 5% eða 7% að meðaltali á ári – blasir allt önnur mynd við.

1) Ef Bandaríkin stækka um 2% að meðaltali á ári, og Kína um annað hvort 5% eða 7%, mun kínverska hagkerfið í fyrra tilfellinu verða um tveir þriðju hlutar af hinu bandaríska árið 2050, en í hinu síðara yrði það helmingi stærra en Bandaríkin.

2) Gefum okkur að hagvöxtur myndi mælast 2,5% í Bandaríkjunum að meðaltali á hverju ári. Miðað við 5% vöxt yrði kínverska hagkerfið aðeins meira en helmingurinn af hinu bandaríska árið 2050, en miðað við bjartsýnni hagvaxtarspá yrði það 40% stærra eftir ríflega 40 ár.

3) Ef bandaríska hagkerfið stækkaði um 3% að meðaltali á ári – sem er talsverð bjartsýni – myndi kínverska hagkerfið í fyrra tilfellinu (5% vöxtur) verða litlu minna en helmingurinn af hinu bandaríska árið 2050. Miðað við 7% hagvöxt myndi Kína hins vegar vera um 10% stærra en Bandaríkin í efnahagslegu tilliti árið 2050.

Þegar jafnvel er tekið mark á bjartsýnustu spá um Kína – og að sama skapi svartsýnustu um Bandaríkin – er ljóst að kínverska hagkerfið verður um helmingi minna en hið bandaríska eftir 20 ár.

*Hér er miðað við verg landsframleiðslu á markaðsgengi. Margir hagfræðingar vilja notast við mælikvarða sem tekur tillit til mismunandi kaupmáttar (PPP) í Kína og Bandaríkjunum þar sem slíkt endurspegli betur raunveruleg lífsgæði almennings. Hins vegar er mun skynsamlegra að miða við markaðsgengi þegar verið að horfa til valda og áhrifa – pólitískra, efnahags- og hernaðarlegra – í alþjóðakerfinu. Þú getur ekki keypt flugmóðurskip, fjármagnað friðargæslusveitir á vegum Sameinuðu þjóðanna eða veitt efnahags- og hernaðaraðstoð til bandamanna með Bandaríkjadölum sem eru mældir út frá kaupmáttarjöfnuði.