Ferskir vindar

Nú á dögunum völdu breskir íhaldsmenn sér nýjan foringja. David Cameron sigraði keppinaut sinn David Davis með talsverðum yfirburðum í síðustu umferð í formannskosningu á meðal flokksmanna. En hver er maðurinn?

Nú á dögunum völdu breskir íhaldsmenn sér nýjan foringja. David Cameron sigraði keppinaut sinn David Davis með talsverðum yfirburðum í síðustu umferð í formannskosningu á meðal flokksmanna. En hver er maðurinn?

David Cameron (1966) er fæddur og uppalinn í Oxfordshire á Englandi. Hann og kona hans, Samantha Sheffield, eru bæði af aðalsættum og er Cameron sjálfur skyldur bresku konungsfjöldkyldunni. Saman eiga þau tvö börn og er það þriðja á leiðinni. Hann gekk í Eton og Oxford þaðan sem hann útskrifaðist með fyrstu einkunn í heimspeki, stjórnmála- og hagfræði árið 1988. Hóf hann þá störf fyrir Íhaldsflokkinn og starfaði meðal annars sem ráðgjafi Michael Howard, sem seinna varð formaður flokksins (2003-2005). Eftir að Verkamannaflokkurinn komst til valda árið 1994 hóf Cameron störf fyrir fjölmiðlafyrirtækið Carlton Televsion Ltd. sem rekur eina af ITV stöðvunum. Þar starfaði hann til ársins 2001 þegar hann var kjörinn á þing í fyrsta sinn.

Cameron bauð sig fyrst fram til þings árið 1997 í Stafford en náði ekki kjöri. Árið 2001 bauð hann sig fram í Witney í Oxfordshire. Þar tók hann við af Shaun Woodward sem kjörinn hafði verið þingmaður Íhaldsflokksins árið 1997 en gengið til liðs við Verkamannaflokkinn á miðju kjörtímabili. Sigur Camerons var nokkuð öruggur og hann var enn stærri árið 2005 þegar hann hlaut um helming allra atkvæða í kjördæminu. Frami hans innan flokksins hefur verið hraður eftir að hann náði kjöri á þing og hefur honum verið treyst fyrir mörgum trúnaðarstörfum, meðal annars tók hann þátt í að móta stefnuskrá flokksins fyrir síðustu kosningar.

Íhaldsflokkurinn hefur verið í mikilli tilvistarkreppu frá því að Verkamannaflokkurinn komst til valda undir forystu Tony Blairs árið 1997, en Cameron er fjórði formaður flokksins frá því að John Major sagði af sér árið 1997. Flokkurinn hefur virkað sem þunglamalegt gamalt skrímsli sem virðist ekki eiga sér viðreisnar von og er núverandi seta í stjórnarandstöðu orðin sú lengsta í sögu flokksins. Eitt helsta vandamálið undanfarinn ár hefur verið hækkandi meðalaldur flokksmanna, en ungt fólk hefur fundið lítinn samhljóm með stefnumálum flokksins. Tangarsókn Blairs inn á hægrivænginn með hini svokölluðu “þriðju leið” hefur líka reynst íhaldsmönnum erfið en ungt hægrisinnað fólk hefur hefur ekki séð neitt að því að kjósa hinn hægrisinnaða Blair, þó að hann fari fyrir Verkamannaflokknum.

Hinum nýja formanni hefur verið lýst sem hófsömum og frjálslyndum íhaldsmanni og hefur hann boðað nýja ásýnd á Íhaldsflokknum. Hans helstu hjartansmál eru óhefðbundin innan flokksins en hann hefur einblínt á umhverfismál, jafnvægi milli vinnu og einkalífs og þróun alþjóðamála. Hann hefur líka barist fyrir réttindum samkynnhneigðra og hefur viljað nýjar leiðir í stríði við eiturlyfjavandann. Hann boðar einnig nýjar leiðir í stjórnarandstöðunni þar sem hann vill vinna með ríkisstjórninni í lykil málum, eins og enduruppbyggingu menntakerfisins. Í kosningunum um formannsstólinn var hann spurður spurningar sem nánast allir stjórnmálamenn eru spurðir á Bretlandi; hvort hann hefði neytt eiturlyfja. Mörgum þykir erfitt að svara þessari spurningu og til að mynda svara ráðherrar í ríkisstjórn Blairs ekki þessari spurningu. En Cameron sagði einfaldlega; “I had a normal university experience.”

Margir sjá margt líkt með David Cameron og Tony Blair. Líkt og Blair þá tekur Cameron við sínum flokki eftir mikið niðurlægingar tímabil og tap í þremur þingkosningum í röð. Eins þykir það líkt með þeim að þeir koma báðir inn í stjórnmálaheiminn með nýjar áherslur og nýjan stíl. En þó að Tony Blair sé orðinn grár og gugginn og standi nú andspænis hinum leiftrandi nýja leiðtoga íhaldsmanna skal engin vanmeta hann og ráðgjafa hans. Oft hefur þeim tekist að snúa slæmu ástandi í vinningsstöður. En hann hefur svo sem ekki áður staðið andspænis spegilmynd þess sem hann eitt sinn var – ferskleikinn í bresku stjórnmálalífi.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.