Kynslóðafleygurinn

“I think in this culture, we are entirely youth-obsessed, and so we view aging as a catastrophe — that it only brings negatives.” Gæti hér verið átt við íslenska menningu? Ég segi já.

Í tilefni af yfirstandandi ráðstefnu Hvíta hússins um málefni aldraðra lét Dr. Andrew Weil, framámaður í óhefðbundnum lækningum, eftirfarandi orð falla í viðtali á einni fréttaveitunni ytra : “I think in this culture, we are entirely youth-obsessed, and so we view aging as a catastrophe — that it only brings negatives.” Gæti hann eins hafa átt við íslenska menningu?

Ég segi já.

Reyndar eru þessu svona farið í mörgum samfélögum heimsins og líklega sífellt fleirum. Aldur er skelfilegur og aldraðir afskiptir. Ætli aldur sé smitandi?

Weil lýsir í samanburði menningunni á japönsku eyjunni Okinawa. Á þeim stað, þar sem menningin er á alla kanta mjög frábrugðin þeirri vestrænu var það viðhorf sem fólk hefur gagnvart aldri og öldruðum þar það sem kom honum helst á óvart. Þar eru aldraðir virtir og þeim hampað sérstaklega, og mikil áhersla lögð á að þeir séu samfélagslega virkir – svo þeir fái tækifæri til að hafa samskipti við fólk á öllum aldri sem á móti fær tækifæri til þess að njóta samvista við þau eldri og bergja á visku þeirra.

Svona er þetta ekki hérna – lengur. Áður fyrr hafði eldra fólkið hér miklu mun virðingarmeiri stöðu en er í dag. Reynsla þeirra var mikils metin og frásagnir þeirra í hávegum hafðar. Þá bjó það t.d. yfirleitt í heimahúsum þar til yfir lauk. Viljinn til að halda í þá trú að það hafi verið ekki verið af einskærri nauðsyn verður sterkur þegar borin eru saman viðhorf nútímans á þessum tveimur eyjum, Íslandi og Okinawa.

Kannski þótti eldra fólk áður fyrr merkilegra vegna þess að það að komast til manns og yfir á gamalsár var svo langt frá því að vera sjálfsagt. Þá var sú viska og sá lærdómur sem af lífi þeirra mátti draga e.t.v. nokkuð sem ráðið gat úrslitum í lífshlaupinu. Líklega finnst okkur það ekki lengur – kannski er það raunin.

Flestir reikna með því að verða gamlir. Framfarir í vísindum og almenn velmegun gefa þeim hugmyndum byr undir báða vængi. Það þykir sjálfsagt. Sömuleiðis hefur þjóðfélagið breyst svo óhugnanlega mikið á stuttum tíma að blákalt mat segir okkur að afi og amma geti ekki mögulega haft eitthvað innlegg í umræðuna um t.d. netvæðinguna, hlutabréfamarkaðinn, skynsamlegt námsval og þar fram eftir götunum. Í gamla daga var hversdagsleiki þeirra gömlu sá sami og þeirra ungu. Nútíminn virðist því hafa rekið fleyg með öðrum hætti en áður á milli kynslóða.

Ólíkir heimar – og svo lítill tími! Er verjandi að eyða honum í samvistir og spjall með fólki sem við teljum ólíklegt að geti veitt nauðsynlegt og nútímalegt leiðarljós í lífinu?!!

Ég segi já.

Því þetta er ekki rétt. Eldri kynslóðir eiga sjálfsagða virðingu skilið fyrir að hafa með ævistarfi sínu og erfiði búið okkur þann grunn sem við byggjum réttmæta trú okkar á því að við höfum öll tækifæri til að hámarka okkur á allan hátt. Og verða gömul. Gleymum því ekki að bak við hverja hrukku er reynsla og sama hvað umhverfið kann að breytast munu sögur af mannlegum raunum, breyskleika, sigrum og góðum gildum aldrei gengisfalla.

Gamla fólkið okkar eru ekki bara sögumenn. Þetta er fólk með fullgilt innlegg í hvaða umræðu sem er – boðskap sem skal hlusta eftir.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.