Góðærisvandamál?

Í gær birtist ein af skoðanakönnunum Capacent sem staðfestir þá færslu á fylgi sem verið hefur í gangi síðustu misseri. Vinstri grænir styrkja stöðu sína og virðast vera að festast við 27% fylgið á meðan Samfylkingin er enn með innan við 20% fylgi. En hvernig stendur á þessu góða gengi flokks sem er eins sósíalískur eins Vinstri grænir í raun?

Í gær birtist ein af skoðanakönnunum Capacent sem staðfestir þá færslu á fylgi sem verið hefur í gangi síðustu misseri. Vinstri grænir styrkja stöðu sína og virðast vera að festast við 27% fylgið á meðan Samfylkingin er enn með innan við 20% fylgi. Þriðji stjórnarandstöðu flokkurinn, Frjálslyndir, mælist með um 7% þannig að ljóst er að Kaffibandalagið getur myndað hreina vinstristjórn.

En hvernig stendur á þessu góða gengi flokks sem er eins sósíalískur eins Vinstri grænir í raun er. Hér á Íslandi eru þau vandamál sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir allt annars eðlis en t.d. innan landa Evrópusambandsins. Þar glíma menn við viðvarandi halla ríkissjóðs og þar hefur atvinnuleysi verið mikið og stöðugt undanfarna áratugi.

Það hefur verið eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja gott atvinnuástand og betri lífskjör. Óhætt er að segja að það hafi tekist vel, því kaupmáttur heimilanna hefur aukist um u.þ.b. 60% á rúmum áratug og atvinnuleysi mælist vart. Á síðustu 10-15 árum hafa ríkisviðskipti verið minnkuð og frelsi í viðskiptum aukið mikið, t.d. með inngöngu í EES, lækkun skatta og einkavæðingu bankanna, sem skapað hefur ákjósanlegt svigrúm fyrir stórhuga fólk úr viðskiptalífinu.
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Það er nánast sama hvaða alþjóðlegi samanburður er birtur, alls staðar er Ísland í fremstu röð. Íslenskt atvinnulíf hefur gengið vel á undanförnum árum. Afkoma fyrirtækja hefur batnað og lífskjör almennings eru nú með þeim bestu í heimi. Fyrirtækin hafa í ríkum mæli fært sér í nyt þær breyttu aðstæður sem stjórnvöld hafa skapað. Nýjar atvinnugreinar hafa náð góðri fótfestu og fjöldi fyrirtækja hefur reynt fyrir sér á erlendri grundu, sum hver með frábærum árangri.

Nýlega var birt samanburðarrannsókn frá evrópskum samtökum fjárfesta um að af 21 Evrópulandi væri hér á landi hagstæðasta fjárfestingarumhverfið næst á eftir Bretlandi. Íslensk stjórnvöld báru gæfu til þess að taka hér upp einfaldan en afar skilvirkan fjármagnstekjuskatt sem nú skilar ríkissjóði verulegum tekjum. Vinstri flokkanir hafa boðað það að hækka eigi þennan skattt sem yrði algert glapræði þar sem hægðarleikur er fyrir fyrirtæki að flytja sig yfir í aðra skattalögsögu. Sumir virðast ekki getað skilið það að 18% af litlu er miklu minna en 10% af miklu.

Kjósendur hafa það almennt gott um þessar mundir og geta því í raun leyft sér þann munað að kjósa ekki með buddunni. Ástandið er í raun það gott að stór hluti kjósenda er sammála þeim stjórmálamönnum sem segjast nú vera tilbúnir að stoppa allar framkvæmdir án umhugsunar nú þegar. Það er því áleitin spurning hvort kjósendur séu tilbúnir til þess að leiða til valda á Íslandi sósíalista sem margir hverjir afneita grundvallar lögmálum hagfræðinnar, hafa ofurtrú á opinberum rekstri, virðast fyrirlíta viðskipti – að ekki sé nú talað um hagnað.

Er þetta bara góðærisvandamál?. Á því kjörtímabili sem nú er að líða hafa t.a.m. Vinstri grænir mælt með að nýta jarðhitasvæði í nágrenni við Húsavík sem nýta má við orkufrekan iðnað og ekki eru meira en tvö ár síðan að virkjunarkostir í Þjórsá þóttu góðir af þeim sem hæst tala um umhverfisvernd. Munu þessir stjórnmálamenn ekki snúa á til baka á sömu braut þegar það harðnar á dalnum? Og til hvers var þá gengið?

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.