Þak yfir höfuðið

Að hafa öruggt húsaskjól er einn grunnurinn sem við byggjum líf okkar á. Hvort sem að við erum gömul, miðaldra, eða ungt fólk að stofna okkar fyrsta heimili, þá viljum við geta fest rætur okkar í traustu undirlagi.

Að hafa öruggt húsaskjól er einn grunnurinn sem við byggjum líf okkar á. Hvort sem að við erum gömul, miðaldra, eða ungt fólk að stofna okkar fyrsta heimili, þá viljum við geta fest rætur okkar í traustu undirlagi.

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir húsnæði aukist mikið og er margt sem veldur því. Aftur á móti er ekki hægt að segja að framboð þess hafi vaxið samhliða þessari auknu eftirspurn, heldur hefur það minnkað og mun að öllum líkindum halda áfram að minnka. Hvað veldur?

Lögmálið um framboð og eftirspurn virðist svo sannarlega eiga við um fasteignamarkaðinn á Íslandi. Aukin eftirspurn og minna fram­boð á eign­um hef­ur orðið til þess að verð hef­ur hækkað und­an­farna mánuði ásamt því að meðal­sölu­tími eigna hef­ur dreg­ist sam­an. Þó svo að markaður hafi alltaf, og muni alltaf ráða þessari verðlagningu, þá er ýmislegt sem skipulagsyfirvöld geta gert til þess að hafa áhrif á verð íbúðahúsnæðis.

Með lóðaskorti er hægt að halda upp lóðaverði sem mun alltaf skila sér í hærra húsnæðisverði þess sem kaupir. Þétting byggðar er góðra gjalda verð, enda gaman að sjá borgir og bæi taka út þroska. En ókostir við þessa stefnu er hár fjármagnskostnaður byggingaraðila sem skýrist af aukinni  gjaldtöku og tímafrekum byggingaframkvæmdum sem líka hækka kaupverð eigna. Nær væri að skipulagsyfirvöld gættu jafnvægis þannig ný hverfi yrðu skipulögð samhliða þéttingu byggðar. Það er nefnilega þannig að það eru ekki bara nýju íbúðirnar sem hækka. Hátt verð á þeim yfirfærist á eldri íbúðir vegna mikillar eftirspurnar og of litlu framboði. Og þetta framboð er háð skipulagsyfirvöldum. 

Í nýlegri greiningu Samtaka Iðnaðarins kemur fram að skýr samdráttur sé í byggingum nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Samdrátturinn á einna helst við um íbúðir á fyrstu byggingarstigum, sem komnar eru að fokheldu stigi, en þeim hefur fækkað um 41% milli ára að því er fram kemur í talningu Samtaka iðnaðarins. Samkvæmt því sem þar kemur fram þarf að leita aftur til eftirhrunsáranna 2010-2011 til að finna viðlíka samdrátt í byggingu íbúðarhúsnæðis á umræddu svæði.

Flestir fagna því að vaxtastig í landinu er í sögulegu lámarki. Lágt vaxtastig þýðir það að fólk getur aukið skuldsetningu sína án þess að finna mikið fyrir því í heimilisbókhaldinu. Hvað gerist þegar og ef vaxtastig stígur aftur skal ósagt látið. Lágt vaxtarstig hefur líka aðra hlið. Sparifjáreigendur hafa í auknu mæli flúið neikvæða ávöxtun á sparnaðarreikningum og sækjast nú frekar eftir því að festa sparnað sinn í steinsteypu. Allt veldur þetta hækkun á verði , sérstaklega þegar skortur er á framboði.

Hið opinbera hefur beint spjótum sínum að þeim sem erfitt eiga með að kaupa sér húsnæði og gengur þannig fram með þeim göfuga tilgangi að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að eignast húsnæði. Enn og aftur er hér ýtt enn frekar undir eftirspurnina frekar en að ráðast að rót vandans sem er framboðshliðinni.

Skipulagsyfirvöld þurfa að vinna á móti þessu ójafnvægi sem nú virðist vera að endurtaka sig. Það blasir við að besta leiðin til þess er að auka framboð á markaði. Það er til dæmis hægt að gera með því að hafa alla stjórnsýslu skilvirka og auka framboð á lóðum með skipulagningu á nýjum hverfum.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.