Gleymum ekki enskunni

Danir hafa fyrir löngu áttað sig á mikilvægi enskunnar og þeim mannauði sem felst í góðri enskukunnáttu þjóðar. Í háskólum hér í Kaupmannahöfn er mjög mikið framboð af námi á ensku enda ólíklegt að ásókn útlendinga í námið yrði mikil annars. En það kemur reyndar í ljós að ákveðin hópur Dana á erfitt með að fóta sig í þessu alþjóðlega umhverfi.

Danir hafa löngum áttað sig á mikilvægi enskunnar og þeim mannauði sem felst í góðri enskukunnáttu þjóðar. Í háskólum hér í Kaupmannahöfn er mjög mikið framboð af námi á ensku enda ólíklegt að ásókn útlendinga í námið yrði mikil annars. En það kemur reyndar í ljós að ákveðin hópur Dana á erfitt með að fóta sig í þessu alþjóðlega umhverfi.

Undanfarin tvö ár hef ég verið við nám í Danmörku. Einn af þeim kúrsum sem ég tek nú í Kaupmannahafnarháskóla fjallar um kennslufræði raunvísinda og er kenndur á ensku, vegna þess að tveir skiptinemar, sem kunna ekki dönsku, eru meðal þátttakenda. Þetta hefur reyndar þýtt það að nokkrir aðrir nemendur hafa mætt illa, enda telja þeir sig lítið geta tekið þátt í umræðum í hálfhúmanísku fagi á öðru máli en dönsku.

Flestir í þeim hóp, reyndar ekki allir, eru svokallaðir „Nýdanir“, þ.e.a.s. Danir af erlendum, oft miðausturlenskum, uppruna. Allir þeir eru flugmæltir á dönsku fínt skrifandi á því máli, en eiga í miklum erfiðleikum með að tjá sig á ensku. Einhvern veginn er hún ekki jafnmikill hluti af þeirra menningu og annarra Dana.

Það kemur því í ljós að eftir margra ára herferð fyrir bættri dönskukunnáttu innflytjenda og afkomenda þeirra, er eins og það hafi gleymst að góð enskukunnátta er ekki síður mikilvæg til að geta tekið virkan þátt í dönsku samfélagi. Fólk sem hefur fæðst á Nörrebro, búið þar alla ævi og hefur dönsku að móðurmáli á erfitt með að stunda anám í dönskum háskólum. Vegna slakrar enskukunnáttu.

Samkvæmt nýjum tillögum svokallaðrar Velferðarnefndar, sem skoða átti ýmsa þætti velferðarkerfisins danska, er gert ráð fyrir að í framtíðinni fái útlendingar í Danmörku ótímabundið dvalarleyfi ef þeir hafa verið í vinnu í tvö ár, staðist próf í dönsku og ensku. Sömuleiðis hyggjast Danir auka enn vægi enskunnar í grunnskólum landsins og þá sérstaklega bæta enska ritun danskra nemenda.

Í viðtali við Jyllands-Posten í gær segir Bertel Haarder, menntamálaráðherra, einfaldlega: „Enskan er okkar annað móðurmál og ef við viljum hafa gott menntakerfi er mikilvægt að leggja rækt við hana.“

Það er kannski enn þá svolítið í að íslenskur menntamálaráðherra tali svona hreint út, en ljóst er að flest það sem á við í Danmörku á við á Íslandi. Enginn vafi er á að enskukunnátta er nauðsynleg til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi og það er heldur engin vafi á að Íslendingar hafa mikinn potential (það skilja mig vonandi allir) til að gera enskukunnáttu þjóðarinnar að sannkallaðri auðlind.

Sömuleiðis er ljóst að margir telja sig helvíti spræka í enskunni (og vissulega rétt að Meðal-Íslendingur geti örugglega bjargað séð sæmilega í talmálinu) er langt því frá að við séum einhverjir heimsmeistarar í málinu, sérstaklega þegar ritmálið er annars vegar.

Það væri góð hugmynd að hefja enskunám mun fyrr, til dæmis strax á fyrsta ári grunnskólans. Þrátt fyrir meintan rembing margra Evrópuþjóða eru flestir raunar að stíga skref í sömu átt. Meira að segja Þjóðverjar byrja að læra ensku 2-3 árum fyrr en Íslendingar og krafan um enskukennslu frá 1. bekk er orðin algeng þar í landi.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.