11/12

Við gleymum okkur flest í dagsins önn og tökum verðmætustu þáttum lífsins sem sjálfsögðum hlut, einhverri fastri breytu sem verður til staðar um aldur og æfi. Lífið er hins vegar ekki svo einfalt. Eins og oft áður á þessum degi verður hér fjallað um mikilvægan þátt í lífshamingju manna en það er vináttan.

Við gleymum okkur flest í dagsins önn og tökum verðmætustu þáttum lífsins sem sjálfsögðum hlut, einhverri fastri breytu sem verður til staðar um aldur og æfi. Lífið er ekki svo einfalt. Öllum er hollt að staldra við endrum og eins, velta fyrir sér inntaki lífsins og endurskoða sitt lífsmunstur. Eins og oft áður á þessum degi verður hér fjallað um mikilvægan þátt í lífshamingju manna en það er vináttan.

Vináttan getur verið hverful þótt hún standi á gömlum og traustum grunni. Ef komið er fram við vináttuna af léttúð, tillitsleysi eða lítilsvirðingu þá fjarar fljótt undan. Tímabundin reiði vegna einskisverðra mála eða meiðandi orð geta þannig bundið endi á dýrmæta vináttu þegar þeim er hugsunarlaust beint að þeim sem skipta okkur mestu máli. Vináttu verður að meta að verðleikum og leggja rækt við hana.

Þetta er vitaskuld gömul saga og ný. Mannkynssagan og heimsbókmenntirnar eru hlaðnar stefum um vináttuna. Hversu oft höfum við heyrt af einstaklingum sem hafa vaðið sjálfhverfir áfram án þess að skeyta nokkuð um fólkið í kringum sig, vaknað síðan upp einn góðan verðurdag búnir að ganga að samböndum við vini eða fjölskyldu dauðum. Eða af einstaklingum sem vanrækja trausta vini sína eftir að hafa eignast nýjan maka, nýja vini eða flutt í annað sveitarfélag. Þetta er því miður allt of algengt og það sorglega er að þessir einstaklingar eru yfirleitt ekki skeytingarlausir af illum hug heldur eingöngu af tómu hugsunarleysi. Við megum aldrei gleyma að hugsa um fólkið í kringum okkur.

Þetta á ekki síst við gagnvart okkar nánustu vinum. Við eigum flest nokkra vini sem við höfum tengst það sterkum böndum að ytri aðstæður eiga ekki að hafa áhrif á sambandið og eru þessir vinir þannig hafnir yfir erfiðleika, búsetu og stöðu í þjóðfélaginu. Viðkomandi vinir eru þannig á ákveðinn hátt orðnir hluti af okkur sjálfum og við ættum að geta verið aðskilin landfræðilega frá þeim í langan tíma og síðan tekið aftur upp þráðinn eins og ekkert hafi í skorist. Slíkir vinir eru vandfundnir. Þrátt fyrir að slík vinátta muni aldrei hverfa þá verðum við að koma fram við hana af natni og alvöru.

Það er því öllum hollt að setjast niður, horfa yfir sviðið og spá í það hvernig maður kemur fram við vini sína. Við eigum það allt of oft til að taka þeim sem gefnum og vanrækja þá í kjölfarið. Þetta á ekki síst við þegar maður hefur fjarlægst vini og kunningja vegna nýrra aðstæðna, sambanda eða staðsetningar.

Hins vegar þurfa nýjar aðstæður alls ekki að vera slæmar heldur geta hjálpað okkur að sjá hlutina úr fjarlægð. Stundum sér maður einfaldlega ekki tréin fyrir skóginum. Tímabundin fjarlægð og friður frá vinum og kunningjum getur þannig hjálpað manni að átta sig á verðmæti þeirrar vináttu sem maður nýtur frá þeim sem eru manni nákomnir. Maður sér þá hversu góða og dýrmæta vini maður á í raun og hversu skelfilegt væri að tapa þeim.

Góðir vinir eru eitt það dýrmætasta sem við eigum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.