Hafa tannhjól samvisku?

Reglulega koma upp mál sem vekja upp áleitnar spurningar um meðferð stjórnvalda á fólki sem leitar hér hælis. Það nýjasta, nú í vikunni, varðar brottvísun fjögurra egypskra barna ásamt foreldrum þeirra í ástand og aðstæður í heimalandinu sem haldið er fram að séu hættulegar. Brottvísun á fjórum saklausum börnum sem hér hafa verið í tvö ár, eignast vini, gengið í skóla og myndað djúp tengsl við samfélagið en fyrst og síðast fundið frið og öryggi. 

Kafka svífur yfir vötnum

Í reglugerð um útlendinga (nr. 540/2017) er nú að finna frekar afgerandi heimild til að veita börnum og barnafjölskyldum dvalarleyfi af mannúðarástæðum ef málsmeðferð hefur varað í sextán mánuði eða lengur. Það er óumdeilt að egypska fjölskyldan er búin að vera hér í 24 mánuði en engu að síður á að vísa henni úr landi. Ástæðan er sú að 15 mánuðum eftir komu hennar var formleg stjórnvaldsákvörðun tekin um að vísa þeim úr landi sem, í augum stjórnvalda, batt enda á málsmeðferðina.

Frá sjónarhóli ríkisvaldsins virðist nefnilega engu skipta að dregist hafi í heila 8 mánuði í viðbót að framfylgja þeirri ákvörðun, þótt ábyrgðin á brottflutningi sé algjörlega stjórnvalda. Með þessum kafkaísku rökum mætti vísa fjölskyldum í sambærilegri stöðu úr landi eftir jafnvel áratuga dvöl á Íslandi svo framarlega sem ákvörðunin sjálf hefði verið formlega tekin innan 16 mánaða frá komu þeirra til landsins.

Óbilgjörnustu afkimar kerfisins hafa síðan kennt fjölskyldunni um tafirnar. Sökum þess að vegabréf barnanna voru útrunnin þá þurfti að útvega ný vegabréf frá Egyptalandi. Glæpur fjölskyldunnar, í augum stjórnvalda, er að hafa ekki aðstoðað embættismennina við að útvega þessi vegabréf. Með öðrum orðum þá finnst kerfinu sjálfsagt að fólk sem óttast um líf sitt í Egyptalandi hjálpi til og flýti fyrir endurfundum við fjandsamleg stjórnvöld sem það óttast. Þess utan eiga börnin, sem undanþágunni er ætlað að vernda, ekki að líða fyrir háttsemi hinna fullorðnu.

Rétt er að geta að það var vissulega jákvætt þegar þessi undanþága var sett inn í reglugerðina. Engu að síður læddist að mörgum sá grunur að þessi undanþága eða smáskammtalækning myndi, eins og svo oft áður, fara öfugt ofan í kerfi sem hefur það leynt og ljóst að markmiði sínu að halda ákveðnu fólki úti. Reynslan hefur nefnilega sýnt að kerfi bregðast illa við öllum breytingum sem flækjast fyrir markmiði þeirra. Þvert á móti yrði breytingunni tekið af hinum forhertustu innan kerfisins sem tímamörkum og hvata til að koma öllum úr landi innan 16 mánaða – „hundaflautu“ sem býr til öfugsnúið og brenglað hvatakerfi.

Í því samhengi var grátlega upplýsandi að sjá kerfið taka til varna og neita að beita eigin undanþágu þegar hún var hælisleitendum til hagsbóta, sérstaklega þar sem börn áttu í hlut. Og ef undanþágan verndar ekki þessi börn. Hverja verndar hún þá?

Líf í lúkunum

Egypska fjölskyldan byggði umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu vegna stjórnmálaskoðana. Fjölskyldufaðirinn styður Bræðralag Múslima og láti hann skoðanir sínar í ljós eigi hann á hættu ómannúðlega meðferð í Egyptalandi og mögulega dauðarefsingu. 

Íslensk stjórnvöld telja hins vegar að það sé lítil hætta á því að þeir sem aðeins teljast stuðningsmenn bræðralags múslima en eru ekki virkir eða hátt settir liðsmenn verði fyrir áreiti stjórnvalda. Fjölskyldufaðirinn megi þó búast við að stjórnvöld fylgist með þeim. Á þeim grundvelli ákvað kærunefnd útlendingamála, síðasta von fjölskyldunnar og síðustu Íslendingarnir af mörgum sem hafa raunverulega haft líf þessara fjölskyldu í lúkunum, að neita að fresta réttaráhrifum brottvísunar og senda hana til Egyptalands. 

Ekki eru allir sammála þessu mati íslenskra stjórnvalda. Sem dæmi má nefna að í nýjustu skýrslu ástralska utanríkisráðuneytisins um ástandið í Egyptalandi (júní 2019) kemur m.a. fram varðandi stuðningsmenn Múslimska Bræðralagsins að:

„Muslim Brotherhood leadership figures and members who continue to pursue political activities actively either within or outside the party structure are highly likely to be arrested and prosecuted. Ordinary inactive members, party supporters and those with family links to members are less likely to be personally targeted, but still face a risk of arrest, prosecution, or dismissal from state employment should their affiliations become known to authorities. All persons with MB links are likely to be subjected to surveillance and monitoring of their activities.“

Þetta álit ástralska ráðuneytisins (sem þónokkur evrópsk útlendingayfirvöld hafa haft til hliðsjónar þ.á.m. hið breska) ætti ekki að koma á óvart. Egypsk stjórnvöld hafa skilgreint Múslimska bræðralagið sem hryðjuverkasamtök og skýrslur alþjóðlegra mannréttindasamtaka hafa frá 2013 verið þéttskrifaðar af tilvikum, dæmum og rannsóknum á morðum, pyntingum og ofsóknum á hendur stuðningsmönnum bræðralagsins. 

Ólíkt Íslandi þá halda áströlsk stjórnvöld úti myndarlegu sendiráði í Egyptalandi. Þau eru því í ágætri aðstöðu til að meta öryggisástandið í landinu og það er ljóst að það er alla vega einhver vafi á þeirri frumforsendu íslenskra stjórnvalda að lítil sem engin hætta bíði egypsku fjölskyldunnar. Í því samhengi verður að nefna að Ísland hefur skuldbundið sig að þjóðarrétti til að túlka alltaf slíkan vafa börnum í hag. Það, eitt og sér, hefði átt að vera nægjanleg röksemd til að beita undanþáguheimildinni.

Af hverju borða þau ekki kökur?

Að vanda eru svör stjórnmálamanna út í bláinn í þessu máli. Forsætisráðherra svarar að við getum að sjálfsögðu ekki tekið á móti öllum sem óska eftir alþjóðlegri vernd en því hefur engin haldið fram í þessu samhengi. Barnamálaráðherrann svarar að hann og dómsmálaráðherrann hafi rætt um að stytta málsmeðferðartíma þegar börn ættu í hlut.

Síðarnefnda svarið er orðið sérstaklega lúið. Í hvert skipti sem stjórnmálamönnum er legið á hálsi að vera ekki að gera nóg í málefnum hælisleitenda, þá berja þeir sér á brjóst fyrir að hafa stytt málsmeðferð eða bera á borð fagrar fyrirætlanir um að stytta hana enn frekar. Þannig standa þeir keikir fyrir framan myndavélar og bergmála möntruna um aukin málshraða. Eins og hann skipti einhverju raunverulegu máli.

Vandamálið er að aukinn málshraði gagnast yfirgnæfandi meirihluta hælisleitenda ekki neitt. Ef hælisleitendur væru spurðir þá myndu þeir líklega flestir setja aukinn málshraða mjög aftarlega á listann yfir þau réttindi sem þau óska eftir – á eftir t.d. réttinum til lífs, réttinum til að vera ekki handtekið án dóms og laga, réttinum til að vera ekki pyntaður eða beittur kynferðisofbeldi. Það að íslenska ríkið sendi það fyrr til móts við ótta sinn og hræðslu, í lífshættulegar eða ótryggar aðstæður, þar sem engin ofangreindra grundvallarmannréttinda eru virt, bætir líf þeirra ekki á nokkurn hátt.

Aukin málshraði er ekkert annað en hvít vestræn forréttindarök frá fólki sem, eins og Marie Antoinette forðum, er ekki í neinum tengslum við stöðu og þarfir skjólstæðinga sinna. Þessi mantra hefur einfaldlega aldrei verið kyrjuð með hagsmuni hælisleitanda að leiðarljósi heldur stjórnvalda og þeirra sem vilja losna við hælisleitendur úr landi sem fyrst. Aukin málshraði er nefnilega klæðskerasniðin straumlínulögun og kærkominn uppfærsla fyrir kerfi sem hefur frá upphafi verið hannað til halda fólki úti. 

Samviskuleysi tannhjólanna

Eins og svo oft áður þá vill engin taka ábyrgð á þessu óréttlæti. Þess í stað er vísað í lögin og kerfið eins og það hafi myndast í tómarúmi. Hins vegar, sama hversu mikið fólk vill það, þá getur kerfið ekki sjálft borið ábyrgð, haft réttindi eða skyldur. Það er mannanna verk og algjörlega á ábyrgð stjórnmálamannanna sem sköpuðu það og allra litlu tannhjólanna sem láta það ganga í öllum sínum ömurleika. Og allir þessir aðilar gefa kerfinu lögmæti og tilverurétt með þátttöku sinni í því. 

Á meðan stjórnmálamenn neita að gera kerfið mannúðlegra og tannhjólin halda áfram að snúast í fullkomnu samviskuleysi þá mun vélin malla áfram og ekkert breytast. Við munum halda áfram, eins og í þessu tilviki, að senda börn og fjölskyldur í ótryggar og hættulegar aðstæður – þar sem líkur eru á að þau muni skaðast.

Við munum aldrei sjá raunverulegar breytingar fyrr en stjórnmálamennirnir og öll hin tannhjólin, sama hvar þau eru eða hvaða tilgangi þau gegna í kerfinu, axla ábyrgð. Ekki gagnvart kerfinu heldur sjálfum sér sem góðhjörtuðum manneskjum og siðuðum einstaklingum, góðum og gegnum þjóðfélagsþegnum, foreldrum og mökum. 

Lagaumgjörð hælisleitendamála á Íslandi þarfnast vissulega endurskoðunar, sérstaklega varðandi réttindi barna. Engu að síður er  fullt rúm í núverandi lagaumgjörð fyrir stefnu sem byggir ekki á óbilgirni, tortryggni eða fordómum. Það stendur hvergi að það verði að vísa sex manna barnafjölskyldu úr landi eftir tvö ár. Þvert á móti stendur að það megi leyfa þeim að vera um kyrrt. Tannhjólin, stór og smá, þurfa bara að ákveða að þannig vilji þau haga málum. Haga vinnu sinni, haga samvisku sinni. Þetta er ekki flóknara en það.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.