Húmorsleysi, ofsóknaræði eða pólitísk rétthugsun?

Markaðsfólk og ímyndarsmiðir eru að mörgu leyti ekki öfundsverður hópur. Þeir mega í það minnsta ekki vera mjög hörundsárir eða taka það nærri sér þegar fólk tryllist eða verður mjög hneykslað og reitt vegna nýjustu markaðsbrellu þeirra. Fólk getur fettað fingur út í ólíklegustu hluti, þar á meðal saklausar auglýsingar eða aðra þætti markaðsherferða fyrirtækja, sem skaða ekki eitt einasta mannsbarn. Eða hvað?

Markaðsfólk og ímyndarsmiðir eru að mörgu leyti ekki öfundsverður hópur. Þeir mega í það minnsta ekki vera mjög hörundsárir eða taka það nærri sér þegar fólk tryllist eða verður mjög hneykslað og reitt vegna nýjustu markaðsbrellu þeirra. Fólk getur fettað fingur út í ólíklegustu hluti, þar á meðal saklausar auglýsingar eða aðra þætti markaðsherferða fyrirtækja, sem skaða ekki eitt einasta mannsbarn. Eða hvað?

Síðasta dæmi um útspil markaðsdeildar fyrirtækis sem fór illa í suma var þegar Íslandsbanki ákvað að gleðja námsmenn í menntaskóla og háskóla með því að senda þeim brúnkuklút til að hressa upp á útlitið í jólapróftörn. Var þetta saklaust grín eða ógeðfelldur áróður? Menn voru ekki á eitt sáttir um það.

Móðir 19 ára framhaldsskólanema í Reykjavík tók þessu alls ekki vel. Vakti hún máls á reiði sinni og hneykslan í fjölmiðlum þar sem hún vildi meina að Íslandsbanki hafi með þessari sendingu verið að senda neikvæð skilaboð til menntaskólanema á Íslandi. Margir staldra hér eflaust við og spyrja: ,,hvað, hvernig, ha, var þetta ekki bara grín? Er hægt að taka því illa þegar banki sendir viðskiptavinum sínum brúnkuklút?” Jú, það er hægt að taka þessu illa, í það minnsta taldi þessi umhyggjusama móðir að: ,,hin nýstárlega auglýsingaferferð Íslandsbanka hafi verið til þess gerð að hvetja ungmenni til að dýrka brúnt útlit, sem einnig er fengið með notkun sólarbekkja og veldur hrukkum og skorpnun fyrir aldur fram, auk krabbameinshættu (feitletrun pistlahöfundar).“ Er samt ekki punkturinn sá að það er ,,einnig“ hægt að ná fram þessu útliti með sólbekkjanotkun, en það var alls ekki verið að hvetja til hennar. Þvert á móti var verið að hvetja til þess að nota þessa áhættulausu aðferð sem sólbrúnkuklútar eru til að ná því sem telst vera heilnæmara útlit, sem auk þess er hægt að ná fram með hreyfingu og útiveru, en það er nokkuð sem eðli próflesturs virðist takmarka hjá námsmönnum.

En þetta er ekki það eina sem fer fyrir brjóstið á fólki. Ekki er langt síðan að sami banki sendi börnum í viðskiptavinahópi sínum súkkulaðidagatal sem keypt var hjá Lions. Fólk gat argast yfir því og talið að verið væri að hvetja til sykurneyslu barna. Landsbankinn fékk einnig hörð viðbrögð þegar saklaust bréf frá mótframlaginu þeirra fylgdi fréttablöðum einn morguninn og talið var að verið væri að hvetja til… hvers? Já eða skaða… hvern? Hvar er húmorinn? Ekkert má segja, aldrei má gera grín. Alltaf skal vera einhver sem tekur það óstinnt upp. Ef mér leyfist að sletta: “You just can´t win.” Af hverju getur fólk ekki bara slakað á og leyft markaðsfólki fyrirtækja að spreyta sig þegar það er virkilega ekki verið að ,,brjóta á“ neinum eða gera neinum neitt? Ég vil flokka þetta undir ofsóknaræði.

Auðvitað geta auglýsingar gengið of langt og þá er auðvitað oft tilefni til að vekja máls á því. En hvar liggja mörkin? Hverjum eða hverju má gera grín af og hverjum eða hverju ekki? Að mati pistlahöfundar liggja mörkin við það að ekki sé verið að hvetja óvita til athæfis sem er hættulegt lífi og heilsu (þá er ekki átt við framhaldsskólanema sem eiga að vita að það er óhollt að fara í ljós), ekki sé verið að lítillækka einhvern tiltekinn minnihlutahóp og bara einfaldlega að ekki sé um að ræða virkilega ,,þolendur“ gríns ef svo má segja. Að öðru leyti má auglýsa með hvaða hætti sem menn kjósa, sé það innan almennra siðsemismarka. Á endanum eru það jú fyrirtækin sjálf sem taka afleiðingum misheppnaðra auglýsinga með e.t.v. minni viðskiptavild. Annars hefur pistlahöfundur aldrei numið nein markaðsfræði en metur þetta út frá brjóstvitinu einu.

Fólk pirrast oft út í auglýsingar, enda oft tilefni til, en heldur þeim pirringi yfirleitt fyrir sig og kannski sína vini. Pirringurinn beinist þá yfirleitt að því að auglýsingaefni er leiðinlegt og hallærislegt og að algjör óþarfi sé að rjúfa útsendingu á spennandi OC þætti til að koma þessari leiðinlegu auglýsingu að. Þetta er aðeins spurning um smekk og þolmörk en ekki pólitíska rétthugsun.

Það er e.t.v. við hæfi að enda þetta á orðum markaðsstjóra Íslandsbanka, sem kannski ná að taka saman allt sem að ofan er sagt í þrjár setningar og sýnir hvað það er eftitt að standa að markaðsmálum:

„Við erum einfaldlega að hvetja okkar viðskiptavini til dáða í prófunum og lítum á þetta miklu meira sem grín en einhverja alvöru. Það er svo fjarri lagi að Íslandsbanki sé að ýta undir þá ímynd að hvítt fólk sé ljótt fólk,“ segir Elísabet og bætir við að það hafi hvorki hvarflað að forsvarsmönnum bankans né ímyndarsmiðum bankans í Hvíta húsinu að þetta yrði túlkað á þennan hátt.

Latest posts by Sigrún Helga Jóhannsdóttir (see all)