Smámenni með völd

Til áréttingar fyrir þá sem hafa verið andlega fjarverandi síðustu áratugina þá er stjórnvöldum aldrei heimilt að beita svelti eða vosbúð sem refsingu eða viðurlögum.

Í síðustu viku komst kærunefnd útlendingamála að þeirri niðurstöðu að Útlendingastofnun hafi ekki haft lagaheimild til að vísa hópi palestínskra hælisleitanda á götuna og svipta þá fæðispeningum. Umræddum hópi hafði verið synjað um vernd á Íslandi og átti að flytja hann til Grikklands. Hópurinn neitaði hins vegar að gangast undir COVID-próf sem var forsenda þess að Grikkland tæki við þeim og í kjölfarið svipti Útlendingastofnuna hann skjóli og allri aðstoð. Það liggur fyrir að hópurinn varð við þetta algjörlega upp á velvild almennra borgara kominn og hluti hans var án húsnæðis- og fæðispeninga í mánuð.

Við meðferð kærunefndarinnar kom í ljós að Útlendingastofnun hafði hótað skriflega að svipta hópinn öllum stuðningi ef hann sýndi ekki samstarfsvilja og færi að fyrirmælum lögreglu svo að flutningur gæti farið fram. Þegar hópurinn hlýddi ekki gerði Útlendingastofnun alvöru úr hótuninni. Með öðrum orðum ákvað íslenskt stjórnvald, fullkomlega meðvitað, að setja hóp ósjálfbjarga fólks  út á guð og gaddinn, bókstaflega svelta það og láta sofa úti – á Íslandi.

Að sjálfsögðu ætti ekki að þurfa að benda á þau grundvallarréttindi sem menn njóta á íslenskri grundu og eru m.a. varinn af stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. En til áréttingar fyrir þá sem hafa verið andlega fjarverandi síðustu áratugina þá er stjórnvöldum aldrei heimilt að beita svelti eða vosbúð sem refsingu eða viðurlögum. 
Það ætti því engan að undra að í niðurstöðu kærunefndar útlendingamála er staðfest að Útlendingastofnun hafi ekki haft heimild í lögum sem skjóti stoðum undir þessa ákvörðun. Kærunefndin áréttaði einnig að í íslenskum rétti gildi sú meginregla að stjórnvöld geta aðeins tekið íþyngjandi ákvörðun um skerðingu réttinda borgaranna hafi þau til þess skýra og ótvíræða lagaheimild. Það vekur hins vegar upp áleitnar spurningar um það hvernig Útlendingastofnun, íslensku stjórnvaldi, detti yfir höfuð í hug að taka svona ómannúðlegar og íþyngjandi ákvarðanir án  algjörlega óyggjandi lagastoðar.

Því miður er þetta langt frá því að vera einsdæmi. Fjölmörg tilvik hafa komið upp á síðustu árum sem benda sterklega til þess að meðal starfsmanna Útlendingastofnunar sé einhvers konar tengslarof við eigin mennsku. Nýjasta dæmið var í byrjun mánaðar þegar Landlæknir úrskurðaði að lög og reglur hefðu verið brotnar fyrir tveimur árum þegar móðir, gengin 36 vikur á leið, var send með flugi úr landi, þvert á eindregin mótmæli ljósmæðra og mæðraverndar Landsspítala. Þar skýldi Útlendingastofnun sig á bak við álit trúnaðarlæknis stofnunarinnar sem hafði víst hvorki hitt viðkomandi móður né hafði sérfræðimenntun á sviði kvenlækninga. Þrátt fyrir mótmæli þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem önnuðust móðurina var engu að síður ákveðið að senda hana í flug og þannig ógna öryggi og heilsu móður og barns.

Það er ljóst að fólk hefur margvíslegar skoðanir á málefnum flóttamanna – sumum finnst of langt gengið á meðan aðrir vilja ganga lengra. Það ættu hins vegar flestir að geta verið sammála um að við viljum ekki búa í þjóðfélagi þar sem fólk er svelt til hlýðni. Eða þar sem það er viðurkennt stjórnvaldsúrræði að senda ósjálfbjarga fólk á götuna. Svo ekki sé nefnt þjóðfélag þar sem stjórnvöld ógna öryggi og heilsu mæðra og ófæddra barna.

Það eru einungis smámenni sem misbeita völdum sínum með þessum hætti. Og það vekur upp spurningar um ábyrgð þeirra sem stjórna Útlendingastofnun. Stofnunin lýtur yfirstjórn dómsmálaráðherra og ber hann því endanlega ábyrgð á þessum ómannúðlegu ákvörðunum stofnunarinnar og fleiri í sama dúr. Ætlar hann að standa aðgerðalaus hjá á meðan fólk sem stjórnar stofnun á hans vegum tekur ólögmætar ákvarðanir sem ganga gegn þeim grundvallarréttindum og hugsjónum sem gilda hér á landi? Því ef ráðherrann bregst ekki við þá er hann um leið að samþykkja og gera að sínu þau ómannúðlegu viðhorf og ólögmætu vinnubrögð sem virðast tíðkast meðal þeirra sem taka ákvarðanir innan stofnunarinnar.

Það er tímabært að sýna að smámenni með völd ná ekki inn fyrir dyr dómsmálaráðuneytisins. 

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.