Tvískinnungur Seðlabankans og viðbrögð forsætisráðherra

Seðlabanki Íslands tilkynnti á föstudaginn um 0,25 prósentustiga hækkun á stýrivöxtum bankans. Það veldur vonbrigðum að bankinn skuli ekki hækka stýrivexti sína meira að þessu sinni. Það sem veldur þó enn meiri vonbrigðum er sá tvískinnungur sem einkennir inngang Peningamála. Tvískinnungur bankans nú vekur á ný upp efasemdir um stefnufestu bankans varðandi það að ná verðbólgumarkiði sínu eins fljótt og hægt er.

Seðlabanki Íslands tilkynnti á föstudaginn um 0,25 prósentustiga hækkun á stýrivöxtum bankans. Seðlabankinn tilkynnti þetta samhliða útgáfu Peningamála. Í inngangi Peningamála setur bankinn fram nýtt mat á stöðu efnahagsmála og rökstyður ákvörðun sína um hækkun vaxta.

Það veldur vonbrigðum að Seðlabankinn skuli ekki hækka stýrivexti sína meira að þessu sinni. Vaxtahækkunin er við neðri mörk þess sem markaðsaðilar höfðu spáð og flestir markaðsaðilar virðast sammála um að hún muni leiða til þess að gengi krónunnar og ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa lækki. Aðgerðin mun því að öllum líkindum draga úr aðhaldi peningamála frekar en hitt. Ef gengi krónunnar lækkar svo einhverju nemur getur það leitt til þess að væntingar um háa verðbólgu taka að grafa um sig á ný.

Það sem veldur þó enn meiri vonbrigðum er sá tvískinnungur sem einkennir inngang Peningamála. Annars vegar er fjallað í löngu máli um það hvað verðbólguhorfur eru dökkar og um hættuna á verðbólguskoti ef gengi krónunnar tekur að gefa eftir. En síðan þegar bankinn tekur að fjalla um það hvernig hann ætlar að bregðast við þessari stöðu kveður við allt annan tón. Bankinn nefnir að verðbólga hafi hjaðnað undanfarna mánuði og tilkynnir vaxtahækkun sem er við lægri mörk þess sem væntingar stóðu til (væntingar sem bankinn skapaði með harðorðum inngangi Peningamála í september). Það sem meira er þá gefur hann ekki einu sinni til kynna að hann muni líklega hækka vexti við næsta vaxtaákvörðunardag eins og hann hefur oft gert áður og búast mætti við í ljósi þess hvað þessi vaxtahækkun var lítil. Þess í stað setur hann fram hlutlausa sýn á þróun vaxta næstu mánuði.

Tvískinnungur bankans nú er sérstaklega bagalegur í ljósi þeirra skilaboða sem bankinn sendi frá sér við útgáfu síðasta heftis Peningamála í september. Þá var bankinn mjög harðorður. Hann skammaði markaðsaðila fyrir að búast ekki við meira aðhaldi en þeir þá gerðu og lýsti því yfir að vextir myndu þurfa að vera hærri en markaðurinn gerði þá ráð fyrir og að þeir þyrftu að vera háir lengur en markaðurinn gerði þá ráð fyrir.

Þessi skilaboð þóttu sannfærandi og gerðu það að verkum að gengi krónunnar og ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hækkuðu allnokkuð. Segja má að Seðlabankinn hafi endurheimt trúverðuleika sinn með þessari aðgerð. En há verðbólga undanfarin misseri og aðgerðaleysi bankans þegar verðbólgan rauf vikmörk verðbólgumarkmiðsins í annað sinn á árinu fyrr um haustið höfðu dregið verulega úr trúverðuleika bankans.

Tvískinnungur bankans nú vekur á ný upp efasemdir um stefnufestu bankans varðandi það að ná verðbólgumarkiði sínu eins fljótt og hægt er. Skilaboð bankans undanfarna mánuði hafa sveiflast til og frá. Það er því óhjákvæmilegt að markaðsaðilar fari að taki því sem bankinn segir með ákveðnum fyrirvara. Það er auk þess útilokað að horfa fram hjá því að skilaboðin sem bankinn sendir frá sér nú eru þau fyrstu sem koma frá bankanum eftir að Davíð Oddsson tók við formennsku bankastjórnar bankans. Þessi skilaboð lofa ekki góðu um viðhorf hans til mikilvægis þess að viðhalda verðstöðugleika.

Halldór Ásgrímssson, forsætisráðherra, hrósaði Seðlabankanum fyrir að hafa ekki hækkað vexti meira en hann gerði. Taldi hann ákvörðun bankans marka stefnubreytingu í rétta átt. Þá endurtók hann þá skoðun sína að ekki væru forsendur fyrir frekari vaxtahækkunum. Þessi viðbrögð Halldórs og sá þrýstingur sem hann hefur sett á Seðlabankann allt þetta ár eru vægast sagt gagnrýniverð.

Þrýstingur af þessu tagi gerir Seðlabankanum ef eitthvað er erfiðara fyrir en ella að lækka vexti þar sem bankinn vill ekki láta líta út fyrir að hann láti forsætisráðherra hafa áhrif á sig. Að svo miklu leyti sem þessi þrýstingur skapar væntingar á fjármálamörkuðum um minna peningalegt aðhald gerir hann Seðlabankanum erfiðara fyrir að draga úr þenslu þar sem hann veikir miðlunarferli peningamálastjórnarinnar. Allra verst er ef þessi þrýstingur ber tilætlaðan árangur og hefur raunveruleg áhrif á aðgerðir bankans. Þá leiðir hann til minna aðhalds og meiri verðbólgu og grefur hratt og örugglega undan trúverðugleika verðbólgumarkmiðsins.

Erlendis hefur á undanförnum áratugum skapast hefð fyrir því að ráðamenn lýsi ekki skoðunum sínum á aðgerðum seðlabanka landa sinna. Þessi hefð hefur skapast í kjölfar þess að ráðamenn og almenningur öðluðust skilning á mikilvægi sjálfstæðis seðlabanka. Í Bandaríkjunum er til dæmis talið mjög gagnrýnivert ef forsetinn reynir að beita seðlabankann þrýstingi. Það er hlutverk seðlabanka að “taka burtu bolluna þegar partíið stendur sem hæst svo það leiðist ekki út í einhverja vitleysu”. Slíkar aðgerðir eru eins langt frá eðli stjórnmálamanna sem hugsast getur. Það er þess vegna sem sjálfstæði seðlabanka er mikilvægt. Og það er þess vegna sem ráðamenn eiga að virða sjálfstæði Seðlabankans.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)